05.10.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Mál það, sem hér er til umræðu, samningurinn við Bandaríkin, hefur þegar verið rætt svo mikið í blöðum og á mannfundum, að óþarft er að rekja það ýtarlega, enda er þess ekki kostur á þeim fáu mínútum, sem ég hef til umráða. Ég mun þó, einkum vegna hlustenda utan Reykjavíkur, leitast við að rekja höfuðdrætti þess í sem stytztu máli.

Söguleg tildrög málsins eru þessi: Í herverndarsamningnum frá 1941 segir:

„Bandaríkin skuldbinda sig til þess að hverfa burt af Íslandi með allan herafla sinn á landi, í lofti og sjó, undireins og núverandi ófriði er lokið.“

Um skilning þessa ákvæðis hefur verið og er ágreiningur milli Íslands og Bandaríkjanna. Halda Bandaríkin því fram, að ófriðnum sé enn ekki lokið í þeim skilningi, sem átt sé við í samningnum. Þeim sé því enn eigi skylt að hverfa burt með herafla sinn, enda þótt þau að sjálfsögðu muni í einu og öllu standa við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum. Af Íslands hálfu hefur aldrei verið á þann skilning fallizt.

Hinn 1. október 1945 fóru Bandaríkin fram á, að Íslendingar leigðu þeim til langs tíma þrjá tilgreinda staði, Hvalfjörð, Skerjafjörð og Keflavíkurflugvöllinn, til þess að hafa þar herstöðvar. Þessu neitaði stjórn Íslands, og lá nú málið í þagnargildi um skeið.

Þegar beiðni Íslands um upptöku í bandalags sameinuðu þjóðanna var rædd á Alþ. í júlímánuði síðastliðnum, var dvöl Bandaríkjahersins gerð að umræðuefni. Gaf ég þá yfirlýsingu um, að ég mundi tafarlaust hefja viðræður við stjórn Bandaríkjanna um fullnægingu og niðurfellingu herverndarsamningsins frá 1941.

Þegar þessar umræður hófust í júlílok, stóðu sakir þannig:

1. Íslendingar höfðu neitað beiðni Bandaríkjanna um herstöðvar á Íslandi.

2. Leifar af her Bandaríkjanna dvöldu enn hér á landi.

3. Bandaríkin töldu sér þessa hersetu heimila samkvæmt herverndarsamningnum frá 1941.

4. Bandaríkin vildu ekki kveða upp úr um, hve lengi þau hefðu í hyggju að hagnýta sér þessa meintu heimild sína.

Viðræður þessar stóðu yfir í nærri 2 mánuði. Niðurstaðan felst í samningsfrv. því, er hér liggur fyrir.

Aðalatriðin eru :

1. Bandaríkin falla frá óskum um herstöðvar á Íslandi.

2. Herverndarsamningurinn frá 1941 fellur úr gildi.

3. Bandaríkin skuldbinda sig til þess að hafa flutt allan her sinn burt af Íslandi innan 6 mánaða frá því að hinn n$ í samningur gengur í gildi.

Bandaríkin afhenda Íslendingum tafarlaust Keflavíkurflugvöllinn til fullrar eignar og umráða.

Ég skal ekki fjölyrða um það, sem hér hefur á unnizt. En ekki kæmi mér á óvænt, að síðar yrði það talið meðal torskildustu fyrirbrigða sögunnar, hversu nokkrir af forustumönnum Íslendinga brugðust við, þegar tókst að tryggja brottflutning hvers einasta hermanns af landinu og endurheimt alls landsins í hendur Íslendinga.

Hið eina, sem Bandaríkin öðlast með samningi þessum, eru tímabundin og takmörkuð afnot af Keflavíkurflugvellinum. Það eru þessi væntanlegu afnot af flugvellinum, sem deilan stendur um, og gildir því, að menn geri sér fyllilega ljóst, hvað í þeim felst. Til þess að menn sjái þetta mál í réttu ljósi, minni ég á, að með sáttmála þeim, sem gerður var í Potsdam sumarið 1945 milli Bretlands, Bandaríkjanna, Sovétríkjanna og Frakklands, skuldbundu þessir aðilar sig til þess að hafa á hendi herstjórn í Þýzkalandi að loknum ófriðnum. Samkv. þessari skuldbindingu hafa allar þessar þjóðir, sem kunnugt er, her í Þýzkalandi.

