23.07.1946
Sameinað þing: 3. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

1. mál, bandalag hinna sameinuðu þjóða

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Ég geri ráð fyrir, að margir hv. þm. muni láta í ljós skilning sinn á þessu máli. Ég fyrir mitt leyti mun reyna að setja fram mitt sjónarmið í sem stytztu máli. Ég sagði í upphafi og kem aftur að því síðar, að málið horfir nú nokkuð öðruvísi við en leit út fyrir, á meðan það var til meðferðar í utanrmn. Af þeim till., sem nú eru fram komnar, tel ég að leiða muni, að ólíklegt sé, að lögð muni verða áherzla á að afgreiða málið nú í kvöld, eins og ætlað var.

Spurningin, sem hér liggur fyrir, er sú, hvort við eigum að ganga í bandalag hinna sameinuðu þjóða. Ég get að ýmsu leyti tekið undir með hv. frsm., þó að ég sé ekki eins bjartsýnn og hann á kosti þess. Ég tel, að slíkri ákvörðun fylgi bæði kostir og gallar, og ber að meta það og vega, hvort mönnum þyki kostirnir meiri en gallarnir. því er ekki að neita, að okkur hlýtur að vera hugleikið, að hægt sé að leysa vandamálin á friðsamlegan hátt, og ættum við því að verða síðastir til að skerast þar úr leik, ef ágallarnir reynast ekki svo stórvægilegir, að við hljótum að telja þá meiri en kostina. Það er ekki heldur hægt að ganga fram hjá því, þegar verið er að meta þessi atriði, að ekki lítur vel út með þessi samtök nú í svipinn. Þar eru ýmsar blikur á lofti, og sýnist jafnvel erfitt að halda bandalaginu saman, svo að jafnvel getur sýnzt sem það vilji klofna í tvær andstæðar heildir. En mér sýnist þó sem kostirnir muni reynast meiri en gallarnir, ef rétt er frá gengið af okkar hálfu. Ef hugsjón bandalagsins rætist, þá er tvímælalaust gott, að við séum í bandalaginu, en takist það ekki, sé ég ekki, að neinu sé við það tapað, að við séum í því, og má þá alltaf athuga, hvort réttara sé, að við stöndum einir eða göngum í einhverja þeirra ríkisheilda, sem skapast kunna upp úr bandalaginu.

Ég býst við, að það sé vilji íslenzku þjóðarinnar, að við göngum í bandalagið, ef allrar varúðar er gætt. En í sambandi við þetta eru nokkur atriði, sem þjóðin ætlast til, að við gjöldum varhygðar við, og óneitanlega er það galli, að þjóðinni hefur ekki gefizt kostur að kynnast málinu til hlítar. Og þegar á það er lítið, hvort við eigum að ganga í bandalagið eða ekki, hljótum við þrátt fyrir góðan vilja til að taka á okkur kvaðir og skuldbindingar til að létta undir eftir getu með því, að sameinuðu þjóðirnar megi ná því takmarki, er þær hafa sett sér með sáttmála sínum, að íhuga það, að hvaða leyti kvaðirnar kunni að vera okkur hættulegar eða ofviða. Bandalagið getur ekki ætlazt til þess af okkur, að við tökum á okkur kvaðir umfram getu okkar. Það er engin eigingirni í þessu sjónarmiði. Þetta sjónarmið hefur einnig komið fram hjá ýmsum öðrum þjóðum, sem tekið hafa þetta mál til athugunar, áður en þær gengu í bandalagið. Hv. 5. landsk. minntist á þessi sjónarmið í framsöguræðu sinni, að því er varðar Svía og Bandaríkjamenn. Bandaríkjamenn töldu sér t.d. ekki skylt að senda her út fyrir ákveðin áhugasvæði, en þau hafa nú hvað eftir annað orðið að senda her og fórna til mörgum mannslífum að skakka leikinn annars staðar í heiminum.

Það, sem Svíar leggja sérstaklega niður fyrir sér, er, hvort þeir muni verða skyldaðir til að leggja fram óeðlilega mikinn herafla, og þó einkum, hvort þeir yrðu skyldaðir til að leyfa umferð hers yfir land sitt og herstöðvar í landinu.

Það, sem ég álít, að leggja beri áherzlu á frá okkar hendi, og sérstaklega það, sem við þurfum að varast, er tvennt: það er í fyrsta lagi það, að við yrðum skyldaðir til þess að taka beinlínis þátt í hernaði, vegna sögu okkar, vegna þess, að við erum og höfum alltaf verið vopnlaus þjóð, en ég tel ekki sérstaka ástæðu til þess að taka þetta fram fyrir þá sök, að þetta hefur áður verið bent á. Og ég tel engar líkur til, að þær kröfur verði gerðar til okkar, fyrir þá sök, að það mundi svo litlu máli skipta í herstyrkleika þjóðarinnar. En sjálfsagt er að hafa þetta í huga, ef gengið yrði í bandalag hinna sameinuðu þjóða.

