05.10.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Það má mikið vera, ef mörgum verður ekki um þessar mundir hugsað til þess, þegar síðast var rætt um pólitík í útvarpið. Það eru nú ekki nema rúmir 3 mánuðir síðan. Við það tækifæri tók hæstv. forsrh. sig til og hóf að nefna hv. 2. þm. Reykv. herra Einar, en herra Einar lét það í móti koma af sinni hendi, að hæstv. núv. forsrh. væri slíkur afreksmaður ásamt núv. hæstv. menntmrh., að heill og velferð landsins ylti á því, að þeim ekki sinnaðist svo, að samstarf þeirra biði hnekki af. Við sama tækifæri og um sömu mundir var þjóðin upplýst um það, hve náið, innilegt, drengilegt og þjóðhollt stjórnarsamstarfið væri. Þetta var nú sagt þá.

Nú á hinum síðustu og verstu tímum hafa skeð atburðir, sem sýna mönnum nokkuð aðra lið þessara mála. Það er nú komið í ljós, að tæplega hafa þessir hv. ræðumenn og stjórnendur verið búnir að sleppa orðinu, þegar hæstv. forsrh. hóf að semja við umboðsmenn annarrar þjóðar um eitt vandasamasta og viðkvæmasta utanríkismál landsins á bak við ríkisstj. og án vitundar hennar. Og það er á allra vitorði, enda upplýst af blöðum hæstv. forsrh., að þær afsakanir eru hafðar fyrir þessari framkomu ráðh., að hann hafi orðið að gera þetta, vegna þess að í ríkisstj. hafi verið og séu menn, sem ekki sé til þess trúandi að fjalla um þvílík vandamál. Þegar svo hæstv. forsrh. hafði lokið samningum á bak við ríkisstj., utanrmn. og að ég nú ekki tali um framsóknarmenn, sem voru svo mikla óþjóðhollari en kommúnistar, að þeir vildu ekkí eiga þátt í að stjórna landinu á þann hátt, sem gert hefur verið undanfarið, þegar ráðh. hafði lokið samningum á þennan hátt og lagði þá fyrir ríkisstj. og Alþ. sem gerðan hlut, — þá fór fram allsherjar endurskoðun á þeim vitnisburðum, sem mönnum höfðu verið gefnir. Tvö aðalmálgögn hæstv. ríkisstj. hafa haft forustuna. Hinir þjóðhollu drengskaparmenn í ríkisstj. eru í einu vetfangi orðnir að ótíndum landráðamönnum, Júdösum og mútuþegum, og hallar ekki mjög á um vitnisburðina hjá flokksblöðum ráðherranna. Sá er helzt munurinn, að í stjórnarherbúðum sósíalista er því slegið föstu, að samstarfsmenn þeirra séu nú að drýgja landráð, en í hinum hluta stjórnarherbúðanna er fullyrt, að kommúnistar séu hvenær sem er reiðubúnir til þess að drýgja landráð, ef þeir ná í réttan enda. Þá heldur aðalmálgagn Sjálfstfl. því blákalt fram, að samstarfsmenn forsrh. í ríkisstj. hafi efnt til uppþots gegn honum og fleiri þm. Sjálfstfl. í því skyni, að líkamlegu ofbeldi yrði beitt. En hér í þessum umr. stimplar hæstv. atvmrh. starfsbróður sinn réttan og sléttan samsærismann, og eru það þó eins og gælur samanborið við annað, sem menn eiga nú að venjast. Það er ömurleg mynd af óheilindum og litlum drengskap í samstarfi, sem landsmenn hafa nú daglega fyrir augum. Ef til vill kemur einhverjum þetta á óvart, sem trúað hefur skrumi og fagurgala stjórnarliðsins um stjórnarhættina og heilindin, en þeir munu vera margir, sem nú sjá glöggt, að það, sem menn hafa nú fyrir augum, er ekki svo fjarri því að vera rétt mynd af því, hvernig stjórnarhúsið hefur litið út að innan allan þann tíma, sem það hefur staðið, þótt reynt hafi verið að bera það gyllingu utan.

Það er ekki von á góðu, þegar illa er í pottinn búið. Það er augljóst, að málefni það, sem hér er nú til umræðu, hefur goldið þess, en ekki notið, hvernig ástatt var um stjórnarhættina, og það hefur einnig goldið þeirrar lífsreglu, sem hæstv. ríkisstj. hefur farið eftir og í því var fólgin að útiloka stjórnarandstöðuna frá öllum áhrifum á þjóðmál. „Útrýmum þeim pólitískt“ — „þeir hafa valið það að vera utangarðs“ þetta voru kjörorðin.

