22.07.1946
Sameinað þing: 2. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

1. mál, bandalag hinna sameinuðu þjóða

Forsrh. (Ólafur Thors):

Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð, í októbermánuði 1944, var eitt af aðalstefnumálum hennar það að beita sér fyrir því, að Ísland yrði þátttakandi í alþjóðlegri samvinnu. Í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar var þetta stefnumál orðað á þessa lund:

„Stjórnin vill vinna að því að tryggja sjálfstæði og öryggi Íslands með því meðal annars:

1. Að athuga, hvernig sjálfstæði þess verði bezt tryggt með alþjóðlegum samningum,

2. Að hlutast til um, að Íslendingar taki þátt í því alþjóða samstarfi, sem hinar sameinuðu þjóðir beita sér nú fyrir.

3. Að undirbúa og tryggja svo vel sem unnt er þátttöku Íslands í ráðstefnum, sem haldnar kunna að verða í sambandi við friðarfundinn og Íslendingar eiga kost á að taka þátt í.“

Þetta stefnuskráratriði var í fullu samræmi við þá þörf hinnar fámennu, íslenzku þjóðar að leggja sinn litla en einlæga skerf til alþjóðlegs samstarfs í því skyni að efla bræðralag allra þjóða og stuðla að friðsamlegri lausn þeirra ágreiningsmála, er upp kynnu að koma þjóða á milli. Á styrjaldarárunum hefur íslenzka þjóðin sýnt vilja sinn í verki, hvað eftir annað, til hluttöku í slíku alþjóðlegu samstarfi.

Vorið 1943 var haldin í Bandaríkjunum fyrsta ráðstefna hinna sameinuðu þjóða, er háðu sameiginlega styrjöld gegn möndulveldunum. Til þeirrar ráðstefnu var einnig boðið nokkrum stuðningsþjóðum þeirra, Associated Nations, og var Ísland ein þeirra. Ráðstefna þessi fjallaði um matvæli og landbúnað. Kaus hún bráðabirgðanefnd til að undirbúa sáttmála fyrir matvæla- og landbúnaðarstofnun hinna sameinuðu þjóða (Food and Agriculture Organization of the United Nations). Var þessi sáttmáli undirritaður á fyrstu ráðstefnu stofnunarinnar í Quebec haustið 1945. Ísland var meðal þeirra ríkja, er undirrituðu sáttmálann. Gert er ráð fyrir, að matvæla- og landbúnaðarstofnunin verði ein þeirra sérstofnana, sem heyra undir fjárhags- og félagsmálaráð hinna sameinuðu þjóða.

Haustið 1943 var sett á stofn í Atlantic City í Bandaríkjunum hjálpar- og endurreisnarstofnun hinna sameinuðu þjóð.a, UNRRA (United Nations Relief and Rehabilitation Administration). Ísland hefur verið þátttakandi í þeirri stofnun frá upphafi og greitt rífleg framlög til hennar.

Sumarið 1944 var haldin fjármálaráðstefna hinna sameinuðu þjóða í Bretton Woods í Bandaríkjunum. Þar var ákveðið að setja á stofn alþjóðabanka (The International Bank for Reconstruction and Development) og alþjóðagjaldeyrissjóð (The International Monetary Fund). Átti Ísland fulltrúa á þessari ráðstefnu og undirritaði sáttmála um stofnun alþjóðabanka og alþjóðagjaldeyrissjóðs í Washington 27. desember 1945. Gert er ráð fyrir, að þessar stofnanir komi einnig undir fjárhags- og félagsmálaráð sameinuðu þjóðanna.

Í nóvember- og desember-mánuðum 1944 var haldin í Chicago alþjóða flugmálaráðstefna. Þar var komið á fót alþjóða flugmálastofnun (PlCAO — Provisional International Civil Aviation Organization). Ísland átti fulltrúa á ráðstefnunni og hefur síðan tekið þátt í starfsemi stofnunarinnar.

Haustið 1945 gerðist Ísland aðili að alþjóða vinnumálastofnuninni (International Labour Organization). Þessi stofnun var í allnánu sambandi við þjóðabandalagið. Standa nú yfir samningar um það, hvernig haga skuli samstarfi milli hennar og fjárhags- og félagsmálaráðs hinna sameinuðu þjóða.