Strax og samningaumleitanir þær, er leitt hafa til þess frv., er hér er til umr., hófust, tilkynntu Bandaríkin stjórn Íslands, að þau teldu sér nauðsynlegt að fá víss afnot af Keflavíkurflugvellinum í því skyni að auðvelda þeim herstjórn í Þýzkalandi. Þessari beiðni Bandaríkjanna, sem meðal annars var rökstudd með því, að þessi afnot tryggðu líf og öryggi þeirra, er flugleiðis fara yfir Atlantshafið, gat stjórn Íslands alls ekki svarað á þá leið, að líf og öryggi þegna Bandaríkjanna væri Íslandi óviðkomandi mál. Og því síður kom til mála að taka slíkri málaleitan með þvermóðsku, þar sem Íslendingar gátu jafnframt fengið uppfylltar sínar óskir um brottflutning hersins úr landi og afhending Keflavíkurflugvallarins. Hitt kom að sjálfsögðu til athugunar, með hverjum hætti hentast þætti að fullnægja þörf Bandaríkjanna. Var þá m.a. til athugunar úrlausn eigi ósvipuð þeirri, sem Framsfl. nú hefur stungið upp á. Var þó frá því ráði horfið af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna þess, að hún var eigi talin tryggja rétt Íslands betur en sú leið, sem frv. leggur til. Verður vikið nánar að því síðar.

Þá vil ég minna á, að enn þann dag í dag eru flestir sammála um, að stórhættulegt sé að gera Reykjavíkurflugvöllinn að aðalflugvelli Íslands. Og allir eru á einu máli um hitt, að enn sem komið er skorti Íslendinga bæði menn og fé til að reka Keflavíkurflugvöllinn. Þetta verða menn að hafa í huga þegar rætt er um frv. það, er hér liggur fyrir.

Skal ég þá víkja aftur að samningsfrv. Þau fríðindi Bandaríkjunum til handa, sem talin eru máli skipta, felast í 4. gr. samningsins eins og hann verður samkv. till. hæstv. utanrmn. Með henni er Bandaríkjunum veittur réttur til að athafna síg á Keflavíkurflugvellinum, en hvergi annars staðar á landinu. Réttur þessi er skýr og tvímælalaust takmarkaður við þá þörf til umferðaréttinda, sem skapast af herstjórnarskyldu Bandaríkjanna í Þýzkalandi. Mannfjöldi sá, sem þeim heimilast að hafa á vellinum, fer ekki eftir því, sem Bandaríkin sjálf kynnu að telja þörfina, heldur eftir því, hvað nauðsynlegt er til þess að Bandaríkin geti innt af hendi nefndar herstjórnarskyldur. Rísi ágreiningur út af því, verður honum skotið til gerðardómsins í Haag eða þess dómstóls, sem sker úr deilum sameinuðu þjóðanna. Mennirnir, sem á vellinum dvelja, verða að hafa dvalar- og atvinnuleyfi frá íslenzkum stjórnarvöldum. Íslendingar hafa þannig eigi aðeins aðstöðu til þess að fylgjast nákvæmlega með þeim mannfjölda, sem á hv erjum tíma dvelur á vellinum, heldur hafa þeir vald til að neita um dvalarleyfi, ef þeim þykir eitthvað grunsamlegt við fjölda þessara manna. Sjálf hafa Bandaríkin lýst yfir, að þau telji, að hægt eigi að vera að komast af með 600 manns í þessu skyni. Menn þessir lúta í einu og öllu sömu l. sem Íslendingar. Þetta leiðir beint, ótvírætt og óhjákvæmilega af því, að herinn afhendir Íslandi Keflavíkurflugvöllinn. Frá þeirri stundu gilda að sjálfsögðu íslenzk l. í einu og öllu jafnt á Keflavíkurflugvellinum sem annars staðar á Íslandi. Og hin íslenzku l. ná alveg jafnt til þeirra erlendu manna, sem ætlunin er, að íslenzk stjórnarvöld veiti þar dvalarleyfi, sem til þeirra Íslendinga, er þar munu dvelja. Frá þessu er það eina afvik, að þessir menn njóta vissra skattfríðinda. Hafa þau ákvæði lítilli gagnrýni sætt, enda aðeins óverulegur hluti þeirra fjárhagsfríðinda, sem samningurinn færir Íslendingum.

