05.10.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Háttvirtu hlustendur. — Það var fögnuður í hjörtum Íslendinga 17. júní 1944, þegar þjóðveldið íslenzka var endurreist. Draumur kynslóðanna í 7 aldir rættist. Íslendingar tóku stjórn allra sinna mála í sínar hendur á ný og fluttu æðsta valdið, þjóðhöfðingjavaldið, heim. En einn skuggi grúfði yfir þessari fagnaðarhátíð hins íslenzka þjóðernis. Þrátt fyrir endurreisn lýðveldisins réðum við sjálfir ekki öllu landi voru. Vissir staðir í landinu voru bannsvæði undir stjórn og umráðum erlends ríkis, og erlendir vopnaðir verðir gættu þess, að enginn Íslendingur stigi þangað fæti. Í landi voru dvöldust tugþúsundir útlenzkra hermanna, sem engin íslenzk l., íslenzkir dómstólar né íslenzk yfirvöld náðu til. Þetta ástand byggðist á herverndarsamningnum, sem Íslendingar gerðu við Bandaríkin 1941. Íslendingar hafa þráð þá stund, er sá samningur félli úr gildi. Og allur herinn hyrfi úr landi brott. Íslendingar hugsuðu með tilhlökkun til þess dags, er þeir fengju aftur full yfirráð yfir öllu landi sínu og íslenzk l. næðu til allra þeirra manna, er á Íslandi væru.

Fyrsta afleiðing þessa samnings, sem nú liggur fyrir alþ., verður sú, að þessar óskir Íslendinga rætast. Samkv. frv. verður allt herlið flutt af landi burt innan 6 mánaða, og allt íslenzkt land kemst aftur undir íslenzka stjórn, undir íslenzk lög. Nú vilja sumir halda því fram, að allt þetta gætum við öðlazt án þess að gera nokkurn samning við Bandaríkin. Þau séu, samkvæmt herverndarsamningnum, skuldbundin til að vera farin með allan her sinn. Það er rétt, að við höldum ákveðið fram þeim skilningi. Bandaríkin hafa annan skilning á því ákvæði samningsins, hvenær ófriðarástandinu sé lokið, eins og hæstv. forsrh. skýrði í ræðu sinni. Þau telja sér heimilt samkv, samningnum að hafa her sinn hér enn um ótiltekinn tíma. Hér liggur fyrir ágreiningur milli ríkjanna, og þá er tvennt til fyrir okkur: Annaðhvort að kæra Bandaríkin fyrir öryggisráði eða alþjóðadómstóli eða að ná samkomulagi við þau um brottflutning hersins. Að sjálfsögðu getur þau atvik að höndum borið, að vér Íslendingar neyðumst til að hefja kærur og málaferli við aðrar þjóðir, stórar eða smáar. En það er skoðun mín, og ég segi hana hiklaust, þótt blindu slegnir ofstækismenn kalli það landráð, að ég tel hagsmunum Íslands heilladrýgra að útkljá þennan ágreining með vinsamlegu samkomulagi, sem í engu skerðir sjálfstæði Íslands, heldur en með kærum og málarekstri á alþjóða vettvangi.

1. október í fyrra báru Bandaríkin fram tilmæli um að fá herstöðvar til langs tíma í Reykjavík, Hvalfirði og Keflavík. Með herstöðvum var átt við, að þessi ákveðnu landssvæði yrðu undir erlendum yfirráðum og þar yrðu hermenn, utan við íslenzk lög og rétt. Ég taldi og tel, að herstöðvar erlends ríkis í landi voru væru ósamrýmanlegar sjálfstæði þess. Ísland svaraði herstöðvakröfunni neitandi. Bandaríkin kváðust láta málið niður falla í bili. Það er önnur afleiðing þessa samningsfrv., að herstöðvakröfurnar eru niður fallnar fyrir fullt og allt.

