25.07.1946
Sameinað þing: 4. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

1. mál, bandalag hinna sameinuðu þjóða

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. — Hv. 2. þm. Reykv., sem nú settist niður, minntist á það, að þm. Alþfl. hefðu áður átt kost á því að greiða atkv. um till. um það, að Bandaríkin færu burt með her sinn af Íslandi, og má vera, að það sé rétt. Það hefur áður verið upplýst, að þessi till., sem hv. 2. þm. Reykv. minntist á, sé búin að liggja 3 mánuði í ráðherrasætunum, en ég hefði eiginlega sízt búizt við því, að n.okkur þm. Sósfl. minntist á þá till. og legu hennar í ráðherrasætunum, þar sem tveir sósíalistar sitja í ríkisstj., því að þeir virðast ekki hafa haft mikinn áhuga á því að fá till. tekna á dagskrá. Væri því heppilegast fyrir sósíalista að minnast ekki á þessa till.

En ég stóð upp til þess að svara nokkrum orðum hv. þm. Snæf., sem talaði hér áðan fyrir fundarhléið. Hann fullyrti það, að ég hefði í ræðu minni hér fyrir nokkrum dögum vitnað ýmist skakkt í álit sænsku sérfræðinganna eða tekið þar málsgreinar úr samhengi og fullyrt, að það væri talað um herstöðvar víða í álitinu, en hv. þm. Snæf. sagði, að herstöðvar væru þar tæpast nefndar. Nú vil ég óska þess, að hv. þm. Snæf. hefði fyrir framan sig álit sænsku sérfræðinganna og svaraði mér því, hvort herstöðvar eru ekki rækilega nefndar í þessu áliti.

Á bls. 4 er tvisvar sinnum minnzt á herstöðvar, bls. 6 þrisvar sinnum og á bls. 8 og 9, á öllum stöðunum rækilega minnzt á herstöðvar, og þarna er talað um, að smærri ríkjunum verði sérstaklega ætlað að leggja fram hernaðarbækistöðvar, af því að af þeim verði tæplega heimtað stríðsframlag. Þetta er skýrt fram tekið í áliti sænsku sérfræðinganna, og það, sem þá kæmi í Íslands hlut, væri að leggja fram hernaðarbækistöðvar. Það að fullyrða, að þarna, í áliti sænsku sérfræðinganna, sé varla minnzt á hernaðarbækistöðvar, nema á einum stað, er hreinlega að fara með rangt mál, og það er slæmt af hvaða þm. sem væri, en sérstaklega þó af sérfræðingi ríkisstj. og prófessor við háskólann, að láta það henda sig. Þá bar hv. þm. Snæf. á móti því, að hann og samstarfsmaður hans hinn sérfræðingur íslenzku ríkisstj., herra Einar Arnórsson, hefðu sýnt nokkra bjartsýni í samningagerðum sínum fyrir ríkisstj. um þetta mál. En svo segir aftur í sömu ræðu: Það er álit sumra, að ákvæði 43. og 45. gr. muni aldrei koma til framkvæmda. Hvað kalla menn þetta, — svartsýni eða bjartsýni? Ég segi: Hvernig er hægt að sýna meiri blekkjandi bjartsýni heldur en þetta, að fullyrða, að þær greinar sáttmálans, sem í sér fela þyngstu skyldurnar, skyldur um hernaðarbækistöðvar, skyldur um ýmislega aðstoð, muni aldrei koma til framkvæmda; þ.e. þær greinar, sem fela í sér öryggiskerfi bandalagsins? Það er ekki svo bjart yfir þessari veröld okkar nú, að það gæti ekki komið fyrir og það fyrr en síðar, að þetta alþjóðabandalag þyrfti kannske að grípa til öryggisráðstafana og heimta hernaðarbækistöðvar, heimta hernaðarframlag af meðlimum bandalagsins. Hv. þm. Snæf. sannaði betur en nokkur annar gat gert, að hann hefur haft í frammi blekkjandi bjartsýni, sem er ólík því, sem fram kemur hjá sérfræðingum Svía.

Ég skal nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp 45. gr. bandalagssáttmálans og leggja það undir dóm alls þingheims, hvort þar er ekki nægilega skýrt og greinilega tekið fram, að hver sú þjóð, sem gerist meðlimur bandalagsins, verði að leggja fram hernaðarlegt framlag. 45. gr. hljóðar svo:

„Til þess að gera hinum sameinuðu þjóðum kleift að hefja aðkallandi hernaðaraðgerðir, skulu meðlimir ætíð hafa reiðubúnar eigin lofthersveitir til sameiginlegra alþjóðlegra þvingunaraðgerða. Öryggisráðið skal, með aðstoð herforingjanefndarinnar, ákvarða, innan takmarka þeirra sérstöku samninga, sem um getur í 43. gr., styrk og viðbúnað þessara sveita og áætlanir um sameiginlegar aðgerðir þeirra.“

Ég held, að um þetta sé ekkert að villast. Þetta þýðir það, að ef Ísland er nægilega efnað, þá yrði það að halda útí hernaðarflugvélum, hafa eigin loftflota alltaf til taks og inna af hendi skyldur sínar við þjóðabandalagíð, hvenær sem krafizt yrði.

