19.05.1947
Efri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

238. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Samkv. gildandi l. rennur um það bil 90% af skemmtanaskatti til byggingar þjóðleikhúss og — eins og segir í l. — til að styðja leiksýningar í því húsi. Nú líður að því, þó að það kunni ekki að verða á þessu ári, að þjóðleikhúsið verður fullbyggt, og virðist þá tímabært að endurskoða löggjöfina um skemmtanaskatt. Stjórnin hefur beitt sér fyrir þeirri endurskoðun og hafði til hliðsjónar till. um skiptingu skemmtanaskattsins frá ýmsum þm. Niðurstaðan liggur fyrir í þessu frv. Ofurlítil breyt. var gerð í Nd., en ekki þannig, að ekki sé vel hægt að sætta sig við. 50% af skemmtanaskattinum renni framvegis til þess að styðja byggingu samkomuhúsa víðs vegar um landið, sem kölluð eru félagsheimili. Er í öðru frv. gert ráð fyrir, hvernig þeim stuðningi skuli fyrir komið. En 10% renna til kennslukvikmynda og til að styðja lestrarfélög eins og áður. En 40% verði lagðar í sérstakan sjóð, sem heitir rekstrarsjóður þjóðleikhússins.

Ég sé ekki ástæðu til að halda langa ræðu um þetta málefni en óska, að því verði vísað til hv. menntmn, d. að lokinni þessari umr. Vildi ég mjög mega fara þess á leit við n., að hún taki málið strax til meðferðar, til þess að það geti fengið afgreiðslu á þessu þingi, sem nú er langt komið.