22.05.1947
Neðri deild: 138. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

250. mál, ríkisreikningurinn 1943

Jón Pálmason:

Það er ekki að ófyrirsynju, að fram komi aths. varðandi það, sem hv. síðasti ræðumaður talaði um. Það er full ástæða til þess, að fundið sé að því, hvílíkur seinagangur er orðinn á afgreiðslu ríkisreikningsins. Yfirskoðunarmenn hafa gert kvartanir á hverju ári undanfarið. En það, sem í veginum er, er ekki, að það strandi á endurskoðunarstarfi varðandi yfirskoðun reikninganna, heldur er það hin umboðslega endurskoðun, sem strandar á. Hún er á eftir tímanum, eins og raun ber vitni um. Ég skal með leyfi hæstv. forseta lesa svar ráðh. við aths. yfirskoðunarmanna við reikninginn 1943: „Hinni umboðslegu endurskoðun er nú að mestu lokið fyrir árið 1944 og að nokkru fyrir 1945.“ Þetta er undirskrifað 11. apríl 1947. Umboðslegu endurskoðuninni fyrir 1944 er þá að verða senn lokið. Við yfirskoðunarmenn skiluðum aths. við þennan reikning, sem fyrir liggur, í sept. í haust, en gengið var frá honum 11. apríl. Af hverju stafar nú þessi dráttur? Hann stafar af því, að hin umboðslega endurskoðun fyrir árið 1943 var ekki búin fyrr. Það er endurskoðunardeilda í stjórnarráðinu. sem stendur á. Um þetta hef ég svo ekki meira að segja. Það er mjög æskilegt, að Alþ. geri einhverjar ráðstafanir varðandi þetta. Og er sízt andstaða gegn því frá mér, og ég býst ekki heldur við frá mínum samstarfsmönnum.