Með þessu tel ég vera fullkomlega tryggilega um hnútana búið varðandi þann mannafla, sem Bandaríkin fá heimild til að hafa á flugvellinum, jafnt um sjálfan fjöldann sem um allan athafnarétt þessara manna.

Hið sama gildir að því er áhrærir alla starfsemi Bandaríkjanna á flugvellinum. Hún miðast við það, sem nauðsynlegt er, til þess að þeir fái fullnægt þeirri skuldbindingu, sem þeir hafa tekizt á hendur gagnvart Bretum, Sovétríkjunum, Frakklandi og raunar öllum hinum sameinuðu þjóðum, um herstjórn í Þýzkalandi. Við þessar skyldur og ekkert nema þessar skyldur er sá réttur og allur sá réttur, er þeir með samningnum öðlast, bundinn.

Það hefur frá öndverðu verið tilgangurinn, að flugvöllurinn yrði að öðru leyti kvaðalaus eign Íslendinga, sem og hitt, að Íslendingar hefðu úrslitayfirráð hvað rekstur og umráð flugvallarins snertir. Tel ég, að allt þetta hafi verið tryggt með því samningsfrv., er ég lagði fyrir Alþ. Aðrir hafa talið það orka tvímælis. Hæstv. utanrmn. hefur nú borið fram brtt., sem tekur af allan vafa í þessum efnum. Er þar lagt til, að eftir 4. gr. (áður 5. gr.) komi ný gr., svo hljóðandi :

„Hvorki ákvæðin í næstu grein á undan né nein önnur fyrirmæli þessa samnings raska fullveldisrétti né úrslitayfirráðum lýðveldisins Íslands varðandi umráð og rekstur vallarins og mannvirkjagerð eða athafnir þar.“

Skýrara er ekki auðið að kveða á um þetta. Íslendingar hafa öll umráð flugvallarins. Þeir ráða eigi aðeins rekstri hans, heldur nær og fullveldisréttur og úrslitayfirráð einnig til mannvirkjagerðar á flugvellinum og yfirleitt til allra athafna Bandaríkjanna þar.

Fleiri slíkar brtt. hefur n. borið fram til þess að mæta óskum þeirra, er semja vilja við Bandaríkin, en þótti orðalag samningsfrv. of tvírætt: Er ég þeim að sjálfsögðu öllum meðmæltur.

Í samningsfrv. er aðeins eitt atriði, sem ég er ekki fyllilega ánægður með, en það er uppsagnarákvæðið. Að sönnu hefur það þann ómetanlega kost, að í stað þess, að eins og nú standa sakir er ágreiningur um, hvenær Bandaríkjunum sé skylt að hverfa með her sinn burt af Íslandi, skuldbinda þau sig með samningi þessum til að hafa flutt allan herinn burtu innan 180 daga. Jafnframt er ákveðið, að við hinn nýja samning geti Íslendingar einhliða losnað eftir 61/2 ár, ef þeir óska. Það verður eigi með réttu vefengt, að þetta er mikill ávinningur. Samt sem áður hélt ég fast á, að hægt væri að segja samningnum upp með mjög stuttum fyrirvara, helzt aðeins fárra mánaða. Um það náðist þó því miður ekki samkomulag. Færðu Bandaríkin aðallega tvenns konar rök fyrir sínu máli. Í fyrsta lagi héldu þau því fram, að nauðsynlegt væri að leggja fram um 30 millj. kr. til þess að flugvöllurinn yrði sæmilegur, en talsvert meira ef vel ætti að vera. Slík fjárframlög væru ekki eðlileg, ef hægt væri að segja samningnum upp tafarlaust, þegar Bandaríkin væru búin að gera við flugvöllinn. En auk þess og jafnvel aðallega var það haft á oddinum, að Bandaríkin teldu sér ekki fært að afsala sér þeim rétti, er þeir samkv. samningnum frá 1941 teldu sig hafa til herdvalar hér á landi, nema því aðeins að þeir tryggðu sér jafnframt þau minnstu afnot Reflavíkurflugvallarins, sem þeir teldu sér nauðsynleg til þess að standa við fyrrnefndar skuldbindingar til herstjórnar á Þýzkalandi. Byggðu Bandaríkin á þessum rökum kröfu um, að gildistími hins nýja samkomulags miðaðist við herstjórnartímann. Á þetta var af hálfu íslenzkra stjórnarvalda þverneitað að fallast, og náðist loks samkomulag um þau 6li ár, sem frv. greinir.

