05.10.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Úrslit kosninganna 30. júní 1946 sýndu ótvírætt þetta tvennt:

Í fyrsta lagi: Næstum allir þeir þm., sem nú sitja á þingi, voru kosnir í trausti þess, að þeir stæðu á móti öllum tilmælum erlendra ríkja um hernaðarleg fríðindi hér á landi.

Í öðru lagi: Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar lýsti fylgi sínu með þeirri stefnu, sem mörkuð var með samningi hinna þriggja flokka, sem nú fara með stjórn, og ríkisstj. hefur fylgt í höfuðdráttum allt til þessa.

Alþ. hefur nú farið inn á leiðir, sem eru í algerri andstöðu við þá stefnu, sem sigraði með þjóðinni í kosningunum. Hernaðarleg réttindi hafa verið látin af hendi við Bandaríkin og grundvöllur stjórnarsamstarfsins þar með rofinn. Fyrir því gerir Sósfl. þá kröfu til hæstv. forsrh., að hann leggi til við forseta Íslands, að þing verði rofið og efnt til nýrra kosninga. Þar sem Sósfl. hefur lýst yfir því, að grundvöllur stjórnarsamstarfsins sé ekki lengur til og ráðh. hans muni því ekki lengur sitja í þessari stjórn, mun hann nú rita hæstv. forsrh. bréf og óska þess, að hann biðjist lausnar fyrir ráðuneytið.