Í beinu framhaldi af og í samræmi við þá þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi, er nú hefur verið greint frá, óskuðu Alþingi og ríkisstjórn þess í febrúarmánuði 1945 að gerast aðili að hinu fyrirhugaða bandalagi sameinuðu þjóðanna. Sú ósk er óbreytt enn. Eftir þeim fregnum, sem ríkisstjórninni hafa borizt, standa nú, vonir til þess, að við þeirri ósk verði orðið.

Ég mun nú í stórum dráttum rekja aðdragandann að stofnun þessa bandalags, skipun þess og starfshætti, en vísa jafnframt til álitsgerðar þeirra dr. Juris Einars Arnórssonar, fyrrv. hæstaréttardómara, og prófessors Gunnars Thoroddsens, alþm., sem fylgir tillögu ríkisstjórnarinnar.

Þegar heimsstyrjöldin síðari brauzt út, var það almennt álit manna, að þjóðabandalagið væri raunverulega úr sögunni. Á styrjaldarárunum komu upp raddir um það, að nauðsynlegt væri að stofna nýtt þjóðabandalag, í þeim tilgangi að tryggja heimsfriðinn, með víðtækari þátttöku stórveldanna og öflugra valdi heldur en hið fyrra þjóðabandalag átti að fagna. Í Atlantshafsyfirlýsingu Roosevelts Bandaríkjaforseta og Churchills forsætisráðherra Bretlands í ágústmánuði 1941 voru bornar fram óskir í þessa átt. Sú yfirlýsing var á nýársdag 1942 staðfest af 26 þjóðum, sem voru bandamenn í styrjöldinni. Á fundi utanríkisráðherra stórveldanna í Moskva í októbermánuði 1943 var lögð áherzla á nauðsyn þess að koma á fót alþjóðastofnun til þess að varðveita alheimsfrið og öryggi. Á fundum stjórnarforseta þessara fjögurra þjóða í Cairo og Teheran í lok sama árs voru þessar sömu óskir látnar í ljós. Þessi stórveldi unnu síðan að undirbúningi slíkrar stofnunar, og í ágúst og september 1944 var efnt til ráðstefnu um málið í Dumbarton Oaks í Washington. Þar náðist samkomulag, er nefnt hefur verið „Dumbarton Oakstillögurnar“, um að stofna bandalag, er bær í heitið „Hinar sameinuðu þjóðir.“ Var þar samið ýtarlegt frumvarp að stofnskrá, sem síðan var lagt fram á ráðstefnunni í San Francisco. En um ýmis atriði, sem voru óleyst í Dumbarton Oaks, var samið á Krímfundinum í febrúar 1945 af Churchill, Roosevelt og Stalín.

25. apríl 1945 kom saman ráðstefna í San Francisco til þess að stofna hið fyrirhugaða bandalag. Sú ráðstefna stóð til 26. júní. Þá undirrituðu fulltrúar 50 þjóða sáttmála hinna sameinuðu þjóða (Charter of the United Nations) ásamt samþykktum um alþjóðadómstól. Samkvæmt ákvæðum sáttmálans skyldi hann ganga í gildi, þegar stórveldin 5, Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Sovétríkin, og meiri hluti annarra ríkja, er undirrituðu hann, hefðu fullgilt sáttmálann. Samkvæmt þessu gekk sáttmálinn í gildi 24. október 1945.

Tilgangi stofnunarinnar og meginreglum er lýst í inngangi sáttmálans og fyrstu og annarri grein hans. Markmiðið er fyrst og fremst að bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum styrjalda, staðfesta trúna á mannréttindi og jafnrétti karla og kvenna og allra þjóða, hvort sem stórar eru eða smáar, að skapa skilyrði þess, að hægt sé að halda uppi réttlæti og virðingu fyrir skyldum þeim, er af samningum leiðir og öðrum heimildum þjóðaréttar, og að stuðla að félagslegum framförum og bættum lífskjörum við vaxandi frelsi. Til þess að ná þessu marki heita þjóðirnar því að sýna umburðarlyndi og lifa saman í friði, að sameina mátt sinn til að varðveita heimsfrið og öryggi, að tryggja, að vopnavaldi skuli ekki beitt nema í þágu sameiginlegra hagsmuna, og að starfrækja alþjóðaskipulag til að efla fjárhagslegar og félagslegar framfarir allra þjóða. Til þess að varðveita heimsfrið og öryggi ætla þær að gera virkar, sameiginlegar ráðstafanir og leysa deilumál ríkja á friðsamlegan hátt í samræmi við grundvallarreglur réttvísi og alþjóðalaga, efla vinsamlega sambúð þjóða á milli á grundvelli jafnréttis og sjálfsákvörðunarréttar, koma á alþjóðasamvinnu um lausn alþjóðlegra fjárhags-, félags-, menningar- og mannúðarmála og stuðla að virðingu fyrir mannréttindum og frelsi, án tillits til kynþátta, kyns, tungu eða trúar. Stofnunin á að vera miðstöð til að samræma aðgerðir þjóðanna í þessu skyni.