Hitt atriðið, sem ég fyrir mitt leyti legg megináherzlu á og orðaði þegar í utanrmn. á fyrsta fundi hennar, þegar þessu máli var hreyft, og minntist á hér við l. umr. þessa máls og hef jafnframt lagt áherzlu á í starfi mínu í n. síðan málið kom til hennar, er það, að við séum ekki skyldaðir til þess að hafa hér herstöðvar. Og í því sambandi hefur verið rætt um það í n., hvernig þessu mætti koma fyrir.

Í þeirri álitsgerð, sem Alþ. lætur frá sér, er mælt á þann veg, að tryggt væri, að alls ekki þyrfti til þess að koma. Ég vil geta þess hér, að bak við okkur, fulltrúa Framsfl. í n., stendur flokkurinn óskiptur að þessu atriði. Við gerðum það þess vegna að okkar till., sem mun einnig vera vilji annarra flokka eða fulltrúa annarra flokka í n., þó að við orðuðum það fyrstir, að tekið væri upp í sjálfa till. álit, sem er samhljóða því, sem kemur fram í nál., að ef ríkisstj. notaði heimildina til þess að ganga í bandalag hinna sameinuðu þjóða, væri það jafnframt skýrt tekið fram í till., að það væri skilningur Íslendinga á 43. gr. sáttmála hinna sameinuðu þjóða, að þegar samningar væru teknir upp um tillag okkar eða aðstoð vegna hernaðarhættu eða hernaðar, þá væri það á okkar valdi að ráða því, hvert tillagið yrði, og í annan stað að lýst væri yfir, að það væri stefna Alþ. að leyfa engar herstöðvar í landinu. Ég er þeirrar skoðunar, að það skipti algerlega máli, að Alþ. sé sem mest samhuga í þessu máli, og þess vegna var það, að ég tók tillit til þess sjónarmiðs, sem aðrir hv. þm. höfðu; að tekin væri upp í nál.málsgr., sem hv. frsm. þessa máls las sérstaklega upp og ég þarf ekki að endurtaka. Með öðrum orðum það, að við tókum skýrt fram, að við skildum 43. gr. sáttmálans þannig, að þegar leitað væri samninga við okkur, þá sé það á okkar valdi að ráða, hvað tillag okkar verður, og það sé okkar ætlun að leigja alls ekki herstöðvar. Og eins og hv. frsm. tók fram, er ætlunin, að þetta verði tilkynnt fjórum þeim stórveldum, sem hér hafa fulltrúa og eru höfuðuppistaðan í öryggisráðinu, og einnig fulltrúum Norðurlanda.

Við fulltrúar Framsfl. í n. höfðum heldur kosið og stungið upp á því, að ályktunin sjálf ásamt grg. yrði þýdd á það erlenda tungumál, sem nú er aðallega notað í viðskiptum milli þjóða, og grg. þannig þýdd send framkvæmdastj. öryggisráðsins um leið og beðið væri um upptöku í bandalag hinna sameinuðu þjóða. En þó að ekki væri við þessu orðið, töldum við ekki ástæðu til þess að kljúfa okkur frá, fyrir þá sök að ég vænti, að sú aðferð, sem hv. frsm. skýrði frá, muni einnig koma að gagni, og ef til vill að sama gagni og við stungum upp á, þ.e., að tilkynnt væri beint til framkvæmdastj. öryggisráðsins.

Ég skal svo ekki gera þessi atriði að frekara umræðuefni. Ég hef skýrt afstöðu mína til þessa máls og á hvern hátt samkomulag náðist um nál., sem hér liggur fyrir. En án þess að ég vilji á þessu stigi málsins ræða efnislega um þá dagskrá, sem fram er komin, né, brtt. við þáltill., þá vil ég þó taka þetta fram: Ég álít, að það samkomulag, sem felst í nál., sé byggt á því, að um þetta mál sé einhugi allra í n., og ég álít enn sem fyrr, að það sé nauðsyn að ná sem beztu samkomulagi um afgreiðslu þessa máls hér á Alþ., og ég álít, að eftir að þessi till. er komin fram, verði naumast hjá því komizt, að málið fái ekki afgreiðslu í kvöld, því að þarna er till., sem ekki snertir að öllu leyti þetta mál, og þess vegna nauðsynlegt, að það sé ekki afgreitt með neinu flaustri eða flýti. Ég álít eðlilegustu aðferðina við lausn þessa máls, sem hér liggur fyrir, að frestað væri fundi og málið rætt e.t.v. að einhverju leyti í n., og a.m.k. gefa flokkunum tíma til þess að ræða þau nýju viðhorf, sem skapazt hafa vegna þessarar dagskrártill. og þessarar brtt., sem fram hafa komið. Ég sagði áðan, að ég ætlaði ekki að ræða nú hvorki dagskrártill. né brtt. efnislega, en aðeins að láta þessa skoðun í ljós, að ég lít svo á, að þetta væri sú eðlilegasta og ég hygg alveg sú nauðsynlegasta leiðin til þess að afgreiða málið, en ef það verður ekki gert, þá mun ég að sjálfsögðu ræða dagskrána og brtt. efnislega og það innan stundar.