22.07.1946
Sameinað þing: 2. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

1. mál, bandalag hinna sameinuðu þjóða

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Þetta mál, sem hér liggur fyrir, hefur mjög lítið verið rætt meðal þjóðarinnar, og í rauninni vitum við þingmenn mjög lítið um það. Þetta er, eins og við vitum, í fyrsta skipti sem sáttmáli eða stjórnarskrá hinna sameinuðu þjóða hefur verið þýdd og lögð fyrir okkur hér á Alþingi. Á þskj. því, er hér liggur fyrir, er látið í ljós það álit ríkisstj., að það muni vera vilji okkar Íslendinga að gerast meðlimir hinna sameinuðu þjóða.

Ég hefði kosið, að fyrr hefði verið þýddur þessi sáttmáli, til þess að hægt hefði verið að ræða málið nánar á undanförnum mánuðum, því að það hefði þá legið ljósar fyrir heldur en þegar nú á að taka ákvörðun um það á einum eða tveim dögum. Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er tvímælalaust mjög stórt mál, og ég tel, að við séum flestir þess sinnis hér á Alþ. sem og íslenzka þjóðin yfirleitt, að við teljum þessa tilraun, sem þjóðirnar eru að gera til þess að tryggja friðinn og öryggi meðal þjóða, mjög mikilsverða og virðingarverða, og að við viljum leggja þar eitthvað af mörkum, ef við getum. En það er ekki hægt að neita því, að eins og nú standa sakir, er reynslan af gamla þjóðabandalaginu og reynslan, sem liggur fyrir fram til þessa dags um þessi mál, sú, að hún er að ýmsu leyti alls ekki hvetjandi fyrir þjóðirnar til þess að ganga inn í þetta bandalag. Hins vegar ber að líta á það, að þetta er önnur tilraunin, sem hér er verið að gera, og ef til vill heldur ekki þess að vænta, að það gangi betur heldur en það hefur gengið fram til þessa, en það þarf ekki að lýsa því fyrir þeim, sem hér eru, að útlitið er þannig, að það verður alls ekki talið glæsilegt eins og nú standa sakir. Ég ætla ekki að fara nánar inn á þetta, en vegna þess, hvernig málið er undirbúið, hvað lítið það hefur verið rætt meðal íslenzku þjóðarinnar og hve mönnum er lítið kunnugt um þær kvaðir, sem þeir taka á sig með því að ganga í þetta bandalag, og það jafnvel okkur þm. flestum, fyrr en þessi skjöl lágu fyrir undanfarna daga, og vegna þess hvernig horfir um bandalagið í svipinn, þá teldi ég það alveg skaðlaust, þótt þetta mál biði nokkurrar athugunar enn, fyrst ekki var hægt að leggja það fyrir þjóðina fyrr og upplýsa það betur heldur en enn er raun á. Ég verð að segja það, eins og kom líka fram í ræðu hæstv. forsrh., þá er það allmikið á huldu, eins og eðlilegt er, um sáttmála hinna sameinuðu þjóða, er hér liggur fyrir, hvaða kvaðir við tökum oss á herðar, þegar við gerumst þar meðlimir. Að því er mér virðist, þá eru þær fyrst og fremst í 43. gr. sáttmálans, og um þær ræddi hæstv. forsrh. Áður en Svíar gerðu sína ályktun um þessi mál, gáfu þeir út mjög ýtarlega greinargerð um þessi atriði og alveg sérstaklega um ákvæði 43. gr. Það kemur einnig fram í þeirri álitsgerð, sem okkar sérfræðingar í þessum efnum hafa gengið frá og fylgir hér með sem fskj. I, að þær kvaðir, sem hægt er að krefjast af okkur, geta orðið margvíslegar, eins og talið er hér upp í grg. á bls. 16: Beinar fjárgreiðslur, afhending matvæla, herútbúnaðar, vopna, skotfæra, lán samgöngutækja, járnbrauta, bifreiða, skipa, loftfara, pósts, síma og útvarps, flutningur herliðs o.fl., svo og afnot herstöðva. Það er alveg rétt, sem hæstv. forsrh. tók fram, að það þarf sérstakan samning til þess, að hægt sé að krefjast slíks af nokkurri þjóð, þótt hún sé meðlimur í þjóðabandalaginu, en það er líka réttilega bent á það af sérfræðingum okkar, sem hafa tekið málið til athugunar, að einhverja aðstoð verður hvert þessara ríkja að láta í té til þess að standa við skuldbindingar Samkv. 43. gr., enda væri þátttaka okkar í þjóðabandalaginu ekki mikils virði, ef við legðum ekki eitthvað af mörkum, utan þeirra peninga, sem þetta kostar, til þess að varðveita frið og öryggi, eins og það er kallað. En það er nú áreiðanlega mjög sterkur vilji fyrir því hjá þjóðinni og næstum einróma, að ekki komi til þess, að hér verði herstöðvar, og ég verð að láta þá skoðun mína í ljós, hvernig svo sem ég greiði atkv. um þetta mál, að ég tel, að það þyrfti að liggja fyrir frá hv. Alþ. nú þegar, að til þess gæti aldrei komið, að við vildum fórna því að leyfa varanlegar herstöðvar hér á landi. Virtist mér hæstv. forsrh. leggja á þetta áherzlu, þótt hann talaði óljóst um þetta atriði.