Önnur grein sáttmálans mælir fyrir um þær meginreglur, sem bandalagið og félagar þess skuldbinda sig til að fylgja.

Í fyrsta lagi byggist bandalagið á fullvalda jafnrétti allra félaga þess.

Í öðru lagi heita allir félagar að standa af heilum hug við skuldbindingar sínar samkvæmt sáttmálanum.

Í þriðja lagi skuldbinda allir félagar sig til að leysa milliríkjadeilur sínar á friðsamlegan hátt. Í fjórða lagi heita félagar því að beita ekki í milliríkjaskiptum valdi eða hótunum um valdbeitingu gegn landamærahelgi og stjórnlegu sjálfstæði nokkurs ríkis.

Í fimmta lagi skulu félagar veita sameinuðu þjóðunum alla aðstoð í aðgerðum þeirra samkvæmt sáttmálanum og mega ekki aðstoða nokkurt ríki, sem sameinuðu þjóðirnar beita aðgerðum gegn.

Í sjötta lagi skal bandalagið tryggja, að þau ríki, sem eru ekki félagar hinna sameinuðu þjóða, starfi í samræmi við þessar grundvallarreglur, að því leyti sem það er nauðsynlegt til að varðveita heimsfrið og öryggi. Sameinuðu þjóðirnar hafa þannig talið nauðsynlegt, að ríki utan bandalagsins hlíti meginreglum þess. Er stofnunin þannig skylduð til að tryggja, að slík ríki leysi ágreiningsmál sín með friðsamlegum hætti, beiti ekki ofbeldi og veiti jafnvel sameinuðu þjóðunum aðstoð í aðgerðum þeirra samkvæmt sáttmálanum. Er þannig ætlazt til, að sömu skuldbindingar hvíli að þessu leyti á ríkjum, sem eru utan bandalagsins, sem meðlimum þess.

Í sjöunda lagi er sameinuðu þjóðunum bannað að hlutast til um mál, sem eru að meginefni innanríkismál.

Annar kafli sáttmálans fjallar um inngönguskilyrði. Stofnendur hinna sameinuðu þjóða teljast þau ríki, sem tóku þátt í ráðstefnunni í San Francisco, og þau ríki, sem áður höfðu undirritað yfirlýsingu sameinuðu þjóðanna frá 1. janúar 1942 og staðfesta sáttmálann. Inngöngu síðar geta allar þær þjóðir fengið, sem teljast friðsöm ríki, takast á hendur skuldbindingar samkvæmt sáttmálanum og eru að áliti bandalagsins færar og fúsar til að fullnægja þeim skyldum. Allsherjarþing sameinuðu þjóðanna sker úr um inntökubeiðnir eftir tillögu öryggisráðs.

Allsherjarþingið getur eftir tillögu öryggisráðs svipt félaga félagsréttindum, og hafi hann hvað eftir annað brotið gegn meginreglum sáttmálans, víkið honum úr bandalaginu.

Um úrsögn úr bandalaginu eru engin ákvæði í sáttmálanum. Var þó rætt mjög um það atriði á ráðstefnunni í San Francisco. Niðurstaðan varð sú, að taka engin ákvæði í sáttmálann varðandi frásagnir. En ráðstefnan samþykkti ályktun í því máli. Segir í henni, að ráðstefnan telji það skyldu félaganna að halda áfram samstarfi í stofnuninni til viðhalds heimsfriði og öryggi. Hins vegar er gert ráð fyrir, að úrsögn sé réttlætanleg, ef bandalagið brygðist svo vonum mannkynsins, að því tækist ekki að halda uppi friði, eða gæti það því aðeins, að lögum og réttlæti verði traðkað. Einnig er aðila talið heimilt að ganga úr bandalaginu, ef sáttmálanum yrði breytt gegn vilja hans, á þá lund, að hann teldi sér ekki fært að búa við þær breytingar.

