23.07.1946
Sameinað þing: 3. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

1. mál, bandalag hinna sameinuðu þjóða

Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Það hefur löngum verið svo í sögu þjóðanna, að alltaf öðru hverju, eftir sérstaklega mikið umrót og miklar hörmungar, stórar styrjaldir, hafa risið upp raddir um það, að þjóðirnar ættu að taka höndum saman sem góðir félagar í einu alþjóðlegu samfélagi. Þessi alþjóðahyggja, ef svo má kalla, hefur stundum enzt nokkuð skammt. Alls konar hagsmunir einstakra landa og ríkja hafa gert það að verkum, að þessi alþjóðasamtök hafa orðið skammlíf og tiltölulega litlu til leiðar komið. Þó hefur alþjóðahyggja alltaf lifað í brjósti margra beztu sona þjóðanna, en fengið mismunandi sterkan hljómgrunn, eftir því sem tímarnir hafa verið. Stundum hafa talsmenn hennar verið rödd hrópandans í eyðimörkinni, en stundum hefur fjöldi manna skilið og virt þá hugsun, sem á bak við lá, um samtök meðal þjóðanna, í staðinn fyrir sundrungarhug, órétt og árekstra.

Það var vel mælt hjá hinum fræga stjórnmálamanni Jean Jaurés, að lítill alþjóðahugur leiði hugann burt frá föðurlandinu, en mikil alþjóðahyggja auki föðurlandsást. Þessi orð eru vissulega sönn og rétt, ef að er gáð; en sannindi þeirra hafa sjaldnast fengið viðurkenningu þjóðanna.

Eftir styrjöldina 1914–1918 var stofnað svokallað þjóðabandalag. Bak við það lá hin fagra hugsjón, sem mest var mótuð af kenningum Wilsons, þáverandi forseta Bandaríkjanna. Og það er ekki nokkrum vafa bundið, að margir af áhrifaríkum mönnum í heiminum fylktu sér með alvöru undir þau merki, sem voru hafin að hún eftir þau ófriðarlok. En því miður urðu þau alþjóðasamtök ekki að miklu gagni.

Það hafa þó verið einu alþjóðasamtökin, sem til mála gat komið, að Íslendingar gerðust þátttakendur í hingað til. En Íslendingar urðu aldrei þátttakendur í þeim. Til þess lágu margar orsakir og kannske ekki sízt sú, að Íslendingar voru þá í stjórnmálalegum tengslum við annað ríki á Norðurlöndum, Danmörku. Þegar lengra leið, kynni að hafa vaxið áhugi Íslendinga fyrir þjóðabandalaginu. En veg bandalagsins fór þá hnignandi, og því minni ástæða fyrir okkur að ganga í það. En á Alþingi 1927 var þó borin fram tillaga um, að Ísland gengi í þjóðabandalagið, eitt var ekki afgreidd.

Þegar komið var dálítið fram á styrjaldartímann síðasta, 1939–45, og vonir tóku að glæðast hjá sameinuðu þjóðunum um það að vinna sigur í þeirri styrjöld, tóku þær að hafa fundi sín á milli til að undirbúa alþjóðasamtök að stríðinu loknu. Frægur er Atlantshafssáttmálinn, sem gerður var á sínum tíma og undirritaður af Churchill og Roosevelt. Er hann að mörgu leyti sá grundvöllur, sem alþjóðabandalag hinna sameinuðu þjóða, sem nú hefur risið upp, var byggt á.

Þegar leið nokkuð fram á stríðið og Ísland varð, nauðugt viljugt, skulum við segja, að verða þátttakandi á orrustunni, sem þá geisaði, dró líka að því, að Íslandi væri boðin þátttaka í samtökum, sem vissulega voru annars eðlis heldur en þau alþjóðasamtök, sem nú hafa verið formlega stofnuð, en voru þó fyrirrennari þeirra.

Það kom bráðlega í ljós meðal Íslendinga, að þeir töldu sér bæði skylt og rétt að taka þátt í alþjóðasamtökum. Þekktust af þeim er hin alþjóðlega hjálparstofnun, sem íslenzka ríkið ákvað að vera þátttakandi í og hefur þegar af sinni hálfu lagt fram álitlega fjárhæð til hjálpar þeim þjóðum, sem mesta neyð hafa liðið í styrjöldinni síðustu.

