25.07.1946
Sameinað þing: 4. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

1. mál, bandalag hinna sameinuðu þjóða

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. – Það er í rauninni ekki þörf á því, að ég hafi sérstaklega mörg orð um þetta mál, sem hér liggur fyrir, frekar en ég hef nú þegar sagt. Ég hef áður í ræðu um þetta mál lýst afstöðu Sósfl. og sett fram rök hans og afstöðu í þessu máli, þannig að ekki verður misskilið; ég skal þó í örstuttu máli ítreka þetta, vegna þess að það þykir nú hlýða eftir þær umræður, sem hér hafa orðið síðan.

Viðvíkjandi fyrri hluta brtt. á þskj. 9, þá hef ég áður flutt fram þau rök, sem nú hafa af öðrum verið endurtekin, sem sé það, hver nauðsyn sé á því að ganga í sameinuðu þjóðirnar og hve óeðlilegt það væri af okkur Íslendingum að torvelda það á nokkurn hátt. Mér þykir hlýða að leggja aftur áherzlu á það og undirstrika, að það kom fram svo greinilega, að ekki verður um villzt, í nál, utanrmn., að íslenzka þjóðin sé því andvíg, að veittar séu hér herstöðvar, hvort sem það væri á friðar- eða ófriðartíma, og ég álít, hvaða meðferð sem fyrri hluti brtt. á þskj. 9 hlýtur, — þótt hann verði felldur, — að þá dragi það ekkert úr því áliti, sem fram kemur í nál. utanrmn. Ég vil undirstrika það sérstaklega, að og áliti það illa farið, að nokkuð yrði gert, sem mætti verða til þess að draga úr því nál., þannig að sá vilji Íslendinga, sem utanrmn. áreiðanlega lætur þar í ljós, er jafnóhaggaður þrátt fyrir það, þó að fyrri hluti þessarar brtt. yrði felldur.

Þá er það viðvíkjandi síðari hl. brtt., sem upplýst hefur verið, að verði borinn undir atkv. sérstaklega. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um afstöðu okkar sósíalista til þessa máls. Ég lýsti því hér í ræðu, af hverju við sósíalistar höfum ekki borið fram slíka till. á Alþ. Það er af þeim ástæðum, að við vildum vera vissir um, að hvenær sem hún kæmi fram, þá yrði hún samþykkt, því að okkur þótti ekki annað hlýða, og út frá þeirri afstöðu, sem ég þá skýrði, munum við greiða atkv. með síðari hluta þessarar brtt.

Það hefur komið fram hjá hæstv. samgmra., að sökum þess, að nú væri þessi till. í sambandi við annað mál, þá mundi flokkur hans, Alþfl., ekki greiða atkv. með þessari till. Það er rétt, að þessi till. er þarna tengd við mál, sem kannske ekki að öllu leyti er óskylt, en hinu ber ekki að neita, að Alþfl. eða ráðh. hans hafa haft aðstöðu til þess og tækifæri að greiða atkv. með till. um það mál eitt út af fyrir sig að krefjast brottfarar herliðsins, án þess að því væri blandað saman við önnur mál, en hafa ekki notað það tækifæri, og það mundi ekki standa á akkur að skapa slíka tækifæri hér á Alþ. Ég held þess vegna, að þessi afsökun Alþfl. sé ekki á rökum byggð.

Svo vildi ég aðeins út af því, sem hér kom fram hjá hv. 3. landsk., skjóta því fram, þar sem hann minntist á bréf frá einum fjarverandi þm., sem borizt hefði þinginu, að þó að hv. þm. S.-Þ. sé þrautreyndur og gamall þm., þá er hann ekki fyrst og fremst reyndur að sannleika og sannleiksást, og þess vegna er óhætt að segja það hér, að það, sem hann segir í þessu bréfi, er hreinasti uppspuni. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um þetta mál, ríkisstj. hefur gert upp sína afstöðu og við þm. stöndum sem frjálsir menn til þess að taka þá ákvörðun, sem við viljum, án þess að hendur okkar séu bundnar. Við breytum þarna út frá sannfæringu okkar, og það er engin ástæða til að vera að gefa hér í skyn það, sem fram kom í bréfi hv. þm. S.-Þ.. eða vera að byggja nokkuð á því. Að síðustu væri fróðlegt að Fá upplýsingar í samlandi við það, sem hæstv. samgmrh. sagði um afstöðu Alþfl. til þessarar till. Hann sagði, að þm. Alþfl. hefðu ákveðið að greiða ekki atkv. með till. á þskj. 9. Á að skilja það svo sem hv. 3. landsk. þm. sé ekki þm. Alþfl. lengur? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það, vegna þess að hæstv. samgmrh. undanskildi engan í þessu sambandi.