05.10.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Í þessum umr. hefur komið fram ráðningin á því, hvers vegna kommúnistar eru á móti útvarpsumr. um þetta mál. Ráðningin á þeirri gátu kemur fram í „rökum“ þeirra gegn samningnum. Skammir þeirra og fúkyrði gegn samningnum eru sem sé ekki líkleg til þess að laða menn að málstað þeirra, og auðveldara er að blekkja þjóðina, ef engar útvarpsumr. eru hafðar um málið.

Hv. 2. þm. Reykv. taldi það furðulegt, að utanrmn. skyldi ekki hafa leitað álits þeirra Ólafs Lárussonar og Einars Ólafs Sveinssonar á samningnum. Hann gat sjálfur spurt um álit þeirra. Af hverju kom hann ekki með það? Ef til vill hefur hann ekki fengið það eins og hann vildi. Sami hv. þm. taldi það og furðulegt, að ekki væri lagt fram frv. um breyt. á skattgreiðslum útlendinga. Áttu þær að byggjast á því, sem ekki var búið að samþykkja? Enn fremur talaði þessi hv. þm. um lýðræðið í verkalýðssamtökunum, er Alþfl. réð þar, og eins og það er nú, og taldi það stórum hafa aukizt. En þeir, sem hafa búið við lýðræði Alþfl. og hið svokallaða lýðræði kommúnista nú, geta svarað þessum hv. þm. Mjög víða, þar sem kommúnistar ráða í verkalýðsfélögum, eru kosningar framkvæmdar með ofbeldi og svikum. Þetta er kunnugt, og menn utan af landi geta borið þessu vitni.

Sami hv. þm. taldi þennan samning nauðungarsamning, sem Bandaríkin neyddu upp á okkur. Þetta er staðleysa. Við alþm., sem samþykkja viljum þennan samning, gerum það af fúsum vilja, af því að við teljum samninginn okkur hagkvæman. Enn segir þessi hv. þm., að fyrir liggi undirskriftir um það bil 8000 kjósenda, sem krefjist þjóðaratkvæðis um málið. Þær undirskriftir eru alls ekki fyrir hendi. Það liggja fyrir undirskriftir ýmissa manna, sem alls ekki hafa kosningarrétt. Þrátt fyrir svívirðingar, árásir og róg um uppkastið, bæði í blöðum og á mannfundum, hefur aðeins fimmti hluti Reykvíkinga skrifað undir kröfuna um þjóðaratkvæði. Djúpar rætur hefur krafan um þjóðaratkvæði ekki átt hjá þjóðinni. Kommúnistar vildu ekki útvarpsumr., af því að þeir vildu blekkja þjóðina, því að auðveldara er að blekkja fólk án málflutnings frá öllum hliðum. Hingað hafa komið allmargar samþykktir um mótmæli gegn uppkastinu, en í mörgum tilfellum vissu menn alls ekki, hvað þeir voru að skrifa undir.

Fjarstæða er að halda því fram, að hér sé um herstöðvasamning að ræða. Ástæðurnar gegn samningnum eru aðallega tvenns konar. Í fyrsta lagi óttinn um þjóðernið og í öðru lagi óttinn um yfirráðin yfir flugvellinum. Við höfum haft tugi þúsunda af útlendingum í landinu og höfum ekki glatað þjóðerni voru, heldur hefur það þvert á móti eflzt og stælzt. Hér eru nú í landinu í atvinnu um 3000 útlendingar. Engum dettur í hug, að þjóðerninu stafi hætta af þeim. Hér á að leyfa 500–600 Bandaríkjamönnum að hafa dvöl á Keflavíkurflugvellinum undir íslenzkri lögsögu og suður á flugvellinum. Það stafar minni hætta af fimm til sex hundruð Bandaríkjamönnum á einum stað heldur en af þeim 3000 útlendingum, sem hér eru í atvinnu, dreifðir um allt landið. Óttinn um þjóðernið er því ástæðulaus. Hvað víðvíkur yfirráðum yfir flugvellinum, þá fáum við samkv. samningnum full yfirráð yfir honum.

Hér liggja fyrir þrenns konar brtt., en í raun og veru skiptast menn aðeins í tvo flokka: Þá, sem vilja semja við Bandaríkin, og þá, sem vilja ekki semja við Bandaríkin. Í utanrmn. var hv. 2. þm. Reykv. sá eini, sem lagði til, að uppkastið að samningnum yrði fellt. Kommúnistar eru sem sé þeir einu, sem enga samninga vilja við Bandaríkin og vilja ekki leyfa þeim umferðarrétt á Keflavíkurflugvellinum til þess að geta uppfyllt hernámsskyldur sínar í Þýzkalandi. Ef Bandaríkin eru ákveðin í því að brjóta samninginn og beita ofbeldi, þurfa þau engan samning til þess. En með andstöðu sinni gegn samningsuppkastinu sýna kommúnistar, að þeir telja Bandaríkin ekki samningshæf. Till. Framsfl. eru erfiðar í framkvæmd. Samkv. þeim tækjum við rekstur flugvallarins að okkur að nafninu til og á okkar ábyrgð. Ef slys eða aðrar misfellur á rekstri flugvallarins kæmu fyrir, væri hægt að skella skuldinni á okkur, en eins og ger t er ráð fyrir í samningsuppkastinu, getum við snúið okkur til alþjóðadómstóls, ef kvartað er yfir rekstri flugvallarins og aðgerðum á honum. Eru því brtt. Framsfl. sízt til bóta.

Viðvíkjandi þjóðaratkv. vil ég taka fram eftirfarandi: Forsrh. sneri sér til meðráðh. sinna og óskaði, að ríkisstj. reyndi að ráða farsællega fram úr innanríkisvandamálunum, sérstakar ráðstafanir þarf að gera vegna sjávarútvegsins, og fé vantar í ýmiss konar framkvæmdir, og mörg verkefni eru óleyst. Forsrh. sneri sér því til meðráðh. sinna og óskaði eftir lausn þessara mála. En ráðh. kommúnista neituðu að ræða þessi innanríkisvandamál fyrr en flugvallarsamningsmálið væri til lykta leitt. En þjóðaratkvæði er raunar ástæðulaust, þar eð hér er ekki um neitt réttindaafsal að ræða, heldur fá Íslendingar nú full og óskoruð umráð yfir öllu landi sínu. Ef til þjóðaratkvæðis hefði verið gengið, hefði öllum tilraunum til úrlausnar á vandamálunum innanlands verið slegið á frest.

Menn skiptast í flokka um þetta mál. Meiri hl. vill vináttu við aðrar þjóðir og lausn innanríkisvandamálanna. Og ég tel, að andstaðan gegn uppkastinu byggist að nokkru leyti á vanmati á íslenzku þjóðerni og andstöðuafli okkar. Ef okkur er sýnt ofbeldi, stöndum við alltaf sem einn maður, nema þá þeir, sem í öllum málum trúa á forustu og umsjá annarrar þjóðar.