Þegar lengra leið á stríðið og auðsætt var, að það mundi brátt enda, hófst enn þá meir í undirbúningur að alþjóðasamtökum. Og næst var drepið á dyr Íslendinga um það bil, er stríðinu var að ljúka, þegar spurningin um það var á döfinni, hvaða þjóðir meðal þeirra, sem þá stóðu utan við, vildu gerast aðilar í stríðinu. Ísland kaus ekki þann kostinn. En í stað þess lýstu alþingismenn á Íslandi yfir því, 25. febrúar 1945, að þeir vildu, að Íslendingar yrðu þátttakendur í alþjóðasamtökunum, þ.e. samtökum hinna sameinuðu þjóða, sem þá voru í undirbúningi. Seinna var þessi vilji íslenzka ríkisins einnig orðaður í svarnótu til ameríska sendiherrans hér á landi, 6. nóv. 1945. En þetta hvort tveggja má sjá á þingskjali 1, sem hér liggur fyrir.

Það var alveg sýnilegt, að koma mundi til þess áður en mjög langt liði, að íslenzka ríkið ákvarðaði það formlega, hvort það vildi gerast aðili í bandalagi hinna sameinuðu þjóða. Og nú, þegar komið var nokkuð fram á sumar, fékk ríkisstjórnin vitneskju um það, að ef Ísland hugsaði sér að gerast þátttakandi með haustinu, væri nauðsynlegt að ákvarða það mjög fljótlega.

Þegar þessi boð bárust ríkisstjórninni, kallaði hún strax saman utanríkismálanefnd, sem ræddi málið talsvert ýtarlega á tveimur fundum, áður en ákveðið var að kalla Alþingi saman. Þá var lagður fyrir utanríkismálanefnd sáttmáli hinna sameinuðu þjóða, bæði á ensku, sænsku og dönsku, og einnig allmiklar skýringar, sérstaklega frá Svíþjóð; en þá hafði nýlega verið ákveðið í sænska ríkisþinginu, að Svíþjóð æskti upptöku í bandal. hinna sameinuðu þjóða.

Það kom í ljós þá þegar í utanríkismálanefnd og í ríkisstjórninni, að það teldist eðlilegt, eftir því sem á undan er gengið, að íslenzka þjóðin tæki þátt í alþjóðasamtökunum og að Alþingi gerði yfirlýsingu um það. Væri því rétt að taka þetta mál til rækilegrar athugunar. En allir voru á einu máli, jafnt ríkisstjórnin sem utanríkismálanefnd, að ótækt væri, að ákvörðun um þetta yrði tekin með öðrum hætti en þeim, að Alþingi yrði kvatt til fundar og það ákvæði sjálft, hvað gera skyldi. Það er í sjálfu sér ákaflega eðlilegt, eftir að Ísland hefur gerzt sjálfstætt ríki, að það líti á sig sem eitt af þeim ríkjum, sem reiðubúin eru til að taka þátt í hverjum þeim alþjóðasamtökum, sem miða að öryggi og friði og framförum í heiminum. Nú lá það þannig fyrir frá hálfu sameinuðu þjóðanna í upphafsgerð sáttmála þeirra, að höfuðtilgangur bandalags sameinuðu þjóðanna er þetta, sem ég nú hef sagt. Enda þótt allir háttvirtir þingmenn hafi lesið það, sem um þetta greinir Í Sáttmálanum, skal ég leyfa mér að lesa upp þá höfuðstefnuyfirlýsingu, sem kemur fram í upphafi sáttmálans. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Að staðfesta að nýju trú á grundvallarréttindi manna, virðingu þeirra og gildi, jafnrétti karla og kvenna og allra þjóða, hvort sem stórar eru eða smáar;

Að skapa skilyrði fyrir því, að hægt sé að halda uppi réttlæti og virðingu fyrir skyldum þeim, er af samningum leiðir og öðrum heimildum þjóðaréttar;

Að stuðla að félagslegum framförum og bættum lífskjörum án frelsisskerðingar, og ætlum í þessu skyni.