Flestum Íslendingum er það ljóst, að einn fullgildan Atlantshafsflugvöll verðum við að hafa. Þá er um annað tveggja að ræða, Reykjavíkur eða Keflavíkurvöllinn. Með öryggi höfuðborgarinnar og hagsmuni alls Íslands fyrir augum veldur það engum vafa, að Keflavíkur völlinn ber að velja. Hins vegar er það viðurkennt af öllum, að vér erum ekki megnugir þess að reka slíkan flugvöll af eigin fé. Sósíalistinn Ellingsen, flugmálastjóri, Áki Jakobsson, flugmálaráðh., og Einar Olgeirsson hafa allir lýst yfir því, að ekki sé unnt að starfrækja Keflavíkurvöllinn sem aðalflugvöll landsins, nema stofn- og rekstrarkostnaður verði greiddur af öðrum en Íslendingum. Spurningin er þá aðeins þessi: Eigum vér að ganga sem beiningamenn fyrir hvers manns dyr og betla um samskot til að reka flugvöllinn, — og er þó óupplýst og ósennilegt, að nokkur þjóð mundi vilja leggja fé af mörkum, — eða eigum vér að taka tilboði Bandaríkjanna um, að fyrir þann lendingarrétt, sem þau telja sér nauðsynlegan vegna hernáms Þýzkalands, greiði þau meginhlutann af viðhalds- og rekstrarkostnaði vallarins meðan samningurinn er í gildi? Ég tel síðari leiðina virðulegri fyrir hið sjálfstæða Ísland. Þriðja afleiðing þessa samnings yrði því sú, að fjárhagslegum rekstri flugvallarins verði borgið.

En það er ekki eingöngu af fjárhagsvanefnum, að vér erum því óviðbúnir að taka við rekstri flugvallarins. Oss skortir enn nægan mannafla lærðra og reyndra flugvallarstarfsmanna. Vér þurfum því að tryggja tvennt: Erlenda sérfræðinga fyrst um sinn og þjálfun og kennslu Íslendinga til þess að þeir geti tekið að sér störfin. Hvort tveggja er tryggt með samningsfrv. Fjórða afleiðing samningsins er því sú, að nægir sérfræðingar verða til starfa á vellinum og Íslendingum er tryggð kennsla og þjálfun í þeim tilgangi, að vér getum sjálfir í vaxandi mæli tekizt störfin á hendur. — Allt þetta, sem ég nú hef greint, sést þeim mönnum yfir, sem leyfa sér að fullyrða, að með þessum samningi fái Bandaríkin allt, sem þau vilji, en Íslendingar fái ekkert í aðra hönd. En hver eru þá réttindin, sem Bandaríkin fá? Þau fá tvenns konar rétt. Í fyrsta lagi lendingarrétt á vellinum fyrir þær flugvélar, sem þar þurfa að lenda vegna hersetu Bandaríkjanna í Þýzkalandi. Í öðru lagi fá þau rétt til að hafa á flugvellinum það starfslið, þau tæki og þá starfsemi, sem nauðsynleg er í þessu skyni. Fyrra atriðið vekur auðvitað þá spurningu: Er þessi lendingarréttur nauðsynlegur fyrir Bandaríkin? Ég hef ekki þá herkunnáttu, að ég geti um það dæmt. En margt bendir þó til þess, að synjun þessa lendingarréttar gæti bakað Bandaríkjunum stórkostlega örðugleika og aukna áhættu mannslífa og annarra verðmæta. Þessi nauðsyn verður ljósari þegar aðgætt er, hversu miklar kröfur aðrar hernámsþjóðir gera til ýmissa ríkja til tryggingar samgönguleiðunum. Hv. 10. landsk. drap á, að Bretar hafa t.d. afnot flugvallar á Jótlandi í þessu skyni. Bretar og Bandaríkjamenn hafa afnot flugvalla í Hollandi, Belgíu, Luxemburg og Frakklandi í þessu sama skyni. Rússar hafa, til þess að tryggja samgönguleiðir milli sín og Þýzkalands, mikið herlið í þeim löndum, er liggja þar í milli: 450 þús. manna her í Póllandi, 300 þús. í Rúmeníu og 60 þús. í Ungverjalandi. Þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga, virðast óskir Bandaríkjanna, — ekki um herstöðvar hér, ekki um einn einasta hermann, heldur aðeins lendingarrétt, — ekki vera óeðlilegar.

