05.10.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. — Ég var erlendis þegar þing var kvatt saman að þessu sinni, en það var gert með mjög stuttum fyrirvara, svo sem kunnugt er. Þótt ég kæmi til landsins með fyrstu flugferð eftir að ég fékk boð hæstvirts forseta, náði ég ekki fyrstu umr. þess máls, sem er á dagskrá þessa fundar til síðari umr., og sama máli gegnir um fleiri þm. Nú hefur verið ákveðið, að þessu umr. skuli vera útvarpsumræða, og á ég þess ekki kost að gera grein fyrir skoðun minni á málinu í ræðutíma flokks míns. Verði litið svo á, að þessari umræðu sé að fullu lokið með útvarpsumr., á ég þess því engan kost að taka til máls í þessu stórmáli. Við 3. landsk. þm. (HV) höfum flutt brtt. við þáltill. þá, sem fyrir liggur, en hvorugur okkar á þess kost að mæla fyrir þeim, ef umr. heldur ekki áfram, og við höfum heldur ekki fengið tækifæri til að skrifa með þessu grg.

Ef þingsköp eru skilin á þá leið, að umræðu megi aldrei halda áfram að lokinni útvarpsumræðu, virðist mér einmitt, að málfrelsi þm. sé þá takmarkað með óeðlilegum hætti. Ef meiri hl. einhvers þingflokks vildi takmarka umræður um mál eða jafnvel koma í veg fyrir ræðuhöld af hálfu útrekinna þm. við síðustu umr. máls, ætti slíkt að geta tekizt með því að biðja um, að umr, yrði útvarpað. Þarf ekki að eyða orðum að því, að slíkt væri andstætt eðli þingræðisins. Ég leyfi mér því að óska þess mjög eindregið við hæstv. forseta, að umræðunni sé haldið áfram að útvarpsumræðunni lokinni.