24.09.1946
Neðri deild: 2. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

14. mál, barnaheimilið Sólheimar

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Mér skilst, að ekki þurfi að deila um það, að hér er aðeins átt við þá hluti, sem stofnuninni tilheyra; það er ljóst í 1. gr., að ekki er hægt að taka leigunámi annað en það, sem stofnuninni tilheyrir, en ekki það, sem er persónuleg eign einstakra manna, hvorki forstöðukonunnar né annarra. Þetta orðalag er haft til að taka fram, að ekki sé endilega nauðsynlegt að taka leigunámi alla þá hluti, sem þarna eru, heldur aðeins það, sem nauðsynlegt er fyrir stofnunina. Það hafa farið fram samningar við forstöðukonuna, og ég vona, að þeir takist, og þá getur komið til greina að kaupa eitthvað af þessum hlutum.

Það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. Árn., að þessi kona hefur starfað þarna með mikilli ósérplægni. Hitt er annað mál, að eftir að hafa lesið þær skýrslur, sem gefnar hafa verið af þeim, sem hafa haft þessa rannsókn með höndum, þá held ég, að það sé ekki deilumál, að á rekstrinum séu svo stórar misfellur, að menn hljóti að vera sammála barnaverndarráði um það, að nauðsynlegt hafi verið að fella þennan úrskurð, enda er hann einróma af öllu barnaverndarráðinu og hefur á engan hátt verið mótmælt af forstöðun. heimilisins, sem er skipuð af Prestafélagi Íslands. Hún hefur aðeins ekki vald til að framkvæma hann, en mundi hafa gert það, ef hún hefði haft vald til þess. Af þessum ástæðum voru þessi bráðabirgðal. sett.

Hv. þm. hélt fram, að það hlyti að hafa verið rík ástæða til að hraða þessu máli, því að brbl. hefðu verið gefin út svo skömmu áður en þing kom saman. Það er vissulega mjög rík ástæða til þess og er búin að vera það lengi. Meiningin var að fara ekki þessa leið, heldur að fela stjórnarn. að framkvæma úrskurðinn, en þegar n. treystist ekki til þess, þá var reynt að semja við forstöðukonuna, en þeir samningar tókust ekki. Í þessu þófi hefur staðið langa hríð þrátt fyrir brýna nauðsyn fyrir að nota hælið, en þegar ekki tókst að framkvæma úrskurðinn með öðru móti en að gefa út brbl., þá var til þess gripið.

Ég hef ekkert á móti því, að málið verði sett í n., ég tel það að vísu ekki nauðsynlegt, en svo framarlega sem málið á ekki að daga uppi og l. þá að falla úr gildi, þá þarf að hraða mjög afgreiðslu þess, og allir hv. þm. hafa möguleika til að kynna sér málið, því að um það liggja fyrir skýrslur. En sem sagt, ég hef ekki á móti því, að slíkur háttur sé á hafður og málinu vísað til n.