25.07.1946
Sameinað þing: 4. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

1. mál, bandalag hinna sameinuðu þjóða

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Út af því nýja viðhorfi, sem hefur skapazt í þessu máli, vil ég gera grein fyrir afstöðu minni og okkar nm. Framsfl. í utanrmn. Eins og ég hef áður tekið fram við umr. þessa máls, fól Framsfl. okkur að koma því til vegar, að tekið yrði upp í till. efnislega það, sem tekið var síðar upp í grg., að við skildum 43. gr. sáttmála hinna sameinuðu þjóða svo, að það væri á okkar valdi, hvaða fríðindi við semdum um að láta í té, og að við vildum ekki leyfa herstöðvar hér á landi, og það væri stefna Alþ. að leyfa ekki herstöðvar. Fyrst ekki gat orðið samkomulag um hitt, sættum við okkur við, að þetta væri tekið fram í grg., og í stað þess að tilkynna bandalaginu þetta um leið og inntökubeiðnin yrði send, féllumst við á, að till. yrði þýdd og send þeim fjórum stórveldum, sem mestu ráða í samtökum sameinuðu þjóðanna, svo og Norðurlandaþjóðunum, sem við getum vænzt, að styðji okkar málstað sérstaklega. Við gerðum þetta með tilliti til þess, að við töldum þetta geta orðið til verulegs gagns og væntum þess, að það gæfi nægilegt öryggi fyrir okkur, enda hefur nú hæstv. forsrh. lýst yfir því, að tekið muni til athugunar að senda till. og grg. þýdda til landalagsins um leið og inntökubeiðnina í samræmi við gildandi venjur um inntökubeiðnir í bandalagið; ef hann teldi sér það fært. Og ég vona, að þetta geti samrýmzt þeim venjum, sem um þetta gilda, og tilkynningin verði send þeim aðilum, sem og hef áður getið um. Við féllumst á þetta, af því að við töldum, að um þetta atriði yrði ekki lengra komizt, en álitum hins vegar, að þetta gæti orðið okkur til öryggis.

Síðan þetta gerðist, hefur aðstaðan breytzt. Það var ekki gert ráð fyrir því þá, að eigi yrði um þetta samkomulag, en nú hefur komið fram dagskrártill. um að vísa málinu frá. Eftir að hún er komin fram og eins till. hv. 3. landsk., sem hér liggur fyrir, geri ég ráð fyrir, að margir, sem áður fylgdu málinu, telji bezt farið, að því verði nú frestað og reynt að ná heppilegri lausn síðar, og get ég ekki séð, að það sé frágangssök. En með tilliti til nál., sem ég hef gefið út ásamt hv. þm. Mýr., munum við ekki greiða atkv. með frestun, þótt ég geri ráð fyrir, að aðrir flokksmenn mínir muni telja sig óbundna af nál. um þetta atriði og telji eðlilegt, að málinu sé frestað, e ins og nú er komið.

Um till. hv. 3. landsk. er það að segja, að hún er í rauninni efnislega tvær till., og ég hef fengið vitneskju um, að hún muni verða borin upp í tvennu lagi. Nú er það svo, að fyrri hluti þessarar till. er að fráskildu einu atriði, því um hernaðaraðgerðir, í samræmi við það, sem flokksmenn okkar fólu okkur að koma fram í utanrmn., en okkur tókst ekki. Þess vegna er það eðlilegt, að þeir, sem það þykir réttara, greiði atkv. með þessari till., þó að við í n. höfum til samkomulags fallizt á að ná þessu atriði undir öðru formi, sem við teljum nægilega tryggingu. Við nm. munum því ekki greiða þessum fyrri hl. till. atkv. En að því er síðari hlutann snertir, er það að segja, að hann er nýtt atriði, og hefur ekki verið gert samkomulag um það í n., og fjölyrði ég ekki um það, en samkvæmt yfirlýsingu miðstj. Framsfl. og þm. flokksins munum við sjálfsagt greiða þeim hluta till. atkv., þó að við höfum ekki að fyrra bragði séð ástæðu til að hreyfa því atriði í sambandi við þetta mál. En ef svo fer, að dagskrártill. verður felld, og ef till. hv. 3. landsk. verður einnig felld, þá kemur til atkv. till. sjálf á þskj. 11, og við nm. munum þá greiða henni atkv. í samræmi við það samkomulag, sem við gerðum, og af þeim ástæðum, sem áður eru raktar, í trausti þess, að í öllum atriðum verði staðið við loforðið um að tilkynna hlutaðeigandi aðilum till. og nái. sem stefnulýsingu Alþ. um leið og till. um inntökubeiðnina verður send.

Ég hef nú í stuttu máli gert grein fyrir afstöðu okkar nm. til dagskrártill. og annarra brtt., er hér liggja fyrir.