25.07.1946
Sameinað þing: 5. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

9. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Ég tel, að hér hafi farið fram atkvgr. á Alþ. um stórmál, sem ekki hafi sýnt réttan þingvilja, og á ég þar við atkvgr. um síðari hluta till. á þskj. 9, þeirrar, er hv. 3. landsk. þm. flytur, þann hluti hennar, sem fjallar um það, að Alþ. reisi þá kröfu, að það herlið, sem hér dvelst nú, hverfi úr landinu. Ég efa ekki, að það er vilji hvers einasta þm., að slík krafa verði reist, en hér hefur farið fram atkvgr., sem út af fyrir sig kynni að geta gefið til kynna, að þessi þingvilji væri ekki fyrir hendi. Því var lýst yfir af einum og öðrum þm., að þeir greiddu atkv. á móti till., af því að hún væri tengd við annað mál, og má vera, að það séu nokkur rök í málinu. Nú hefur formaður Sósfl., hv. 2. þm. Reykv., lýst yfir því, að við þm. flokksins höfum lagt fram sjálfstæða till. um þetta mál, þáltill. um það, að Alþ. reisi þá kröfu, að erlendur her hverfi sem skjótast úr landinu. Augljóst er, að þessa till. er hægt að afgreiða á morgun eða laugardaginn, og þess vegna hef ég leyft mér að leggja fram skriflega brtt. við þingfrestunartill., sem fer í þá átt, að þinginu verði frestað frá 27. þ.m. í stað 25., eins og gert er ráð fyrir.

Ég mun ekki orðlengja þetta, en óska, að mín skrifl. brtt. mætti koma til atkv. og verða samþ., svo að þinginu gefist tóm til að segja vilja sinn varðandi þetta atriði, þannig að það sé óháð öðrum málum.