Að sýna umburðarlyndi og lifa saman í friði, svo sem góðum nágrönnum sæmir,

Að sameina mátt vorn til að varðveita heimsfrið og öryggi,

Að tryggja það með samþykkt grundvallarreglna og skipulagsstofnun, að vopnavaldi skuli eigi beitt nema í þágu sameiginlegra hagsmuna, og

Að starfrækja alþjóðaskipulag til eflingar fjárhagslegum og félagslegum framförum allra þjóða.“

Þessi stefnuyfirlýsing sameinuðu þjóðanna hlýtur að vera einnig skoðun íslenzku þjóðarinnar. Og þó að íslenzka ríkið sé lítið, kotríki, eins og oft er undirstrikað, þá er það sjálfstætt ríki, og þess vegna ber því skylda til að athuga og ákvarða hverju sinni sem jafnréttisaðila við önnur ríki, hvort það eigi að taka þátt í samtökum þjóða á alþjóðlegum grundvelli. Og þegar stefnuyfirlýsingin er sú, sem ég hef minnzt á, fer ekki hjá því, að það hljóti að vera í samræmi við hag, vilja, skap, menningu og sögu íslenzku þjóðarinnar að taka þátt í þessum alþjóðasamtökum.

Það má vel vera, að Íslendingar orki litlu í alþjóðastjórnmálum. En alveg eins og Íslendingar voru ákveðnir í því að vilja mikið að sér leggja til að verða áfram sjálfstætt ríki, eins er það líka sjálfsagt og eðlilegt, að hið sjálfstæða, unga íslenzka ríki setji sitt lóð á vogarskálina í alþjóðasamtökum til stuðnings góðum málefnum. Og ekki hvað sízt ef verða mætti til þess að auka sjálfstæði og öryggi íslenzka ríkisins.

Þegar núverandi Alþingi var kvatt saman, var þetta mál lagt fyrir af hæstv. ríkisstjórn, og eins og vænta mátti, voru lögð fyrir þingið ýtarleg skjöl um þetta efni, sem hér liggja fyrir. Er það fyrst og fremst tillaga um að ganga í bandalag hinna sameinuðu þjóða, í öðru lagi greinargerð frá ríkisstjórninni, hvers vegna tillagan sé Fram borin. Í þriðja lagi er álitsgerð kunnáttumanna um það, hvað sambandssáttmálinn hafi að geyma, í fjórða lagi er texti sáttmálans á íslenzku og ensku.

Eftir að málið hafði verið lagt þannig fyrir, var það sent til utanríkismálanefndar, og eins og segir í nál. á þskj. 11, þá hefur nefndin haldið þrjá fundi um þetta mál og rætt það talsvert ýtarlega, og það tókst, eins og nál. sýnir, að komast að samkomulagi með öllum fulltrúum, sem eiga sæti í utanríkismálanefnd, en þeir eru frá öllum flokkum þingsins. Þetta nál. er ekki langt, enda fannst nefndinni ekki þörf að rita langt nál., svo mikil skjöl sem lágu fyrir þá þegar og svo miklar skýringar sem þegar höfðu verið gefnar af nefnd fræðimanna og vitnað til skýringa erlendra fræðimanna um það, hvað felst í sambandssáttmálanum. En þegar að því kemur, að Alþingi Íslendinga á að taka þá ákvörðun, sem nú liggur fyrir að taka, þá er ég ekki í vafa um það, að menn telji það miklu skipta, sem ég hef nefnt áður, að um leið og Ísland gerist sjálfstætt og fullvalda ríki, beri það fram ósk um að gerast aðili að sáttmála hinna sameinuðu þjóða.

En þá hlýtur að rísa upp sú spurning: Er það ekki einhverjum vandkvæðum bundið fyrir íslenzka ríkið að verða þátttakandi í þessum samtökum, sem geri það að verkum, að þótt Ísland sé fylgjandi skipulagi sameinuðu þjóðanna, þá séu á því svo mikil vandkvæði, svo miklir gallar, svo mikil áhætta, að ekki sé rétt að taka slíkt skref?

Það er alltaf svo, að hverjum félagsskap, þó að hann sé lítill, tiltölulega lítilvægur, það er svo í hverju þjóðfélagi og hverjum alþjóðafélagsskap, að honum fylgja bæði skyldur og réttindi.

Enginn aðili í neinum félagsskap getur búizt við því að fá réttindin ein, rétt, sem kynni að verða talinn allmikilsverður, en losna að öllu leyti við skyldurnar við félagið eða samtökin, hvort sem þau eru stór eða smá.

Það er ekki nokkrum vafa bundið, að hver sú þjóð, sem gengur inn í bandalag sameinuðu þjóðanna, verður að taka á sig skyldur, — skyldur, sem ekki verður sagt um enn þá á þessu stigi, en reynslan verður að sýna, hversu stórar eru og þungbærar, því að þótt sáttmálinn kunni að vera skýrt og greinilega orðaður, þá verður það með hann eins og lög og ályktanir, að reynslan verður að leiða í ljós, hvað kann að leiða af þessum sáttmála fyrir einstakar þjóðir og alþjóðasamvinnu.

