22.07.1946
Sameinað þing: 1. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. 1. kjördeildar (Garðar Þorsteinsson):

Herra forseti. — 1. kjörbréfadeild hefur fengið til athugunar kjörbréf þeirra hv. þm., sem sæti eiga í 3. kjördeild. Öll kjörbréfin hafa borizt til deildarinnar nema frá einum þm., hv. 1. þm. Skagf., Steingrími Steinþórssyni. En í þess stað liggur fyrir bæði símskeyti frá yfirkjörstjórn Skagafjarðarsýslu um, að kjörbréf þessa þm. sé póstlagt 20. júlí, og vottorð viðvíkjandi atkvæðatölunni, sem hann fékk í Skagafjarðarsýslu, og hefur kjördeildin sannfærzt um, að þessi þm. sé rétt kjörinn 1. þm. Skagf.

Leyfi ég mér svo að leggja til fyrir hönd 1. kjörbréfadeildar, að hæstv. Alþ. samþykki þau kjörbréf, sem hún hefur haft til meðferðar.