Þær skuldbindingar, sem ríki tekur á sig með þátttöku í landalagi hinna sameinuðu þjóða, eru í meginatriðum þessar:

1. Að lifa í friði, beita ekki vopnavaldi nema í þágu sameiginlegra hagsmuna, stuðla að félagslegum framförum og bættum lífskjörum, treysta trúna á mannréttindi, jafnrétti karla og kvenna og stórra og smárra þjóða.

2. Að uppfylla af heilum hug skuldbindingar sínar samkv. sáttmálanum, leysa milliríkjaágreining sinn friðsamlega, beita ekki valdi eða hótunum um valdbeitingu í alþjóðamálum. Veita sameinuðu þjóðunum alla aðstoð í sérhverri aðgerð þeirra samkvæmt sáttmálanum og aðstoða ekkert ríki, sem sameinuðu þjóðirnar beita aðgerðum gegn. Bandalagið á einnig að tryggja, eins og fyrr er getið, að ríki, sem eru ekki félagar sameinuðu þjóðanna, starfi í samræmi við meginreglur sáttmálans, að því leyti sem nauðsynlegt er til viðhalds alþjóða friði og öryggi.

3. Félagar skulu greiða kostnað við stofnunina eftir niðurjöfnun allsherjarþings. Er gert ráð fyrir, að þing það, er kemur saman í september, kveði á um þá skiptingu. Á þessu stigi er ekkert hægt að fullyrða um það, hver verður hlutur Íslands, en samkvæmt fjárhagsáætlun sameinuðu þjóðanna fyrir yfir standandi ár eru útgjöld stofnunarinnar áætluð 2;i milljónir dollara.

4. Félagarnir fela öryggisráðinu aðalábyrgð á varðveizlu friðar og öryggis og samþykkja, að öryggisráðið starfi fyrir þeirra hönd við framkvæmd skyldustarfa sinna.

5. Félagar sameinuðu þjóðanna fallast á að samþykkja og framkvæma ákvarðanir öryggisráðsins í samræmi við þennan sáttmála.

6. Aðilum deilu, sem er líkleg til að verða hættuleg heimsfriði og öryggi, er skylt að leita fyrst lausnar með samningatilraunum, rannsókn, miðlun, sáttaumleitan, gerð, dómsúrlausn, afnotum svæðisbundinna (regional) stofnana eða samninga eða öðrum friðsamlegum ráðum að eigin vali.

7. Ef eigi tekst að leysa deilu með þessum hætti, er aðilum skylt að tilkynna það öryggisráðinu.

8. Félagar skuldbinda sig til að hlíta ákvörðunum öryggisráðsins um það, hvenær sé fyrir hendi ógnun við friðinn, friðrof eða árás, og til hverra aðgerða skuli gripið samkvæmt 41. og 42. grein.

9. Öryggisráð getur ákveðið samkvæmt 41. gr. að beita öðrum aðgerðum en vopnavaldi: Að rjúfa að öllu eða nokkru viðskiptasamband og samgöngur með járnbrautum, á sjó, í lofti, með pósti, síma, útvarpi og öðrum samgöngutækjum og að slíta stjórnmálasambandi. Ráðið getur þá skorað á félaga bandalagsins að framkvæma þessar ráðstafanir, og er þeim þá skylt að gera það samkvæmt 25. grein.

10. Öryggisráðið getur ákveðið að hefja þær aðgerðir með lofther, sjóher og landher, sem það telur nauðsynlegt til að varðveita eða koma á aftur alþjóðafriði og öryggi. Slíkar aðgerðir geta falið í sér ögrun með hersýningum, hafnbann og aðrar hernaðaraðgerðir. Um skyldu einstakra meðlima til þátttöku í þessum aðgerðum fer eftir ákvæðum 43. greinar sáttmálans, sem nánar verður vikið að síðar.

11. Félagar skulu hafa hluta af lofther sinum reiðubúinn til fyrirvaralausrar notkunar við sameiginlegar hernaðaraðgerðir sameinuðu þjóðanna. Um þetta skal nánar ákveðið af öryggisráðinu með aðstoð herforingjaráðs sameinuðu þjóðanna innan þeirra takmarka, er samningar samkvæmt 43. grein mæla fyrir.

12. Félagar skuldbinda sig til að sameinast til að veita gagnkvæma aðstoð við framkvæmd þeirra ráðstafana, sem öryggisráðið hefur ákveðið.

