25.07.1946
Sameinað þing: 4. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

1. mál, bandalag hinna sameinuðu þjóða

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Út af ræðum hv. 3. landsk. þm. og hv. 1. þm. N.--M. vil ég segja, að annaðhvort er mér óvenju ósýnt um framsetningu eða þeim um skilning á mæltu máli, því að uppistaðan í því, sem þeir sögðu um ræðu mína, var á fullkomnum misskilningi reist. Hv. 3. landsk. hafði það eftir mér, að herbækistöðvar væru ekki nefndar í álitsgerð sænsku sérfræðinganna. Ég sagði, að í sáttmála sameinuðu þjóðanna væri þetta ekki nefnt, en í áliti sænsku sérfræðinganna eru herbækistöðvar nefndar hvað eftir annað. Hann taldi í öðru lagi, að ég hefði sagt, að 43. gr. sáttmálans mundi yfirleitt ekki koma til framkvæmda. Þetta er alger misskilningur. Ég sagði, að í álitsgerð Svíanna kæmi fram, að allar líkur bentu til, að til framkvæmda á 43. gr. mundi ekki koma. Varðandi 6. tölul. 2. gr. bandalagssáttmálans kennir mikils misskilnings hv. þm., en sú gr. er svo skýr, að ég tel ekki þörf að eyða orðum að henni.