21.09.1946
Sameinað þing: 8. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Það er áreiðanlegt, að margir Íslendingar gengu fyrir nauðungar sakir undir herverndarsamninginn 1941, enda var hann líka leiðinlega til kominn. Á meðan verið var að afgreiða hann hér, sigldu herskip með hermennina að landi, þannig að tekið var að framkvæma samninginn áður en búið var að samþykkja hann. En einn kostur var þó við þennan samning, þar var gefið skýlaust og ótvírætt loforð um það, að Bandaríkjamenn hefðu sig á brott með allan herafla sinn strax að stríðinu loknu. Á þinginu í sumar tókst hæstv. forsrh. þann vanda á hendur, að leita efnda á þessu loforði, sem gefið var 1941. Hann lofaði því, og nú er hann kominn með árangurinn af því loforði. Og ég hygg, að þess hafi verið vænzt, að hann kæmi með skýlaust já eða nei. En hvað kemur hann með? A.m.k. ekki eintómt já. Hann kemur með drápsklyfjar af nýjum skuldbindingum, rétt eins og klyfjum hlaðinn baggahestur, áburðarklár. En var þá alveg óumflýjanlegt að kaupa sig á einhvern hátt undan hinu skýlausa loforði? Ég skil ekki, að neinnar kaupmennsku hafi verið þörf. Okkur er sagt, að hér strandi á mismunandi skilningi Íslendinga og Bandaríkjamanna á því, hvort stríðinu sé enn þá lokið eða ekki. En hefði þá ekki með nokkru móti verið unnt að fá úr því skorið, hvort stríðinu væri lokið í dag eða ekki? Var ekki hægt að fá úr því skorið með neinum dómi, sem heiminum var skylt að virða og hlíta og Bandaríkin voru fullsæmd af án beygja sig fyrir ? Jú. Hér hefur verið upplýst, að væri um ágreining að ræða út af milliríkjasamningi, sem Ísland væri aðili að, þá ætti alþjóðadómstóllinn í Haag að skera úr. Hefði verið goðgá að leita úrskurðar þessa dómstóls um það, hvort Ísland eða Bandaríkin hefðu á réttu að standa um stríðslok? Menn segja, að það hefði verið óvingjarnlegt gagnvart Bandaríkjunum. En guð hjálpi okkur, ef svo er komið, þá eru Íslandi allar bjargir bannaðar um það að halda á sínum málstað á kurteisan hátt. Þótt við séum smáþjóð, er okkur heimilt að leita ásjár alþjóðadómstóls, er við teljum, að samningsbundinn réttur okkar sé skertur, og það ein þess að aðrir þurfi að þykkjast víð. Við höfum skýlausan rétt til að leita úrskurðar slíks dómstóls, og það er þrautalending þess, sem á réttu hefur að standa. Þó bera menn það fram kinnroðalaust, að við megum ekki hafna þessu samningsuppkasti, það væri óvild og ókurteisi gagnvart Bandaríkjunum, þá værum við ekki vinir þeirra. Mig minnir, að sagt hafi verið við vissa persónu sögunnar: „Ef þú gerir ekki þetta eða hitt, þá ert þú ekki vinur keisarans: Þora Íslendingar þá ekki lengur að halda fram réttum málstað Íslands af ótta við að verða kallaðir óvinir keisarans? Ef það er rétt, að Íslendingar megi ekki segja nei við jafnvolduga þjóð og Bandaríkjamenn eru, þá er illa komið fyrir Íslandi. Ef við þurfum að játa öllu, er þeir fara fram á, fyrir vináttu sakir, þá hafa tekizt með okkur of sterkar ástir. Ofurást er aldrei af því góða. Henni fylgir jafnan blinda. En þegar svo sterkar ástir takast, er annar aðilinn ekki lengur sjálfstæður gagnvart hinum, þá er hann orðinn undirlægja og ekkert annað. Það er langt frá því, að um óvild sé að ræða, þótt við neytum þess sjálfsagða, siðferðislega réttar að segja nei er svo ber að gera.