Ein er sú blekking, sem haldið er fram í þessum umr. og einnig Morgunblaðinu og ef til vill fleiri blöðun), og hún er þessi: að þeim þjóðum, sem standa utan við bandalagið, sé ætlað að bera alveg sömu skyldur eins og bandalagsþjóðunum, en þær fái engra réttinda að njóta.

Af þessu tilefni og til þess að leiða líkur að þessum fullyrðingum benda menn á 2. gr. sáttmálans, 6. lið hennar. Þar segir svo:

„Bandalagið skal tryggja, að ríki, sem ekki eru meðlimir hinna sameinuðu þjóða, starfi í samræmi við þessar grundvallarreglur, að svo miklu leyti sem það er nauðsynlegt til varðveizlu heimsfriði og öryggi.“

En hvað stendur þarna? Það stendur, að þar þjóðir, sem ekki starfa. í samræmi við grundvallarreglur bandalagsins, þær verði að beygja sig undir vilja bandalagsins. Eru þá líkur til þess, að Ísland starfi sem þjóðfélag andstætt kröfum þjóðabandalagsins og starfi þannig, að heimsfriðnum sé hætta búin af, — vopnlaus þjóð, sú einasta í veröldinni, sem hefur náð því „ideali“ að útrýma öllum vopnum og hernaðartækni? Það er engin hætta á því, ef íslenzka þjóðin starfaði þannig, að hún stofnaði ekki heimsfriðnum í hættu, að hún fengi ekki að vera í friði fyrir bandalaginu. Fullvíst er að það færi ekki að skipta sér af Íslandi fyrr en það færi að starfa á móti anda bandalagsins. Ég held, að sjálfstæði Íslands væri engin hætta búin af stórveldunum, þó að það tæki sér rétt til að standa utan við bandalagið. Hvað ætlar Sviss að gera? Er það búið að biðja um upptöku? Nei, Sviss ætlar ekki, svo að vitað sé, að biðja um upptöku. Það ætlar að leyfa sér að standa utan við bandalagið. Það vita allir, að það er ekki til sá félagsskapur í veröldinni, sem leyfir sér að láta starfsreglurnar ná til annarra en meðlima sinna. Eða veit prófessorinn til þess? Eitt af því, sem sérfræðingur ríkisstj., prófessorinn í lögum við Háskóla Íslands, fullyrðir, er það, að við getum neitað að taka við herstöðvum, þegar kæmi að því að gera samninga síðar meir, eftir að búið væri að fá upptöku okkar viðurkennda. Sænsku sérfræðingarnir leyfa sér þó að fullyrða, að skuldbindingin sé þegar komin á, er upptakan sé viðurkennd, en eigi nánar að takmarkast með samningum. En ef það væri rétt, sem hv. þm. Snæf. fullyrðir, að við gætum síðar neitað að taka við hernaðarbækistöðvum, væri það þá ekki leyfilegt þegar í stað að láta það uppi við upptökubeiðnina, að þær kvaðir tækjum við ekki á okkur, þó að þeirra yrði krafizt, ef aldrei kemur til þess, að við eigum að taka við hernaðarbækistöðvum? Ef við erum einráðnir í því að taka ekki við hernaðarbækistöðvum, þá má alveg eins segja það strax eins og síðar.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta mál. Ég get ekki trúað því, að nokkur þm. á Alþ. Íslendinga greiði atkv. á móti því, að við förum fram á, vegna smæðar okkar og vopnleysis, að vera lausir við hernaðarbækistöðvar í landinu. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að nokkur alþm. greiði atkv. á móti því, að þessi litla þjóð þurfi ekki að gera hernaðarráðstafanir gagnvart öðrum þjóðum. Ég get ekki trúað því, að nokkur alþm. kveinki sér undan því að bera fram óskir um það, að erlent setulið víki úr landinu, þar sem við eigum samningsbundinn rétt á, að svo sé. Það þarf engin ókurteisi að felast í því að fara fram á það við stórveldi, að það standi við gerða samninga, og ég held ekki, að hæstv. utanrrh. mundi gera sig sekan um það að fara þar á nokkurn hátt að með ókurteisi. Úr því við eigum samningsbundinn rétt á því, að herliðið á landi, sjó og í lofti víki burt undireins og hættuástandinu er lokið, þá eigum við siðferðislegan rétt á því að bera fram kröfu um það, að herinn víki úr landinu, og er sjálfsagt að leggja það verkefni fyrir ríkisstj., úr því hún hefur ekki gert það til þessa dags.

Út af því, sem hér var sagt áðan af hæstv. samgmrh., að þm. Alþfl. mundu greiða atkv. á móti brtt. á þskj. 9, vil ég aðeins taka það fram, að ég veit ekki betur en að ég sé einn þm. fyrir Alþfl., og hefur hann þá að sjálfsögðu meint, að aðrir þm. Alþfl. en 3. landsk. þm. mundu greiða atkv. á móti till. En það er ekki rétt að segja það, að Alþfl. hafi þessa afstöðu. Þetta mál hefur ekki verið lagt undir miðstjórn Alþfl. enn.

Ég vil að síðustu taka það fram, að ef ég vissi það, að dagskrártill. hv. þm. Borgf. vantaði eitt atkv. til þess að ná samþykki þingsins, þá mundi ég ekki láta mitt atkv. vanta. En eins og ég tók fram, tel ég rétt að sitja hjá við þá atkvgr., af því að í henni felst frávísun á till. minni, auk þess að málinu er öllu vísað frá þar með.