Nú hefur verið rakið rækilega álit fræðimanna hér á Íslandi um þessi efni, hvaða skyldur hvert það ríki taki á sig, sem gengur í bandalag sameinuðu þjóðanna. Það yrði aðeins endursögn að minnast á þær skyldur, enda veit ég, að allir háttv. þingmenn hafa þegar reynt, eftir því sem tími hefur unnizt til, að athuga og kynna sér það efni, og ég mun þess vegna alls ekki í þessari framsöguræðu minni fara neitt nánar út í það atriði. En það ætti í mörgum tilfellum ekki heldur að vera óljúft fyrir neina þjóð að taka á sig skyldur samfara réttindum, ef skyldurnar mættu verða til þess að bægja frá dyrum þjóðanna þeim ógnum, sem við höfum allir horft á í síðustu styrjöld, og bægja frá þeirri eyðileggingu og hörmungum, sem gengið hafa yfir flestar þjóðir, þótt misjafnt hafi verið, og við Íslendingar þekkjum einnig að nokkru leyti.

Íslenzka þjóðin er fámenn og fátæk, en hún verður að gera sér ljóst, að hún verður að taka á sig einhverjar skyldur í þessu efni. Við tókum glaðir á okkur margra milljóna útgjöld til þess að reyna að bæta úr neyð og vandræðum víða um lönd, þegar við gerðumst aðilar að UNRRA eða alþjóðahjálparstarfseminni. Það er því ekkert að undra, þó að skyldur hljóti að leggjast á herðar hverri þeirri þjóð, sem tekur þátt í þessum samtökum. Spurningin er aðeins sú, hvort skyldurnar séu svo þungbærar, hvort ábyrgðin yrði svo mikil, hvort röskunin á hag þjóðarinnar yrði svo mikil við inngöngu hennar í bandalag sameinuðu þjóðanna, að það yrði þyngra á vogarskálinni en sá alþjóðarvilji, sem ég veit, að er á Íslandi fyrir því að taka þátt í alþjóðasamstarfi og reyna að hlynna að varanlegum friði og öryggi meðal þjóðanna.

Það má segja, að enginn okkar geti sagt um það með nokkurri vissu, eins og ég sagði áðan, hversu skyldurnar kynnu að verða þungbærar. En eitt er það atriði, sem ég skal nú koma að, og það er það eina atriði, sem utanríkismálanefni hefur dvalið við og minnzt er á í nefndarálitinu, en það er ákvæði 43. gr. alþjóðasáttmátans um skyldur þjóðanna, sem í bandalaginu eru, til þess að veita hernaðarleg réttindi, hernaðarlega aðstoð, ef upp kynni að rísa alþjóðleg deila með vopnavaldi eða hætta á, að alþjóðleg deila með vopnavaldi risi upp.

Nú hefur 43. gr. verið skýrð rækilega af okkar kunnáttumönnum, og álit þeirra liggur hér fyrir sem fylgiskjal I. Ég tel þessar skýringar svo réttar sem verða má og tel, að við getum ekki byggt á öðru en þeim skýringum, enda eru þær að mínu viti í fullu Samræmi við þær skýringar, sem komið hafa fram frá merkum og þrautreyndum kunnáttumönnum í alþjóðarétti í Svíþjóð og nefndin átti kost á að kynna sér og íslenzku fræðimennirnir hafa kynnt sér rækilega.

Spurningin, sem er á hvers manns vörum að gefnu tilefni út frá síðasta stríði, er þessi: Leiðir innganga Íslendinga í bandalag hinna sameinuðu þjóða það ekki óumflýjanlega af sér, að það verði erlendar herstöðvar á Íslandi?

Áliti Svíanna um þessi efni og áliti íslenzkra fræðimanna um þessi efni ber saman um það, að inngangan út af fyrir sig í sameinuðu þjóðirnar skapi engar slíkar skyldur. Hitt er aftur annað mál, þegar að því kemur, að ástandið er að áliti öryggisráðsins komið í það horf, að heimsfriðnum er hætta búin eða ógnað af einhvers hálfu, og það lýsti yfir því ástandi, að það yrði að bera fram ósk við flesta meðlimi sameinuðu þjóðanna að aðstoða á einhvern hátt við varnir vegna hinnar yfirvofandi hættu. Og þá kemur þetta ákvæði 43. gr. sáttmálans um það, að öryggisráðið geti samið eða átt frumkvæði að samningum um, að hinar sameinuðu þjóðir geri ákveðnar öryggisráðstafanir, ef — og ég vil undirstrika mjög þetta ef — ástandið í heiminum er slíkt að áliti öryggisráðsins, að styrjöld sé yfirvofandi eða ógnun við frið eða friðrof.