Það var komið vel á veg með að leggja utanrmn. niður. Hver samningurinn gerður af öðrum án þess að bera hann undir hana, t.d. flugvallarsamningurinn við Breta. Kommúnistar létu sér þetta vel líka — þangað til nú.

„Það voru tveir flokkar, sem treystu mér það var nóg að tala við þá,“ sagði hæstv. forsrh. við fyrri umr. þessa máls, og þessi orð sýna, hvernig komið var viðhorfi utanrrh., þegar vandann bar að.

En var þessi hæstv. ráðh. búinn að gleyma því, að hann var utanrrh. íslenzku þjóðarinnar, en ekki tveggja flokka, og var hann búinn að gleyma því, að hann og málgögn hans hafa áður og innan um þetta tal haldið því fram, að utanríkismálin ættu að vera sameiginlegt víðfangsefni allra flokka og hafin yfir flokkadeilur um önnur mál? Afleiðing þess stjórnmálaöngþveitis, sem hér hefur raunverulega ríkt undir forustu þessarar hæstv. ríkisstj., ef forustu skyldi kalla, er m. a. sú, að hæstv. utanrrh. mætir hér á Alþ. með samning, sem hann hefur gert bak við ríkisstj., utanrmn. og Alþ., en hann hefur fyrir fram bak við tjöldin bundið meiri hl. þm. til þess að samþykkja óbreyttan. Og þetta hefur verið tilkynnt gagnaðila í samningunum, eftir því sem ráða má af málgagni hæstv. utanrrh., Morgunblaðinu.

Hæstv. ráðh. tilkynnti um leið og málið kom fyrir, að samningum væri lokið. Lengra yrði ekki komizt, það yrði að samþykkja þetta eða fella eins og það lægi fyrir. Þessi vinnubrögð hæstv. ráðh. hafa vakið undrun og andúð og orðið öllum til ógagns, nema þeim heittrúarmönnum í liði kommúnista, sem ekkert samkomulag vilja við Bandaríkjamenn, enda hafa þeir ekki sett sig úr færi, heldur notað sér þetta út í æsar.

Hæstv. ráðh. bar skylda til þess að ráðfæra sig við utanrmn. og Alþ. áður en nokkuð var fastmælum bundið við gagnaðilann, til þess að eðlileg gagnrýni gæti átt sér stað í tíma og tillit orðið til hennar tekið, eftir því sem málefni stóðu til. Enn fremur var þetta nauðsynlegt til þess að ýtrustu tilraunir yrðu gerðar í þá átt, að sem flestir af þeim meginþorra þjóðarinnar, sem vill semja við Bandaríkjamenn um nauðsynleg flugréttindi vegna hersetu þeirra í Þýzkalandi, gætu staðið saman. En eins og þetta hefur allt að borið, er því líkast, sem verið sé að gera allt, sem unnt er, af hendi íslenzkra stjórnarvalda, til þess að sundra þeim, sem saman þyrftu og ættu að geta staðið um slíka samningagerð af Íslands hálfu, hvað sem að öðru leyti er að segja um viðhorfið í landsmálum.

Samningsuppkast það, sem hæstv. ráðh. lagði fyrir Alþ., hefur sætt mikilli gagnrýni. Málefni eins og þetta er þannig varið, að það getur tæpast verið flokksmál í nokkrum flokki, en það er óhætt að fullyrða fyrir munn framsóknarmanna, að þeir telji eðlilegt, að samið sé við Bandaríki Norður-Ameríku um sérstök afnot af Keflavíkurflugvellinum í sambandi við ferðalög þeirra til og frá Þýzkalandi. Framsóknarmenn eru ekki meðal þeirra, sem telja ófært að semja við Bandaríkjamenn vegna þess, að þeir séu fullir ofbeldishneigðar og kúgunaranda og vísastir til þess að svíkja hvern samning og misnota. Framsóknarmenn líta þveröfugt á, telja eðlilegt að semja um þessi mál og treysta Bandaríkjaþjóðinni til þess að halda samninga, en gera sér samt ljóst, að það er vandasamt að ganga frá samstarfi um þau. Kemur fleira en eitt til: Rótgróin tortryggni Íslendinga á erlendri starfsemi í landinu, og er hún sprottin af sögulegri rót, en stafar ekki af andúð á öðrum þjóðum, allra sízt Bandaríkjaþjóðinni. Enn fremur kemur hér til, og það veldur mestum vandanum, að Íslendingar hafa ekki möguleika til að halda uppi þeirri flugvallastarfsemi, sem þörf er á, til þess að fullnægja umferðaþörf Bandaríkjanna á næstunni. Vegna þess, að Framsfl. telur rétt að semja, en telur málið vandasamt, þá hefur hann látið það verða sitt starf á Alþ. og utan þess að vinna að breyt. á samningi þeim, sem fyrir var lagður, til þess að hann gæti orðið þannig, að Bandaríkjamenn fengju það, sem þeir þyrftu á að halda, en Íslendingar hefðu það vald á framkvæmd málsins, sem viðunandi væri. Flokkurinn hefur'lagt fram till. um þetta, sem sýna, hvernig hann telur eðlilegast, að þessu verði fyrir komið. En áður en ég vík að því, mun ég minnast nokkuð á það, sem fyrir liggur nú að öðru leyti í málinu.