Flugmálaráðh., Áki Jakobsson, fór fram á það við fyrri umr. þessa máls, að fengið væri álit hinna þjóðanna, sem að hernámi Þýzkalands standa, um það, hvort Bandaríkjunum væri þetta nauðsynlegt. Nú liggur fyrir álit frá einni þeirra, Bretum, þar sem þeir telja þennan lendingarrétt vera Bandaríkjunum bráðnauðsynlegan. En þá bregður svo við, að blað þessa sama manns kallar álit Breta, sem hann sjálfur hafði þó óskað eftir, vera svívirðilega íhlutun um málefni Íslands og árás á sjálfstæði þess.

En þó að þessi lendingarréttur ætti í upphafi að vera höfuðvopnið gegn þessu frv., þá hafa umr. snúizt svo nú, að meginþorri gagnrýnendanna er farinn að viðurkenna þessa nauðsyn, vill semja við Bandaríkin á þeim grundvelli, að þau fái þennan lendingarrétt, og telur það enga skerðingu á fullveldi okkar. Brtt. Framsfl. byggjast á því, að þessi réttur sé veittur. Sama er um brtt. Gylfa Þ. Gíslasonar og Hannibals Valdimarssonar. Og í blaði Þjóðvarnarfélagsins, „Þjóðvörn“, er út kom á miðvikudaginn, stendur í ritstjórnargrein þessi setning orðrétt:

„Allir Íslendingar og meira að segja kommúnistar hafa æ ofan í æ lýst því yfir nú undanfarið, að þeir vilji semja við Bandaríkin um alla þá flutninga, sem herstjórn þeirra telur sér nauðsynlega sakir hersetunnar í Evrópu.“

Eftir þessar viðurkenningar á því atriði samningsins, sem mestur styr stóð um í öndverðu, tel ég litla þörf á að ræða það mál nánar.

Næst er að athuga, hvernig frv. ætlast til, að þessi lendingarréttur verði í framkvæmd, og hversu háttað verði starfsliði, tækjum og starfsemi á flugvellinum. Það er skýrt fram tekið í frv. eins og utanrmn. leggur til, að það verði, að flugvöllurinn í Keflavík verði óvefengjanleg eign Íslands og Ísland hafi fullveldisrétt og úrslitayfirráð um allan rekstur hans og umráð, mannvirkjagerð og athafnir þar. Af þessu og fullveldi Íslands leiðir að á flugvellinum gilda eingöngu íslenzk l., eins og annars staðar í landi hér, og að þeir erlendu starfsmenn, sem þar verða, standa undir íslenzkri lögsögu, gagnstætt því, sem verið hefur um hermennina. Allt herlið hverfur þaðan á braut. Enginn útlendur starfsmaður getur verið þar, nema hann hafi fengið landvistarleyfi og atvinnuleyfi hjá ríkisstj. Íslands. Um tölu þessara útlendu flugvallarmanna hefur Bandaríkjastjórn tjáð íslenzku ríkisstj., að gert sé ráð fyrir, að þeir verði 500–600, og hefur verið afhent sundurliðuð skrá um, hvaða starf hver þessara manna skuli hafa með höndum. Það hefur því enga stoð í veruleikanum, þegar því er varpað fram, að Bandaríkin geti haft þar svo marga starfsmenn sem þeim þóknast, jafnvel svo að þúsundum skiptir.