Og þá kemur að því, hvort til okkar yrði beint þeirri ósk, að hér yrðu hernaðarbækistöðvar, og hvort innganga okkar út af fyrir sig gæti gert það að verkum, að hernaðarbækistöðvum yrði komið upp á Íslandi.

Ég hef sagt áður, að álit fræðimanna innlendra og erlendra er á þá leið, að inngangan út af fyrir sig geri það ekki að verkum. En það gæti komið einmitt að því vegna þess, að við værum í sameinuðu þjóðunum, að reynt yrði að fá samninga um það af hendi öryggisráðsins, að hér yrðu kannske herstöðvar eða kannske samið um einhver önnur málefni, sem hverri frjálsri þjóð og sérstaklega smáþjóð væri mjög um geð að gera samninga um. En þeir samningar, ef gerðir yrðu, milli öryggisráðsins og Íslands, yrðu, til þess að metast gildir, að verða staðfestir á þann hátt, sem stjórnskipunarlög landsins segðu fyrir — yrðu þannig að fá samþykki á Alþingi og forseti síðan að staðfesta þá.

En það er ekkert um það sagt annað en að það eigi að gera samninga og það verði að gera samninga, ef til slíkra kasta komi. Og þá hlýtur að leiða af eðli málsins, að ef samningar takast ekki, þá kynni svo að fara, að ríki, sem ekki vill gera þessa samninga, yrði áfram í bandalaginu án þess að hafa gert þá, eða, ef mikið þætti liggja við, að þjóðin yrði að fara úr bandalaginu.

Og þá rís upp sú spurning, þegar svo langt er komið: Er þá ekki sýnilegt, af því að Ísland er í bandalaginu, að þá yrði það að gera hernaðarsamninga, sem það þyrfti ekki að gera, ef það yrði ekki í samtökunum?

Slíku er ekki til að dreifa, og er þar komið að miklum kjarna málsins. Í 2. gr. 6. málsgr. er gert ráð fyrir því, að eitt verkefni sameinuðu þjóðanna sé að fá þær þjóðir, sem eru ekki í bandalaginu, til að starfa í samræmi við grundvallarreglur þess og taka á sig þær skuldbindingar, sem nauðsynlegar væru til varðveizlu heimsfriði og öryggi. Tilvist íslenzka ríkisins í bandalagi sameinuðu þjóðanna yrði þess vegna ekki ein út af fyrir sig orsök þess, að slíkir samningar yrðu gerðir eða slíkar samningaumleitanir teknar upp, því að búast mætti við, ef slíkt alþjóðaástand skapaðist, sem leiddi til slíkra samningaumleitana milli öryggisráðsins og ríkisins, að þá yrði knúið á hjá fleiri en meðlimum bandalagsins, ef styrjöld væri talin yfirvofandi.

Munurinn er þá ekki mikill annar en sá, að þjóð, sem stæði utan við, yrði skoðuð sem hornreka í alþjóðasamtökum, eins og félagsskítur eða verkfallsbrjótur, og það yrði litið á hana sem aðila, sem væri síður vandgert við en þá þjóð, sem með góðvilja vildi sýna, að hún vildi vera í samtökunum, og þar er komið að þeirri ástæðu, sem ég ætla, að verði einna þyngst á metunum fyrir utan það, sem ég hef bent á, að tilvist Íslands í bandalaginu ætti að geta styrkt, en ekki veikt aðstöðu okkar, ef til þess ástands kæmi, að bandalagið teldi sér skylt og rétt að leita til annarra þjóða, m.a. Íslands, til að fá þar einhverja hernaðarlega aðstöðu.

Það kemur greinilega fram í nál. utanríkismálanefndar á þskj. 11, að það er álit utanríkismálanefndar, stutt af áliti innlendra og erlendra fræðimanna, að meðlimum sambandsins sé áskilinn samningsréttur, ef öryggisráðið samkvæmt 43. gr. fer fram á einhvers konar hernaðarlega aðstoð, en engar slíkar skyldur felist í sáttmálanum, heldur verði að gera út um slíkt með samningum. Um það erum við allir í utanríkismálanefnd, ríkisstjórn og fræðimenn utan nefnda á einu máli og erlendir fræðimenn einnig, eftir því sem vitað er.