13. Sameinuðu þjóðirnar skulu stuðla að: a) Bættum lífskjörum, atvinnu handa öllum, fjárhagslegum og félagslegum framförum. b) Lausn alþjóðlegra vandamála á sviði fjárhags-, félags- og heilbrigðismála og skyldra mála. Enn fremur alþjóðlegu samstarfi í menningar- og uppeldismálum. e) Að almennt séu virt og vernduð mannréttindi öllum til handa án tillits til kynþátta, kynferðis, tungu eða trúar. Skuldbinda meðlimir sig til að vinna að þessum markmiðum sameiginlega og hvor í sínu lagi í samvinnu við bandalagið.

14. Allir meðlimir sameinuðu þjóðanna eru um leið (ipso facto) aðilar að samþykktum alþjóðadómstólsins og skuldbinda sig til að hlíta úrskurðum hans.

15. Sérhver milliríkjasamningur, sem félagi sameinuðu þjóðanna er aðili að og gerður er eftir gildistöku sáttmálans, skal skrásettur hjá aðalskrifstofu bandalagsins og birtur af henni.

16. Ef skuldbindingar meðlima sameinuðu þjóðanna samkvæmt þessum sáttmála og skuldbindingar þeirra samkvæmt öðrum milliríkjasamningum rekast á, skulu skuldbindingar samkv. sáttmála sameinuðu þjóðanna ganga fyrir.

17. Félagar skulu veita stofnuninni þá réttarstöðu og sérréttindi, sem nauðsynleg eru fyrir starfsemi hennar. Er hér fyrst og fremst átt við svonefndan „exterritorial“ rétt starfsmanna og stofnana bandalagsins.

Aðalstofnanir hinna sameinuðu þjóða eru: Allsherjarþing, öryggisráð, fjárhags- og félagsmálaráð, gæzluráð, alþjóðadómstóll og aðalskrifstofa.

Æðsta stofnun bandalags sameinuðu þjóðanna er allsherjarþingið (General Assembly). Það skal halda fastan fund einu sinni á ári, en aukafundi eftir beiðni öryggisráðsins eða meiri hluta meðlima bandalagsins. Á allsherjarþingi eiga sæti allir félagar bandalagsins. Hvert ríki má hafa þar 5 fulltrúa, en við atkvæðagreiðslur telst hverju ríki eitt atkvæði. Yfirleitt ræður afl atkvæða á þinginu, en ákvarðanir þess í þýðingarmiklum málum skulu þó samþykktar með 2/3 hlutum viðstaddra meðlima. Til þeirra mála teljast meðal annars tillögur varðandi varðveizlu heimsfriðar og öryggis, kosning þeirra fulltrúa í öryggisráð, sem eiga þar ekki fast sæti, og inntaka nýrra meðlima. Hlutverk þingsins er meðal annars að hafa umræður og eftir atvikum gera ályktanir um mál varðandi hlutverk bandalagsins, stjórn þess og stofnanir í sambandi við það, um inntökubeiðnir, svipting félagsréttinda, brottvikning, breytingar á sáttmálanum, tillögur varðandi lausn deilumála, frið og öryggi ríkja í milli, um alþjóðasamvinnu í fjármálum, félagsmálum og menningarmálum o.s.frv. En meðan öryggisráðið hefur til athugunar mál út af deilum eða hættuástandi í milliríkjamálum, skal allsherjarþingið ekki gera neinar tillögur varðandi þau mál, nema öryggisráðið fari þess á leit. Sérhver félagi bandalagsins hefur heimild til þess að leggja fyrir allsherjarþingið mál varðandi varðveizlu heimsfriðar og öryggis, og öryggisráðið hefur rétt til að vekja athygli þess á hverju því ástandi, sem getur stofnað heimsfriði og öryggi í hættu. Enn fremur á aðalstjórn bandalagsins með samþykki öryggisráðsins að skýra við hvert þinghald frá þeim málum, sem öryggisráðið hefur haft til meðferðar. Það er skylda allsherjarþingsins að efna til rannsóknar og gera tillögur um hvers konar alþjóðasamvinnu á sviði stjórnmála, fjárhags-, félags-, menningar-, uppeldis- og heilbrigðismála, þróun þjóðaréttar og viðurkenningar mannréttinda, í stuttu máli sagt, og því er rétt að taka til meðferðar sérhvert mál, er varðar velferð þjóðanna.