Þá vil ég geta þess, að ég er mótfallinn till. framsóknarmanna á þskj. 39, bæði vegna þess að mér sem þeim er ljóst, að þær leiða ekki til samkomulags við Bandaríkin, sem og vegna hins, að ég tel, að það form, sem þar er valið, sé mjög óviðfelldið. Framsóknarmenn ætlast til, að Íslendingar reki flugvöllinn sjálfir að nafninu til, en allt, sem til þess rekstrar þarf, þ.e.a.s. menn og fé, fái þeir frá Bandaríkjunum. Það kann að vera, að við fyrstu sýn líti þetta eitthvað betur út. Í reyndinni verður það verra.

Þá hef ég heldur ekki séð mér fært að fallast á fram komnar óskir um, að mál þetta verði lagt undir sérstakan dóm þjóðarinnar með almennri þjóðaratkvæðagreiðslu. Ber margt til, en það helzt, að það fær með engu móti staðizt, að með þessum samningi sé á nokkurn hátt um réttindaafsal að ræða af hálfu Íslendinga. Þvert á móti er nú landið að nýju fengið Íslendingum í hendur. Þjóðaratkvæðagreiðsla er því ástæðulaus. Vísa ég að öðru leyti til ummæla í nál. hv. meiri hl. utanrmn. um þetta atriði.

Ég verð þá að stytta mál mitt. Aðrir munu ræða hér ýmsar hliðar þess og m. a. sanna, hvílík fásinna er, að samningur þessi veiti Bandaríkjunum herstöðvaréttindi eða brjóti í bág við fullveldi Íslands. Þó vil ég ekki láta því ómótmælt, að með þessum samningi hafi Íslendingar skipað sér í fylkingu í togstreitunni milli austurs og vesturs, eins og þetta er orðað. Ef Ísland hefði af frjálsum vilja samþ. till. þær, er Bandaríkin báru fram hinn 1. október 1945, og með því veitt Bandaríkjunum rétt til herstöðva á Íslandi, þá hefði ef til vill mátt til sanns vegar færa, að Ísland hefði þar með kastað teningunum: með vestri og gegn austri. Ísland gerði þetta ekki. Alveg að sama skapi tel ég, að ef Ísland neitaði Bandaríkjunum um þann umferðarétt, sem þau — og þau ein — þurfa hér á landi, en austrið þarf og hefur tryggt sér annars staðar, þá hefðu Íslendingar gerzt berir að beinum fjandskap við Bandaríkin. Af því hefði hlotið að leiða, að Íslendingar yrðu taldir hafa skipað sér til andstöðu gegn Bandaríkjunum og þá væntanlega líka gegn Bretlandi, samkvæmt boðsendingu stjórnar Bretlands. Með því hefðu Íslendingar þá brotið af sér tvo voldugustu vinina, nágrannana að vestan og austan. Ég veit, að þetta vakir ekki fyrir Íslendingum, og heldur ekki hitt, sem sennilega yrði afleiðingin, að Ísland ætti hvergi skjól nema hjá austrinu. Allir vitibornir menn játa, að á öllu veltur fyrir Íslendinga að vera í vinfengi við sem allra flestar þjóðir, og þá ekki sízt allar hinar voldugustu.