En svo bætir nefndin við, og ég veit, að ýmsir hafa veitt þeirri viðbót sérstaka athygli: „Íslendingar eru eindregið andvígir herstöðvum í landi sínu og munu leita sér gegn því, að þær verði veittar.“

Um leið og nefndin undirstrikar, að samkvæmt 43. gr. hafi öryggisráðið aðeins rétt til samninga við Ísland, þá segir nefndin, að Íslendingar vilji ekki hafa herstöðvar á Íslandi. Skilningurinn á greininni er að mínu áliti alveg ótvíræður og viljinn, sem þar kemur fram, líka fullkomlega skýr.

Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að skýra frá því, að utanríkismálanefnd hefur í þessum viðræðum sínum alltaf haft náið samstarf við hæstv. ríkisstj., og bar þá á góma milli utanríkismálan. og hæstv. forsrh. og utanrrh., að vel væri, að þessi yfirlýsti vilji, sem þar kom fram í nál., yrði formlega kunngerður umboðsmönnum þeirra erlendu ríkja, sem mest er undir komið, að um þetta viti. Það varð því að samkomulagi milli utanríkismálan. og hæstv. forsrh., að strax og till. hefur verið samþ., þá mundi ráðuneyti hans senda fulltrúum stórveldanna fjögurra, sem fulltrúa hafa hér og eru fastir meðlimir öryggisráðsins, Bandaríkjanna, Breta, Frakka og Rússa, ályktunina sjálfa, eins og frá henni verður gengið, og nál. það, sem hér liggur fyrir og m.a. hefur að geyma þessa ákveðnu viljayfirlýsingu Alþingis Íslendinga, og að frændþjóðum okkar eða umboðsmönnum þeirra í bandalaginu yrði einnig send þessi ályktun og nál., sem hér liggur fyrir, og að ríkisstjórnin athugi, áður en hún leggur fyrir öryggisráðið inntökubeiðni Íslands í bandalag hinna sameinuðu þjóða, hvaða form væri þar viðeigandi og hvaða skjöl og skilríki þætti rétt og eðlilegt, að fylgdu slíkri umsókn til öryggisráðsins og sameinuðu þjóðanna.

Við í nefndinni og ríkisstjórnin teljum mikils um vert, að vilji Alþingis Íslendinga komi skýrt og ótvírætt fram um þetta efni, að það sé bæði vilji þingsins og íslenzku þjóðarinnar, að erlendar herstöðvar verði ekki á Íslandi.

Ég mun svo ekki skýra frekar þetta mál, a.m.k. ekki á þessu stigi þess, en láta mér nægja að vísa til þeirrar miklu grg., sem hér liggur fyrir á þskj. 1. Ég vil aðeins geta þess, að utanrmn. leggur til, að till. til þál. um inntökubeiðni Íslands í bandalag hinna sameinuðu þjóða verði breytt nokkuð að orðalagi, og er það gert í samræmi við það, sem hæstv. forsrh, drap á, er hann lagði málið fyrir Alþingi. Það er aðeins orðalagsbreyt., gerð til þess að gera hana skýrari og ákveðnari að hugsun, en engin efnisbreyting.

Ég vil svo að lokum aðeins segja það, að það er áreiðanlega stórt og mikilvægt spor, þegar hið unga íslenzka lýðveldi ákveður sig jafnréttisaðila í þeim alþjóðasamtökum, sem vonir alls heimsins byggjast nú á, að hægt verði að bjarga framtíðinni frá ógnum styrjalda. Það er stórt og mikið spor, eftir að við erum orðnir fullvalda og sjálfstætt ríki, en það er eðlilegt spor í þá átt að verða jafnréttisaðili með öðrum ríkjum, eðlilegt spor í þá átt að gera það, sem rétt er og skynsamlegt og, að því er virðist, til þess að tryggja frelsi og öryggi íslenzka lýðveldisins. Einmitt í fullri trú á það, að þátttaka Íslands í þessum samtökum eigi að verða til þess, að Ísland með því tryggi betur öryggi sitt og sjálfstæði, vil ég f.h. utanrmn. leggja eindregið með því, að Alþingi Íslendinga samþykki þá till., sem hér liggur fyrir.