Mér er nær að halda, að önnur leið hefði verið heppilegri til að knýja fram efndir á herverndarsamningnum um brottflutning heraflans, þ.e. að þola þá heldur um skeið, að sá samningur væri áfram í gildi með sínu gullvæga loforði, þar til við hefðum verið gengnir í bandalag sameinuðu þjóðanna. Ef við hefðum þá kvartað um, að á okkur væri brotinn samningur af annarri bandalagsþjóð, þá væri bandalagið hvorki mikils megnugt né heldur viljugt til að tryggja rétt smáþjóðanna, ef það hefði ekki getað tryggt okkur efndir á herverndarsamningnum. Þá hefðum við þó verið lausir allra mála, án nokkurra nýrra skuldbindinga. Hvað við kynnum þar á eftir að hafa tekið á okkur samkvæmt beiðni viðskiptaþjóðar, er annað mál. En hæstv. forsrh. fór kaupskaparleiðina.

En þá er að skyggnast eftir því, hvað er í drápsklyfjunum, sem áburðarklárinn kom með inn í sali Alþingis. Það sést þegar að nokkru leyti í hinum 12 gr., hvað er í böggunum, en að sumu leyti sést það ekki. Það upplýsist nú, þegar menn eru að gefa skýringar á, hvað meint er með þessu og hinu samningsákvæði, einnig með því að skírskota til einkaviðtala þeirra, er gerðu samningsuppkastið, og skilnings þeirra á hinu og þessu. Því getur falizt miklu meira í böggunum en við sjáum. Það er alls ekki víst, að allt hafi enn þá verið upplýst.

Mér virðist 3. gr. skýra frá réttindum, sem allar þjóðir eiga að njóta hér, og sá réttur er umferðaréttur til lendingar og nauðsynlegrar viðdvalar fyrir flugför, önnur en hernaðarflugvélar. Þessi réttur virðist vera viðurkenndur til handa öllum þjóðum. En í 5. gr. get ég ekki betur séð en Bandaríkjunum einum sé heimilaður víðtækari réttur en sá, sem 3. gr. fjallar um, eða m.ö.o. heimilaður réttur til að hafa áfram afnot af Keflavíkurflugvellinum fyrir allar þær hernaðarflugvélar, er þeir telji sig þurfa, til þess að uppfylla hernámsskyldur sínar í Þýzkalandi. Þar er ekki um að ræða farþega- eða flutningaflugvélar einar, heldur fyrst og fremst hernaðaflugvélar, sem nú eru að vísu óvopnaður að því er sagt er. Það er því greinilegt, að með 5. gr. er Bandaríkjunum einum veittur einkaréttur umfram allar þjóðir, réttur til handa hernaðarflugvélum í sambandi við hernám Þýzkalands. Menn hafa reynt að skýra, hvað hernaðarstöð þýði, það sé staður, þar sem vopn séu á staðnum, þar sem vopnað lið stjórni og vopnað lið sé til varnar. En er hér þá ekki um hernaðarstöð að ræða? Ég held, að sá staður verði að teljast hernaðarbækistöð, þar sem herflugvélum eru leyfðar bækistöðvar. Þótt ekki væri annað en það, að Keflavíkurflugvöllurinn verður aðsetursstaður hernaðarflugvéla samkv. þessum samningi, væri það nóg til þess, að ég væri honum andvígur. En þó ber þar fleira til. Ekki er það ákveðið í samningsuppkastinu, hve fjölmennt lið megi dveljast hér. Hæstv. forsrh. hefur sagt okkur, að staðfest hafi verið í bréfi til hans, að undir venjulegum kringumstæðum yrðu hér um 600 manns. En hvorki hann né aðrir, sem verja samninginn, geta um tölu liðsins undir óvenjulegum kringumstæðum. Fróðlegt væri að heyra þá tölu nefnda, það er hún, sem skiptir máli. Þjóðerninu er að vísu ekki stórhætta búin af 600 mönnum, ef tryggt væri, að sú tala margfaldaðist ekki. Háskinn, sem stafar af þessu, er í sambandi við hinar óvenjulegu kringumstæðum. Ýmsir telja það meginkost samningsins, að allir hermenn hverfi héðan á brott samkvæmt honum. En hverju skiptir það eiginlega, hvernig útlendingarnir séu klæddir? Um þetta erlenda lið í borgaralegum fötum mætti sennilega segja það, sem kemur fram í þessum vísuorðum Þorsteins Erlingssonar:

„Ef að úr buxunum fógetinn fer

og frakkanum svolitla stund,

þá má ekki greina, hver maðurinn er ....“ En gæti ekki einmitt af því hlotizt jafnvel meiri þjóðernisleg hætta en af hinum einkennisklæddu hermönnum? Mér er nær að halda, að svo gæti farið. Þá mætti spyrja um það, hvort þessir menn eigi að dveljast hér ásamt fjölskyldum sínum eða ekki. Ég mundi telja heppilegra, að starfsliðið mætti hafa hér fjölskyldulið sitt. Gæti það e.t.v. orðið til þess, að færri bíla þyrfti til flutnings íslenzkra stúlkna til Keflavíkur, enda er mál komið til, að sá smánarblettur hverfi.