Barátta sú fyrir breyt. á samningnum, sem háð hefur verið af ýmsum, hefur alls ekki verið unnin fyrir gýg, þótt ekki hafi náðst jafnlangt og æskilegt væri í því efni. En hér hefur verið óhætt um vik, þar sem búið var að lofa gagnaðila ákveðnum úrslitum, eins og áður er að vikið. Meðal brtt. frá meiri hl. utanrmn., sem eru árangur af hálfs mánaðar starfi, má nefna, að 3. gr., þar sem farið er inn á þá braut að semja við Bandaríkin um það, hvaða flugvélar annarra þjóða hefðu lendingarrétt, er samkv. þeim felld niður. Ákvæðið um það, að íslenzka stj. og sú bandaríska setji sameiginlegar reglur um rekstur flugvallarins, er fellt niður, en í stað þess sett, að íslenzka stj. geri þetta, en hafi samráð við Bandaríkjastjórn. Þessar breyt. eru þó ekki það, sem aðalmáli skiptir, heldur sú, sem fjallar um afskipti íslenzkra yfirvalda af framkvæmdum og starfsemi þeirri, sem heimiluð er samkv. 5. gr. samningsins.

Þegar samningurinn var lagður fyrir, hafði hann inni að halda ákvæði um það, að Bandaríkjamönnum væri heimilt að halda uppi á Keflavíkurflugvellinum þeirri starfsemi, sem kynni að vera nauðsynleg vegna hersetu þeirra í Þýzkalandi. Í samningnum var ekkert ákvæði um það, að íslenzk yfirvöld hefðu nokkuð um það að segja, hversu víðtæk þessi starfsemi yrði í framkvæmd, né hvaða framkvæmdir væru gerðar samkv. þessu ákvæði. Nú liggur .fyrir brtt. frá meiri hl. utanrmn., sem ákveður, að úrslitavaldið um það, hve starfsemi þessi skuli vera víðtæk og hverjar framkvæmdir skuli gera á flugvellinum, verði í höndum Íslendinga. Með hálfs mánaðar baráttu hefur tekizt að fá til leiðar komið slíkum breyt. á samningsuppkastinu, sem hæsts.

utanrrh. sagði, að væri síðasta orðið, og það þrátt fyrir þá sjálfheldu, sem búið var að koma málinu í.

Það vita allir, að ætlun hæstv. utanrrh. var að keyra málið fram óbreytt á tveimur dögum, og að þær breyt., sem meiri hl. leggur til, eru beinn ávöxtur þeirrar gagnrýni, sem beint hefur verið að samningnum af hendi þeirra, sem vilja semja, en gátu ekki fellt sig við það, sem fyrir lá. Blöð hæstv. ráðh. og nánustu fylgismenn hans hafa nú tekið þann undarlega kost, víst í því skyni að halda skildi fyrir ráðh., sem hafði sagt heldur mikið á fyrra stigi málsins, að þessi trygging fyrir því, að Íslendingar hefðu um það að segja í framtíðinni, hve víðtæk starfsemi Bandaríkjamanna verður á flugvellinum, hafi frá öndverðu verið í samningnum og að breytingar væru yfirleitt orðabreytingar. Það er vorkunn, þótt hlutaðeigendur vilji bjarga skinni hæstv. ráðh., en er það nú ekki til of mikils ætlazt, að menn trúi því, að samningurinn, eins og hann yrði að samþykktum brtt. meiri hl. utanrmn., þótt ekki sé nú dýpra í árinni tekið, sé hinn sami og uppkast hæstv. forsrh., sem átti að sýna það, sem lengst varð komizt og játa varð eða neita. Ég veit vel, hvaða skoðun hv. talsmenn uppkastsins, eins og það var fyrir lagt, hafa um þetta inn á sér, þótt öðru sé flíkað.