Viðkomandi úrsögn úr þjóðabandalaginu, þá er það nokkuð ljóst, að eftir þeim skýringum, sem hér liggja fyrir og hæstv. forsrh. minntist á, og eins og bent er á í ályktun þingsins í San Francisco 1945, á bls. 7–8, er það raunverulega undir dómi þjóðabandalagsins sjálfs komið, hvort úrsögn verði talin gild eða eigi, eins og segir á bls. 8 í þessari ályktun — með leyfi hæstv. forseta: „Mun mega telja svo í stuttu máli, að úrsögn sé gild, ef hún helgast af skerðingu félagsréttinda aðila eða er þeim rökum studd, er þing bandalagsins metur gild.“ Þjóðabandalagið leggur m.ö.o. á það megináherzlu, hvort hægt sé að segja sig úr því eða ekki, og er rétt að gera sér þetta ljóst. Hins vegar hefur verið á það bent í þessari álitsgerð, sem hér liggur fyrir, að sú þjóð, sem er ekki meðlimur þjóðabandalagsins, heldur stendur utan við það, geti vænzt þess samkv. ákvæðum 2. gr. lið 6, að gerðar verði ráðstafanir gagnvart henni af bandalaginu til þess að hún starfi í samræmi við grundvallarreglur þess að svo miklu leyti sem það er nauðsynlegt til varðveizlu heimsfriði og öryggi. Þó er ekki líklegt, að þjóð eins og við Íslendingar yrðum fyrir barðinu á slíkum ráðstöfunum, vegna þess að ólíklegt er, að við mundum nokkurn tíma gera þær ráðstafanir, sem ógnuðu heimsfriði. Þjóðir, sem eru utan við bandalagið, hafa samkv. 35. og 50. gr. þessa sáttmála tvímælalaust rétt til þess að bera upp fyrir þjóðabandalaginu mál, sem þau telja sér nauðsynlegt að fá dóm á eða aðstoð til þess að leysa. Þjóð, sem yrði fyrir ágengni einnar eða fleiri þjóða og telur sig ekki þess umkomna að geta afstýrt þeirri ágengni, getur og samkv. ákvæðum þessara gr., þótt utan við bandalagið sé, fengið leyfi til þess að fá aðstoð bandalagsins, þannig að þjóðir, sem standa utan við það, eru á engan hátt réttlausar, heldur njóta þær þeirra hlunninda, sem bandalagið veitir, sem og vænta má, því að slíkt landalag gæti ekki náð tilgangi sinum, ef það léti ágengni líðast gegn einhverri þjóð, þótt utan bandalagsins væri. Slíka gæti leitt til ófriðar, áður en varir.

Á þessu stigi er óneitanlega talsverður vandi að skera úr því, hvaða ákvörðun á að taka í þessu máli. Þetta mál verður sjálfsagt athugað í n., og skal ég ekki orðlengja um málið á þessu stigi. Hins vegar virðist mér það auðsætt mál, og það verðum við að gera okkur ljóst, að með því að gerast meðlimur hinna sameinuðu þjóða tökum við á okkur kvaðir, sem við á þessu stigi að vísu vitum ekki, hverjar verða, en getum gert ráð fyrir því, að þetta kosti í fjárframlögum, að því er hæstv. forsrh. gizkaði á, um 1/4 millj. kr. og að við munum þurfa að leggja eitthvað meira af mörkum en það, í hvaða mynd eða formi sem það verður, en það er ekki þar með sagt, að við eigum að skorast undan því, því að með því að gerast meðlimur leggjum við fram okkar litla skerf og þátttöku til þess að halda uppi og ná því markmiði, sem þjóðabandalagið hefur sett sér. — Manni virðist það tvímælalaust — og á það er bent í sænska nál. —, að þótt sérstaka samninga þurfi að gera um þau fríðindi eða aðstoð, sem ríki veitir þjóðabandalaginu, þá er rétt að gera sér það ljóst, að eftir að ríki er komið inn í þjóðabandalagið, þá hvílir á því ríki ákaflega þung siðferðisleg pressa um að verða við þeim kröfum, sem bandalagið fer fram á, en þótt það sé ekki skylda að verða við þessum kröfum, þá er talið mjög erfitt að neita þeim.

Að lokum vil ég aðeins benda á það, að mér finnst, að það hefði átt að leggja þetta mál fyrr fyrir, svo að hægt hefði verið að ræða það á undanförnum mánuðum og vikum, til þess að það lægi ljósara fyrir, og virðist mér því nokkuð mikill skyndibragur á meðferð þess, en vil þó vona, að það fari sem bezt.