17.05.1947
Neðri deild: 130. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

239. mál, þjóðleikhús

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Hv. þm. S-Þ. hefur endurtekið hvað eftir annað, að það væri einsdæmi í heiminum að hafa þjóðleikhús ríkisrekið. Hv. þm. sagði hvað eftir annað í umr. um frv. um skemmtanaskatt og þjóðleikhús, að það þekktist ekki í Noregi né Svíþjóð, því að þar væru þjóðleikhúsin í einkarekstri. Ég vil geta þess, að þarna sagði hv. þm. ekki allt of nákvæmlega frá, frekar en oft áður, því að sannleikurinn er sá, að þótt þjóðleikhúsin í Noregi og Svíþjóð séu ekki að forminu til ríkisfyrirtæki, þá vita allir, sem kynna sér þessi mál í raun og veru, að þessi leikhús eru kostuð af ríkinu. Ríkisreksturinn á þessum hásum er svo alger, að þar greinir ekkert á milli nema formið. Þetta sést m. a. á því, að reglugerð ríkisstj. Svíþjóðar um rekstur Konunglega leikhússins er nær alveg eins og um ríkisfyrirtæki væri að ræða. Og peningarnir til að greiða hallann við rekstur hússins eru sóttir í sænska ríkissjóðinn. Hið sama gildir um rekstur norska þjóðleikhússins. Og það er víst, að hv. þm. veit miklu betur, þegar hann heldur því fram, að það sé eitthvað einstakt, þegar Íslendingar vilja grípa til þess ráðs að hafa ríkisrekstur á sínu þjóðleikhúsi. Hv. þm. hefur talað mikið á móti þessu. En nú vil ég spyrja. Hvaða aðili á að reka þjóðleikhúsið? Leikfélag Reykjavíkur, segir hv. þm. S-Þ. En ef það vill ekki gera það, hvað þá? Þá á að láta það standa autt, skilst manni. Þetta er mikið vandamál og miklum vandkvæðum bundið vegna þess, hve við erum fátækir og eigum erfitt með að reka svona fyrirtæki. Þess vegna verðum við að fara inn á þá braut að láta ríkið reka leikhúsið. Og það stafar líka blátt áfram af því, að enginn einstaklingur fengist til að reka það, nema fá stórfelldan styrk úr ríkisjóði til þess. En þá mundi þingið líka vera í sífelldri klípu. Það hefði lítið um það að segja, hvernig rekstrinum væri hagað. Hins vegar mundi sá aðili, sem þessu stjórnaði, standa hér í dyragættinni og krefjast þessa og hins af þinginu. Og fengi hann neitun, þá mundi hann segja: Ég haga þá rekstrinum svona og svona, eftir því sem mér sýnist. Og það væri kannske á allt annan hátt en til er ætlazt. Ég held ekki sé gott í framkvæmd að fást við það.

Nú hefur hv. 2. þm. Eyf. lagt fram brtt. um það, að þjóðleikhúsið skuli vera sjálfseignarstofnun. Í raun og veru er þessi brtt. aðeins um að gera breyt. á yfirstjórn hússins. En samkv. henni á bæjarstjórn Reykjavíkur að kjósa 2 menn í stjórnina, Alþ. 2 og Leikfélag Reykjavíkur 1. Það sjá samt allir, að þótt sagt væri í frv., að þjóðleikhúsið sé sjálfseignarstofnun, þá breytir það engu nema því, að ríkið afsalar sér rétti til að stjórna fyrirtækinu. Hvert haldið þið, að þessi sjálfseignarstofnun fari, ef fé vantar til að halda rekstrinum uppi? Vitanlega mundi verða leitað til þingsins og reynt að semja við það um að leggja fram fjármuni. Mér virðist þessar brtt. hv. þm. mjög gallaðar og legg eindregið til, að þær verði felldar. Þær gera ekki annað en að raska þeim grundvelli, sem frv. þetta er byggt á, þ. e. a. s. að ríkið beri veg og vanda af þessum málum.