Þegar litið er á það, sem gerzt hefur í málinu, þá verður vafalaust mörgum til þess hugsað, hver niðurstaðan hefði getað orðið, ef öðruvísi hefði verið á því haldið og sjónarmið þeirra, sem vilja góða sambúð við Bandaríkin og eðlileg samskipti, en ekki voru til samninganna kvaddir, hefðu komið til, áður en málið var komið of langt.

Brtt. þær, sem fyrir liggja frá meiri hl., eru til verulegra bóta frá mínu sjónarmiði, en ég vil leggja áherzlu á það, að mér sýnist sú leið eðlilegust og tryggilegust, sem fulltrúar framsóknarmanna í utanrmn. hafa lagt fram í flokksins nafni og hv. þm. Str. hefur rökstutt. Þar er gert ráð fyrir því, að Bandaríkjamenn fái afnotarétt þann, sem þeim er nauðsynlegur, að Íslendingar reki völlinn sjálfir þannig, að þessi umferð geti átt sér stað, en Bandaríkjamenn borgi kostnað þann, sem af þessum ráðstöfunum þeirra vegna leiðir. Því er borið við af hv. frsm. meiri hl., að það þýði ekki að samþykkja þetta, af því að það sé vitað, að á þetta verði ekki fallizt af gagnaðila. Málið hefur legið þannig fyrir, að upp á þetta hefur ekki verið boðið af Alþ., og því ekki fullprófað, hvort samningar ekki gætu tekizt á þessum grundvelli, ef meiri hl. Alþ. væri á þessari skoðun. En það tel ég alveg víst, og byggi þar á þeim undirtektum, sem þessar till. okkar hafa fengið, að samningur á þeim grundvelli væri fleiri Íslendingum að skapi en sá, sem hér liggur fyrir, og eins þótt breyt. yrðu gerðar á uppkastinu, svo sem til stendur. Ég vil því beina því til hv. þm. að endurskoða hug sinn og samþykkja brtt. framsóknarmanna. Ég fæ ekki betur séð en að það hlyti að leiða til framhaldssamninga, við Bandaríkjamenn á grundvelli, sem væri Íslendingum betur að skapi en annað, sem fyrir liggur, og fullnægði Bandaríkjamönnum. Ég vil benda mönnum á, að verði hin leiðin tekin að láta málið koma til fullnaðarúrslita nú með því að fella till. framsóknarmanna, sem þýðir framhaldssamninga, og úrslitaatkvgr. látin fara fram um samninginn, þá getur það leitt til þess, ,ð úrslit málsins gefi villandi mynd af viðhorfi Alþ. í utanríkismálum, og hjá slíku væri gott að geta komizt. En hvernig sem þessu máli lyktar nú, þá skulum við vona, að meðferð þess af hendi utanríkismálastjórnarinnar verði mönnum svo til varnaðar, að þannig verði aldrei framar haldið á víðkvæmu utanríkismáli af hendi íslenzkra stjórnarvalda.

Að lokum vil ég minnast örfáum orðum á hið pólitíska ástand. Mikið hefur verið spurt um það undanfarna daga, hvaða pólitískar afleiðingar afgreiðsla þessa máls mundi hafa. Nú hafa menn fengið svar. Út af þessu máli segjast sósíalistar ætla úr ríkisstj. Það er nú svo. Þeir segja nú, að það sé af þessu. En því er ekki að leyna, að margir eru þeirrar skoðunar, að leysist stjórnin upp, þá sé hin raunverulega ástæða það upplausnarástand í fjárhags- og atvinnumálum, sem nú er búið að stofna til og verður ekki lengur með nokkru móti dulið, en minna hefur verið rætt undanfarnar vikur, vegna þess hve það mál, sem við nú ræðum, hefur gripið hugi manna. Telja margir, að ef stj. hefði ekki séð sig að þrotum komna og engin sköpuð ráð séð út úr öngþveitinu, hefði verið gætilegar farið með sprengiefnið í stjórnarhúsinu og minna borið í mannlýsingar stjórnarblaðanna síðustu dagana og nú við umr. En hver sem hin raunverulega ástæða er, þá sýnist svo, sem stj. muni nú leysast upp, og mér þykir ólíklegt, að það verði þjóðarsorg út af því.