25.07.1946
Sameinað þing: 4. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

1. mál, bandalag hinna sameinuðu þjóða

Hermann Jónasson. Herra forseti. — Þetta er aðeins örstutt aths. Ég hef ekki ástæðu til að svara neinu í ræðum þeirra hv. þm., sem tekið hafa hér til máls, síðan ég talaði síðast. En ég vil vekja athygli á tvennu. Í fyrsta lagi vil ég láta í ljós ánægju mína yfir því, sem hæstv. samgmrh. lýsti yfir, að hann væri að vissu leyti samþykkur till. á þskj. 9, en það styður þá vissu mína, að rækilega muni verða frá því gengið að tilkynna efni grg. á þann hátt, sem áður hefur verið rætt um. Í annan stað læt ég í ljós ánægju mína út af ummælum hans um síðari hluta till., að hann teldi rétt að ganga til samninga við Bandaríkin um brottflutning herliðsins og gera það vinsamlega og virðulega. Ég vil út af þessum ummælum taka það fram, að ég álít, að við Íslendingar höfum réttilega látið þá skoðun í ljós, að her Engilsaxa hér á landi hafi komið þannig fram, að við gætum ekki vænzt, að neinn her kæmi betur fram. Sá vilji okkar að hafa hér engan her er ekki reistur á því, að herinn hafi ekki komið vel fram, og ég tel, að það sé á engan hátt að koma óvingjarnlega fram að segja það skýrt, að við viljum ekki hafa her í landinu. Ég hef sagt þetta á a.m.k. 10 framboðsfundum og í viðræðum við flokksmenn mína. Og ég endurtek það hér, að ég tel enga ókurteisi í þessu. Þetta vildi ég að kæmi fram að gefnu tilefni. Fleiri aths. býst ég svo ekki við að þurfa að gera.