Þá kem ég að því, að starfslið það, sem hér um ræðir, er óákveðin tala. Einnig er það óákveðið með öllu, hvaða tæki teljist nauðsynleg. Í þriðja lagi sést ekki, að heimild Bandaríkjanna sé bundin við flugvöllinn sjálfan. Af því að þetta er eitt af því fjölmarga, sem óljóst er í samningnum, vil ég spyrja, hvort hernaðarmannvirki hers og flota Bandaríkjanna í Hvalfirði eru meðal þeirra tækja, sem samningurinn heimili, eða hvort þau verði óumdeilanleg eign Íslands með gildistöku samningsins.

Brottflutningur liðsins er í rauninni líka óákveðinn í samningnum, því að í 12. gr. hans segir: „Samningur þessi skal gilda á meðan á stjórn Bandaríkjanna hvílir sú skuldbinding að halda uppi herstjórn og eftirliti í Þýzkalandi; þó má hvor stjórnin um sig, hvenær sem er, eftir að fimm ár eru liðin frá gildistöku samnings þessa, fara fram á endurskoðun hans.“ Einnig er það fram tekið, að ef slíkar viðræður leiði eigi til samkomulags innan sex mánaða frá því að fyrst kom fram beiðni um endurskoðun, þá sé hvorri stjórninni heimilt að segja samningnum upp með eins árs fyrirvara. — Þannig er þá fyrst og fremst gert ráð fyrir því, að samningurinn sé í gildi meðan Bandaríkin séu skuldbundin til herstjórnar og eftirlits í Þýzkalandi. Og hvað getur það orðið lengi? Ýmsir nefna 24–25 ár eða jafnvel lengri tíma.

Það hefur verið viðurkennt í umr., að orðalag 4. gr. samningsins sé óljóst og gr. þurfi breyt. við. Ég minnist því ekki á hana fyrr en ég sé hana í nýrri mynd, en ætla mér þessu næst að ræða um 6. gr. samningsins. Hún byrjar svo:

„Í sambandi við rekstur flugvallarins munu Bandaríkin að svo miklu leyti sem kringumstæður leyfa, þjálfa íslenzka starfsmenn í tækni flugvallarekstrar, svo að Ísland geti í vaxandi mæli tekið að sér rekstur flugvallarins, að svo miklu leyti sem frekast er unnt.“

Hér eru vafningar í bak og fyrir, og þó eru þeir aðalinnihald gr. Bandaríkin ætla að þjálfa fyrir okkur menn í flugvallatækni, að svo miklu leyti sem þeim þóknast. Einhver sagði í dag, að ekkert það fælist í 6. gr. samningsins, sem íslenzkt sjálfstæði þyrfti að bera kinnroða fyrir. Því miður tel ég þetta ofmælt.

Ég tel sjálfsagt, að ef Íslendingar þurfa og ætla að þjálfa menn í flugvallatækni, þá verði það að gerast af sérfræðingum í íslenzkri þjónustu, en ekki af mönnum undir stjórn erlends veldis. Er það ekki lítillækkandi fyrir Íslendinga, ef erlendri þjóð yrði leyft að ráða yfir menntun íslenzkra manna? Ég veit þá ekki, hvað er lítillækkandi.

Lokaorð gr., „svo að Íslendingar geti í vaxandi mæli tekið að sér rekstur flugvallarins, að svo miklu leyti sem frekast er unnt“, villa neinum sýn. Með þeim er reyndar fullskýrt fram tekið, að Íslendingar hafi ekki stjórn flugvallarins í byrjun nema að mjög litlu leyti, og því fer fjarri, að það sé gefið í skyn, að stjórn vallarins verði nokkurn tíma fengin okkur í hendur til fulls.

Einn ræðumaður sagði hér í dag, að í 6. gr. fælist það, að eftir því sem tæknifróðir íslenzkir menn á þessu sviði væru fyrir hendi, skyldu þeir verða teknir til starfa á flugvellinum, jafnskjótt og þess yrði óskað af íslenzkum stjórnarvöldum, þar til Íslendingar tækju flugvöllinn undir sína stjórn að fullu. — Það væri gott og blessað, ef þetta væri efni gr., og væri reynandi að bera fram brtt. við hana þannig, að þetta kæmi skýrt og skýlaust fram.