Sú stofnun bandalagsins, sem fyrst og fremst er talin bera ábyrgð á því, að markmiði sameinuðu þjóðanna verði náð, er öryggisráðið. Það er skipað 11 aðilum. Föst sæti eiga þar stórveldin fimm: Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Sovétríkin. Hinir sex ráðsmennirnir skulu kosnir af allsherjarþingi til tveggja ára í senn. Um atkvæðagreiðslur innan ráðsins var gert samkomulag á Krímráðstefnunni í febrúar 1945, og hefur sú regla síðan verið nefnd Yalta-atkvæðareglan. Sú regla var samþykkt í San Francisco og er í því fólgin, að til allra ákvarðana, annarra un þeirra, sem snerta starfstilhögun ráðsins (procedure), þurfi samþykki 7 ráðsmanna, þar með talin atkvæði allra 5 stórveldanna.

Öryggisráðið skal starfa að staðaldri, og er meginverkefni þess að tryggja skjótar og haldgóðar aðgerðir af hálfu hinna sameinuðu þjóða til að tryggja varðveizlu heimsfriðar og öryggis. Félagar bandalagsins fela ráðinu jafnframt aðalábyrgð á því, að svo megi takast, og gangast undir að hlíta ákvörðunum þess til að ná því markmiði, eftir því sem nánar er greint í 41.–43. grein sáttmálans.

Í sjötta kafla sáttmálans er rætt um friðsamlega lausn deilumála. Öllum félögum bandalagsins er gert að skyldu að leita með friðsamlegum hætti lausnar á hverju því deilumáli, sem stofnað gæti í hættu heimsfriði og öryggi. Öryggisráðinu er heimilt að kveðja deiluaðila til þess að leita lausnar á ágreiningsmálum á þennan hátt og að hefja rannsókn á slíkum málum. Aðilum deilu er jafnan heimilt að vekja athygli öryggisráðs eða allsherjarþings á deilu eða vandamálum. Takist ekki að jafna deilu milli félaga bandalagsins, er þeim skylt að vísa málinu til öryggisráðs.

Þyki hins vegar friðnum hætta búin, skal öryggisráðíð taka til þeirra ráðstafana, sem sjöundi kafli sáttmálans kveður á um. Er þar gert ráð fyrir tvenns konar ráðstöfunum; annars vegar viðskipta- og samgöngubanni, hins vegar hernaðaraðgerðum.

Samkvæmt 39. grein sáttmálans er öryggisráðinu falið það vald að úrskurða, hvort fyrir hendi sé ógnun við friðinn, friðrof eða árás. Hver meðlimur bandalagsins verður að hlíta þeim úrskurði. Þessi regla felur í sér þýðingarmikla breytingu frá sáttmála hins fyrra þjóðabandalags, sem veitti hverju ríki úrskurðarvald um það, hvort það ástand hefði skapazt, að rétt væri að grípa til refsiaðgerða. Samkvæmt sáttmála sameinuðu þjóðanna eru það ekki hin einstöku ríki, félagar bandalagsins, heldur öryggisráðið, sem ákveður, hvort og hvenær þetta ástand hafi skapazt. Öryggisráðinu er með þessu fengið mjög víðtækt vald til að ákveða hverju sinni, hvort ógnun við friðinn, friðrof eða árás hafi átt sér stað, og samkvæmt 25. grein sáttmálans er hverjum félaga skylt að hlíta þeirri ákvörðun.

Þegar öryggisráðið telur, að slíkt ástand hafi skapazt, getur það í fyrsta lagi farið þess á leit við deiluaðila, að þeir hegði sér í samræmi við bráðabirgðaráðstafanir, sem ráðið stingur upp á. Ef aðili skirrist við að framfylgja slíkum ráðstöfunum, ber öryggisráðinu við frekari aðgerðir að taka tillit til þess. Í öðru lagi getur öryggisráðið ákveðið, að aðrar aðgerðir en hernaðarlegar skuli viðhafðar. Þær eru fólgnar í því að slíta viðskiptasamböndum, rjúfa samgöngur og stjórnmálasamband við hið seka ríki. Ef ráðið ákveður að grípa til slíkra einangrunaraðgerða, er hverjum félaga bandalagsins skylt að framfylgja þeim, en ef það veldur ríkinu sérstökum fjárhagsvandræðum, er því heimilt að leita ráða öryggisráðsins út af því.

