25.07.1946
Sameinað þing: 5. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

9. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

Pétur Ottesen:

Ég skal ekki blanda mér í innbyrðis erjur, sem virðast hafa risið upp í stjórnarliðinu, heldur víkja að þeirri brtt., sem hér liggur fyrir frá hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. Mýr. Ég vil mjög taka undir það, að þessi till. verði samþ. Eins og kunnugt er, þá mun þurfa að gera að óbreyttum aðstæðum nýjar ráðstafanir viðvíkjandi ákvörðunum um afurðaverð bænda fyrir 15. sept. n.k., og það er vitanlega einasta leiðin til þess, að Alþ. geti fengið tækifæri til að láta í ljós vilja sinn um breytingar í þessum efnum, að þingið verði kvatt saman fyrir þennan tíma. Mér virðist, að þessu máli sé þannig háttað, að fullkomin ástæða sé til, að Alþ. gefi sér tóm og tækifæri til þess að taka þetta mál til athugunar og afgreiðslu fyrir þennan tíma. Ég vil ekki hefja neinar ádeilur á þá, sem ráða þingmálum, þó að þinginu hafi ekki nú eða verði ekki haldið áfram til þess að gera út um þau brbl., sem lögð hafa verið fyrir þetta þing, og því má ekki, samkv. ákvæðum þingskapa, ljúka án þess að það sé gert, og ekki heldur fyrir það, þó að þingið verði ekki framlengt til þess að gera til um þetta nú. En fyrir þetta má bæta á viðunandi hátt, ef þingið verður kvatt saman nægilega snemma til þess að því hafi gefizt tóm til að taka þessi mái til athugunar fyrir 15. sept. n.k. Má segja, að það sé nokkuð þröngt skorinn stakkurinn að því er tímann snertir að gera ráð fyrir að geta gert þetta á 5 dögum, en þá mundi, ef samkomulag næðist um afgreiðslu þessa máls, mega takast að gera það á þessum tíma. Og í trausti þess, að svo geti orðið, vil ég mjög mæla með því, að þessi brtt. verði samþ., og mun ég þess vegna greiða henni atkv. [ Fundarhlé.]