Þá er það 7. gr. samningsins. Það er varla von, að nokkur Íslendingur geti sætt sig við hana eins og hún er. Hún felur það ótvírætt í sér, að Bandaríkjunum sé heimilað að hafa frumkvæði að setningu reglugerðar um rekstur, öryggi og önnur mál, er varða afnot allra flugfara af vellinum. Það er nokkuð nýstárlegt, ef aðrir en Íslendingar sjálfir geta samið reglugerðir um slík afnot. Einhver hv. þm. spurði í dag: „Er nokkuð það í samningnum, sem skerði sjálfstæði vort eða þjóðarheiður?“ Já, hvað segja menn t.d. um annað eins og þetta að heimila Bandaríkjunum að eiga hlut að setningu reglugerðarákvæða? Skerðir það ekki bæði sjálfstæði vort og þjóðarheiður? Menn óttast að vonum, að Bandaríkin, en ekki Ísland, kynnu að setja svip sinn á þá reglugerð og að hún yrði ekki mótuð af íslenzkum vilja. Skárra væri þó að orða þetta t.d. á þá leið, að ríkisstj Íslands setji reglugerð hér að lútandi að fengnum till. Bandaríkjastjórnar. En lengra mætti alls ekki ganga um þetta atriði. Þannig mætti tryggja, að íslenzkur vilji setti svip sinn á reglugerðina í aðalatriðum, enda verður það undir öllum kringumstæðum að vera tryggt.

Um 9. og 10. gr. samningsins vil ég aðeins segja það, að ég er þeim algerlega andvigur. Og hver er sá, sem ekki hlýtur að vera andvígur tolla- og skattaívilnunum handa útlendum mönnum hér á landi. Það var víst hv. 2. þm. Reykv., sem sagði, að óheimilt væri að breyta íslenzkum lagaákvæðum með þingsályktun. Og vissulega er það ekki heldur hægt, þó að hér sé tolla- og skattalöggjöfinni ætlað að víkja fyrir fylgiskjali með þingsályktun.

Þá vildi ég segja þetta að lokum: Ég óttast það, ef ein þjóð, þótt vinveitt sé, á að fá hér hernaðarleg sérréttindi, þá geti það einmitt orðið til þess að gera Ísland að þrætuepli milli stórveldanna. Og sá „vináttusamningur“ væri dýru verði keyptur, sem til þess yrði. Ávallt áður í sögu Íslands, þegar farið hefur verið fram á það, að erlend ríki fengju séraðstöðu á Íslandi, þá hefur verið látið heita svo sem beðið væri um lítilræði eitt og undir yfirskini vináttunnar. Svo var það t.d., er beðið var um Grímsey. Og höfðingjarnir á þeim tíma sögðu, að um lítilræði eitt vær í beðið. Grímsey er bara sker. Sama aðferðin er nú viðhöfð. Það er svo sem ekki beðið opinskátt um herstöðvar, heldur ósköp sakleysislega og meinlausa hluti. Það var þó þjóðargæfa, að vinsamlegum konungi var neitað um eyðiskerið Grímsey. Grímsey var og er nefnilega meira er sker. Hann er hluti af Íslandi, og það er Keflavíkurflugvöllurinn líka. Til eru þeir menn, sem tala um, að við þurfum öryggi fyrir Rússum. Er þessi samningur þá trygging gagnvart háska frá þeirri þjóð? Alls ekki, nema þá að eitthvað allt annað felist í honum en látið er í veðri vaka. Það getur ekki verið nein trygging gagnvart Sovétríkjunum í 600 Bandaríkjamönnum í jakkafötum, berhentum og allslausum. hrá þeim fáum við ekkert öryggi fyrir Rússum. Ég ber síður en svo meira traust til þeirra en jafnmargra íslenzkra sjómanna. En sem vörn gegn Rússum er allt slíkt hlægilegt. Þjónustusemi þeirra manna, sem samþykkja vilja samninginn óbreyttan, verður pí ekki einu sinni skýrð með ímyndaðri hræðslu við ógnir og skelfingu, sem að okkur steðji austan frá Rússlandi. Þess vegna ættu allir að geta orðið sammála um að snúast gegn þessum ókjarasamningi, ef ekki fást á honum breyt. í grundvallaratriðum.