Ef ráðið telur, að þessar viðskipta- og samgönguhömlur hafi ekki að gagni komið eða þær séu frá upphafi ónógar, getur það í þriðja lagi ákveðið hernaðaraðgerðir á landi, sjó og í lofti.

Um skyldur bandalagsins til þátttöku í hernaðaraðgerðum eru fyrirmæli í 43. grein sáttmálans. Sú grein er svo þýðingarmikil um skyldur meðlimanna, að rétt þykir að taka hana upp orðrétta. Greinin er á þessa lund:

„1. Í því skyni að stuðla að varðveizlu heimsfriðar og öryggis takast allir meðlimir hinna sameinuðu þjóða á hendur að láta öryggisráðinu í té, eftir áskorun þess og samkv. sérstökum samningi eða samningum, herlið, aðstoð og fyrirgreiðslu, þar með talinn umferðarréttur (rights of passage), eins og nauðsynlegt er til varðveizlu heimsfriði og öryggi.

2. Slíkur samningur eða samningar skulu ákveða tölu og tegund liðssveita, viðbúnað þeirra og almennt aðsetur og tegund þeirrar fyrirgreiðslu og aðstoðar, sem skal láta í té.

3. Gera skal samning þennan eða samninga eins fljótt og unnt er, að frumkvæði öryggisráðsins. Þeir skulu gerðir milli öryggisráðsins og einstakra meðlima eða meðlimahópa og skulu síðan fullgiltir af samningsríki samkvæmt stjórnskipunarreglum þess ríkis.“

Eins og greinin ber með sér, ber félögum bandalagsins að gera slíka samninga, en þó aðeins að frumkvæði bandalagsins. Ríkinu er skylt að gera samning, ef öryggisráðið fer þess á leit. Fyrr en samningur er gerður, hvílir engin skylda á ríki til að láta í té þá aðstoð, sem 43. grein mælir fyrir um. Hins vegar er ríki skylt að taka upp samninga, þegar öryggisráðið fer þess á leit, og getur ekki skotið sér undan þessum skuldbindingum með því að tregðast við að hefja samninga. Um aðferðina við samningsgerðina fer eftir venjulegum reglum um milliríkjasamninga. Þeir öðlast ekki gildi, fyrr en þeir hafa verið fullgiltir samkv. lögum hlutaðeigandi ríkis. Að því er Ísland snertir þarf því fullgildingu af hendi forseta Íslands, og ef um er að ræða kvaðir á landi, landhelgi eða lofthelgi, þarf enn fremur samþykki Alþingis samkvæmt 21. grein stjórnarskrárinnar.

Þegar til samninga kann að koma milli öryggisráðsins og Íslands um þessi mál, verður að telja, að öryggisráðið og Ísland séu að lögum jafnréttháir aðilar. Um þær viðskipta- og samgönguhömlur, sem 43. grein fjallar um, er hverju ríki skylt að hlíta ákvörðun öryggisráðsins. En um þær skyldur, sem 43. grein mælir fyrir um, hefur öryggisráðið ekki sjálfdæmi; ríki er ekki skylt að verða við öllum óskum þess um aðstoð, heldur er ætlunin sú, að framlög einstakra ríkja til hernaðaraðgerða séu samningsmál milli öryggisráðsins og hinna einstöku ríkja.

Aðstoð og fyrirgreiðsla (assistance and facilities) geta meðal annars falið í sér: beinar fjárgreiðslur, afhendingu matvæla, herbúnaðar, vopna og skotfæra, lán samgöngutækja: járnbrauta; bifreiða, skipa, loftfara, pósts, síma og útvarps, flutning herliðs, hergagna, vista, rétt til að flytja um yfirráðasvæði ríkis herlið, hergögn og annað, afnot herstöðva fyrir flugvélar, herskip, kafbáta og landher. En þótt allar þessar tegundir aðstoðar geti fallið undir 43. grein, leiðir ekki af því, að ríki sé skylt að láta þær allar í té, þótt öryggisráðið fari þess á leit, né það magn þeirrar tegundar aðstoðar, sem það fer fram á. Hefur það komið skýrt fram í umræðum um sáttmálann meðal annars í Bandaríkjunum og Svíþjóð, að hin einstöku ríki hafi heimild til að setja margvísleg og víðtæk skilyrði í væntanlegum samningum við öryggisráðið.