Því hefur verið haldið að fólki, að Bandaríkin ætli og hafi rétt til að leggja óhemjumiklar nýjar flugbrautir á vellinum. Það er þó skýrt orðað í frv., að engin mannvirki má gera þar án samþykkis íslenzkra stjórnarvalda. Þær fjárhæðir, sem hæstv. forsrh. hefur nefnt, eru miðaðar við smíði húsa og híbýla, endurbætur og víðhald brauta, en ekkert af þessu má þó gera nema með okkar samþykki. Ef ágreiningur kynni að koma upp milli íslenzkra og erlendra starfsmanna á flugvellinum, er það íslenzka yfirstjórnin, sem sker úr.

Því er haldið fram, að þessi samningur sé stórkostleg skerðing á fullveldi okkar, og einn spekingurinn orðar það svo í dag, að verði samningurinn samþ., stöndum vér yfir moldum íslenzks fullveldis. Vér skulum nú athuga nánar þessar staðhæfingar. Í fyrsta lagi: Andstæðingar frv. segja, að það sé skerðing á fullveldinu, að nokkur hundruð útlendir menn starfi hér undir íslenzkri lögsögu. Auðvitað er þetta fjarstæða, enda væri þá engin þjóð fullvalda, því að í sérhverju landi er eitthvað af útlendum starfsmönnum. Í öðru lagi: Andstæðingarnir telja það fullveldisskerðingu, að erlent fé komi til að byggja vistarverur og gera við flugbrautir. Það þarf töluvert hugmyndaflug til þess að láta sér detta slíkt í hug, þegar einnig er ákveðið í samningnum, að íslenzka stj. ráði því, hvaða mannvirki megi gera þar. Einn lögspekingur sósíalista hefur fundið það út, að sérreglan um skattgreiðslu hinna erlendu flugvallarmanna þýði glötun fullveldisins. Vér höfum nú þegar ýmsar sérreglur um skattgreiðslur útlendinga, og kemur það fullveldinu auðvitað ekkert við. — Fjórða staðhæfingin er sú, að umferðar- og lendingarréttur hinna bandarísku flugvéla sé ósamrýmanlegur fullveldi landsins. Ég hygg, að leitun sé á þeim manni utan Íslands, sem hefur dottið í hug að kalla lendingarrétt flugvéla skerðing ásjálfstæði og fullveldi, enda væri þá lítið orðið úr fullveldi flestra ríkja í Evrópu. — Í fimmta lagi er staðhæft, að það ákvæði 4. gr., að taka skuli tillit til sérstöðu þessara flugvéla og áhafna þeirra varðandi tolla, landsvist og formsatriði, sé fullveldisskerðing. Samkvæmt þjóðarétti gilda sérreglur um herflugvélar og áhafnir þeirra, og er þetta ákvæði ekki annað en staðfesting þeirra reglna. — Í sjötta lagi er sagt, eins og flugmálaráðh., Áki Jakobsson, hélt fram, að Bandaríkin geti haft hundruð herflugvéla með fast aðsetur á vellinum eins lengi og þau vilja og þess vegna sé þetta herstöðvasamningur. Auðvitað veit maðurinn, að engin heimild er í samningnum fyrir slíku: lendingarréttur og umferðarréttur sá, sem 4. gr. veitir, skapar engan rétt til varanlegs aðseturs fyrir neinar flugvélar á vellinum. Í 5. og 7. gr. er íslenzku ríkisstj. tryggður réttur til að banna slíkt.

Þessir háttvirtu andstæðingar hefðu getað talað um skerðingu fullveldisins þegar herinn kom hingað og meðan vér erum undir hervernd Bandaríkjanna og her þeirra er hér. En að hefja hróp um skerðingu á fullveldinu, þegar herverndin fellur niður og herinn er fluttur á brott og við fáum yfirráð alls landsins, til þess þarf meira ímyndunarafl og brjóstheilindi en Íslendingar almennt hafa.