Ég hef kosið að verja þeim stutta tíma, er ég hef til umráða, til þess að skýra málið, en leitt hjá mér árásir og fáheyrðar svívirðingar andstæðinga málsins í garð okkar, er að samningsfrv. stöndum. Sagan mun hrekja þær árásir. Þess verður ekki langt að bíða, að víman renni af mönnum. Þá mun það koma í ljós, að vel hefur tekizt að leysa mikið vandamál, er herinn er fluttur úr landi, Íslendingar fengið að nýju full yfirráð lands síns, en brýn þörf vínaþjóðar þannig leyst, að Íslendingar hafi af fullan sóma.

Við, sem að þessu máli stöndum, sýndum það með undirtekt okkar undir herstöðvaóskir Bandaríkjanna, að okkur skorti ekki manndóm til að gæta réttar Íslands, þótt við voldugan aðila væri að etja. Hitt játa ég, að mig brestur bæði vilja og þrek til að gerast ber að því, sem ég tel hreinan fjandskap við Bandaríkin. Ég tel, að sjálfstæði Íslands sé undir því komið, að við höldum vínfengi við aðrar þjóðir. Það tekst aldrei án þess að við leggjum okkar skerf til alþjóðasamstarfs og verðum við þeim óskum annarra þjóða, sem auðið er, okkur að meinfangalausu. með því einu móti getum við líka vænzt þess, að við slítum ekki vináttuböndin, þótt við svörum þeim synjandi þegar til þess er mælzt, sem ekki samræmist frelsi landsins og fullveldi þess.

Ég vil svo aðeins að lokum segja þjóðinni frá því, að daglega hafa mér borizt skilaboð og tilmæli hvaðanæva. Hér er þess enginn kostur að rekja þær óskir. Tel ég mér þó skylt að skýra frá því, að í gærkvöld gekk nefnd manna á fund minn og færði mér áskorun frá útifundi Reykvíkinga um að láta ganga þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Gegn þeirri ósk hafa hins vegar langflestir lagzt, er til mín hafa snúið sér. Skal ég úr þeim margmenna hópi aðeins nefna þann, er síðastur kom, einmitt þegar ég var að ganga hingað niður í alþingishúsið. Mér var þá afhent svo hljóðandi skjal:

„Vér undirritaðir, skipverjar á e.s. „Súðin“, lýsum okkur samþykka meiri hluta samningsuppkasts þess, sem nú liggur fyrir Alþingi, um réttindi Bandaríkjanna til notkunar Keflavíkurflugvallarins. Vér teljum, að þjóðaratkvæðis þurfi ekki að leita um þennan samning, því að hann feli ekki í sér neina réttindaskerðingu, heldur óumdeilanlegan rétt Íslendinga yfir landinu. Vér lítum svo á, að rakalaus tortryggni í garð vinveittrar þjóðar sé ekki sæmandi. Í trú á góðvilja og réttlæti milli þessara þjóða skorum vér sjómenn á Alþ. og ríkisstj. að samþykkja þennan samning, án tillits til sundrungaraflanna, sem nú ber svo mikið á í þjóðlífi voru.

Um borð í e.s. „Súðin“, 4. okt.“

Þessu bréfi fylgdi bréf frá þjóðkunnum manni, sem lengi hefur verið vel þekktur meðal þeirra, er fastast standa á rétti Íslendinga. Þar segir m.a.:

„Það er mér mikil ánægja að tjá yður, herra forsrh., að undir þetta skjal hafa ritað nafn sitt allir skipverjar skipsins. Vér vonum, að það geti orðið til einhvers gagns fyrir framgang þess máls, er það fjallar um. Er það álit mitt, að sjómenn yfirleitt séu svipaðs sinnis í máli þessu.“

Af þessu og óteljandi öðru svipaðs eðlis höfum við, sem að málinu stöndum, fulla ástæðu til að ætla, að við höfum þjóðarviljann að baki okkar.