Annað atriði er svo það, hvort ríki sé skylt að láta í té umrædda aðstoð að staðaldri, varanlega. Sem dæmi má nefna, hvort Íslandi væri skylt samkv. 43. gr. sáttmálans að veita sameinuðu þjóðunum varanlegar herstöðvar hér á landi á friðartímum, ef öryggisráðið færi fram á það. En 43. gr. verður að skýra og skilja í samræmi við önnur ákvæði 7. kafla sáttmálans, og telja þeir lögfræðingar, er um málið hafa fjallað f.h. ríkisstjórnarinnar, að aðstoð og fyrirgreiðslu sé ekki skylt að láta í té í framkvæmd fyrr en öryggisráðið hefur úrskurðað samkvæmt 39. grein, að fyrir hendi sé ógnun við friðinn, friðrof eða árás. Íslenzka ríkið hefur aldrei háð styrjöld og aldrei haft herskyldu né herlið landsmanna. Ber að sjálfsögðu að taka tillit til þess í væntanlegum samningum íslenzka ríkisins og öryggisráðsins.

Öryggisráðinu til aðstoðar og ráða skal setja á stofn herforingjaráð, er skipað skal foringjum herforingjaráða hinna föstu meðlima öryggisráðsins. Þetta ráð skal ásamt öryggisráðinu bera ábyrgð á herstjórn þeirra herja, sem öryggisráðið hefur til afnota.

Sáttmálinn gerir ráð fyrir því, að hópar ríkja, sem eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta, geti myndað sérstök bandalög með svokölluðum svæðisbundnum samningum (regional arrangements). Er þar t.d. átt við bandalag Ameríkuþjóða og Arabaþjóða. Sáttmálinn leyfir tilveru og starfsemi slíkra sambanda, og öryggisráðið getur falið því ýmsar framkvæmdir, eftir því sem nánar greinir í 8. kafla sáttmálans.

Áður hefur verið getið um þær skuldbindingar, sem sáttmálinn felur í sér um fjárhags-, félags-, menningar- og mannúðarmál. Til þess að vinna að þeim málum skal stofnað til sérstaks fjárhags- og félagsmálaráðs, er skipað skal 18 mönnum, og skal það kosið af allsherjarþingi sameinuðu þjóðanna.

Loks skal þess getið, að með sáttmálanum er lögfestur alþjóðadómstóll (The International Court of Justice) í beinu framhaldi af hinum fyrri Haag-dómstóli, og er verkefni hans að skera úr ágreiningsmálum ríkjanna og láta stofnunum sameinuðu þjóðanna í té álit um lögfræðileg efni, þegar þess er óskað. Samþykktir dómstólsins skoðast sem hluti af sáttmála hinna sameinuðu þjóða.

Megintilgangur bandalags hinna sameinuðu þjóða er að varðveita alheimsfrið og öryggi. Hversu það tekst, verður engu um spáð. En það tvennt vekur von um árangur, að öryggisráðinu eru veittar rýmri heimildir til virkra og skjótra aðgerða en ráði hins fyrra þjóðabandalags, og að tvö stórveldi: Bandaríkin og Sovétríkin, sem tóku ekki þátt í þjóðabandalaginu gamla frá upphafi, eru nú frá öndverðu félagar hins nýja bandalags sameinuðu þjóðanna.

Ísland hefur aldrei háð styrjöld við aðrar þjóðir. Saga þjóðarinnar, eðli hennar og andi stefnir til hluttöku í hverju starfi, er vinnur að friði á jörðu.

Ég vil svo leyfa mér að vekja athygli á því, að til greina kemur að víkja aðeins við orðalagi tillögunnar eins og hún liggur fyrir á þskj. 1. Þar stendur: „Alþingi ályktar að veita ríkisstjórninni heimild til þess að sækja um inntöku Íslands í bandalag hinna sameinuðu þjóða og takast jafnframt á hendur fyrir landsins hönd þær skyldur.“ Það mætti eins segja: Alþingi ályktar að veita ríkisstj. heimild til þess fyrir hönd Íslands að sækja um inntöku í bandalag hinna sameinuðu þjóða og takast jafnframt á hendur fyrir landsins hönd þær skyldur, — þannig að tvímælalaust sé, að hvort tveggja, sem gera á, sé gert fyrir hönd Íslands. Í rauninni er ekki hægt að misskilja þetta, en mætti þó segja, að þetta væri skýrara, og vildi ég vekja á því athygli þeirrar n., sem fær málið til meðferðar.

Leyfi ég mér svo, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til utanrmn. til skjótrar afgreiðslu, eftir því sem fært þætti.