Um þá endemisræðu, sem Áki Jakobsson hélt, vil ég segja það eitt, að ég hygg, að ekki hafi það áður komið fyrir, hvorki hér né annars staðar, að einn ráðh. í ríkisstj. talaði þannig í garð forsrh. En þessi ráðh. er nú alltaf með sínu lagi. — Það hefur verið deilt á málsmeðferðina. Áki Jakobsson kvartar yfir því, að sósíalistar hafi ekki fengið að fylgjast með undirbúningi málsins. Sósíalistar höfðu margsinnis lýst yfir því, að þeir vilji ekki semja við Bandaríkin, heldur kæra þau. Það var því ástæðulaust og hefði verið óviðeigandi að hafa slíka menn með í viðræðunum.

Andstæðingarnir kvarta yfir því, að forsrh. hafi viðhaft ofbeldi, pukur og leynd í þessu máli. Mál þetta hefur verið undirbúið á svipaðan hátt og annars staðar tíðkast um utanríkismál. Sá ráðherra, sem með utanríkismál fer, undirbjó það með viðræðum við hinn aðilann. Þegar ráðh. hafði náð þeim árangri, sem hann taldi hægt að fá beztan, kallar hann saman Alþ., en leggur málið áður fyrir ríkisstj. Um málið voru ákveðnar tvær umr. Fyrri umr. stóð yfir í tvo daga, og málinu var vísað til utanrmn. Það er alger misskilningur, að nokkurt ákvæði þingskapa hafi verið brotið, þau ákveða ekkert um, á hvaða stigi máls skuli leita álits utanrmn. N. og þingflokkarnir hafa haft málið til athugunar í tvær vikur. Og nú er útvarpað síðari umr. Ég held varla, að þeir menn geti verið heilir á sönsum, sem út af þessari málsmeðferð koma kveinandi og emjandi yfir því, að pukur, leynd og ofbeldi sé víðhaft af hálfu forsrh. í þessu máli.

Sósíalistar tala mjög um þjóðareiningu gegn frv. Það hefur ekki verið sparað, að ýmis félög hafa verið fengin til að gera samþykktir gegn málinu. En þær samþykktir eru ýmsar til orðnar með einkennilegum hætti. T.d. var boðað til fundar í verkamannafélagi í nágrenni Rvíkur til þess að mótmæla samningnum. Í félaginu eru um 700 manns. 25 menn mættu, og meiri hl. þeirra mótmælti. Og þannig hefur verið um flestar aðrar samþykktir. En ekki hefur verið sparað að birta þetta í útvarpinu sem vilja þjóðarinnar. Sjálfstæðismenn hafa haldið í Rvík þrjá fundi meðan umr. hafa staðið yfir um málið. Á öllum þessum fjölmennu fundum hefur ríkt alger eining um samningsfrv. og samþykkt meðmæli með því. En ég vil leyfa mér að spyrja: Hvað líður undirskriftunum, sem sósíalistar stofnuðu til, undirskriftunum um að heimta þjóðaratkvæði? Það var gengið í hvert hús í bænum. Smölunin hefur staðið yfir í tvær vikur. Hvers vegna hefur árangurinn ekki enn verið leiddur í dagsins ljós? Er það vegna þess, að sósíalistar hafi orðið fyrir einhverjum vonbrigðum með árangurinn?

Um þjóðaratkvæðið vil ég segja það eitt: Ég tel sjálfsagt, að engu ríki séu. veittar hér herstöðvar án þjóðaratkvæðis. Þetta frv. felur engar herstöðvakvaðir í sér. Þess vegna er ástæðulaust að leita þjóðaratkvæðis. Ef það væri gert, væri með því ranglega gefið í skyn, að samningurinn fæli í sér herstöðvar.

Af þeim ástæðum, sem ég hef greint, greiði ég atkv. með þessari þáltill.