22.05.1947
Neðri deild: 138. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

250. mál, ríkisreikningurinn 1943

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson) :

Ég get að nokkru leyti sparað mér að fara orðum um þessa aths. hv. þm. V-Húnv., því að hv. þm. A-Húnv. hefur drepið á nokkur atriði, sem gefa skýringu á þeim seinagangi, sem hér er um að ræða. Reyndar mætti segja, að eins vel ættu þessar umr. heima undir frv. um fjáraukal., þegar það kemur til umr. En það skiptir ekki máli, því að þetta bindur hvað annað. Það má alveg eins tala um þetta í sambandi við þetta mál. Hinni umboðslegu endurskoðun á að ljúka, áður en yfirskoðunarmenn hefja sitt starf. Það er búið að gefa skýringu á því. Og við höfum orðið að skila reikningnum, áður en við gátum séð umboðslegu endurskoðunina um einstakar gr., af því hún var orðin svo mjög langt á eftir. Hins vegar er það mesti misskilningur hjá hv. þm. V-Húnv., að eins sé hægt að endurskoða ríkisreikninginn, þótt hann liggi ekki fyrir prentaður. Í fyrsta lagi er það næstum tvöfalt verk, samanburðurinn er næstum tvöfaldur. Og þar til honum er að öllu leyti lokið, getum við ekki verið vissir um einstök atriði. Sjá þá allir í hendi sér, hvað starfið er mikið og tafsamt. Þetta horfir að vísu öðruvísi við, ef endurskoðunarstarfið væri fast starf og menn gætu daglega fylgzt með því, hvað reikningshaldinu liður hjá ríkissjóði. Þá væri endurskoðuninni að miklu leyti lokið, þegar reikningsuppgjör færi fram. En það er annað mál, og þannig hefur þetta starf ekki verið til þessa. Og væri um slíkt að ræða, yrði að breyta bæði til um greiðslumáta og annað. Hins vegar getur hv. þm., ef honum sýnist, krafizt þess, að yfirskoðunarmenn hagi þannig starfi sínu, en það byggist ekki á neinni formúlu eða neinni venju. Þótt ég taki þetta fram. er það síður en svo, eins og kom fram í ræðu hv. þm. A.-Húnv., að ég sé ánægður með hlutina, eins og þeir eru. Þetta ástand bitnar ekki eins á neinum og þeim, sem að þessu vinna. Svo má í þessu sambandi minna á vinnuskilyrðin. Við höfum orðið að vera í smákompu og orðið að stafla í hvert sinn, er við gengum frá. Stundum vorum við þar, sem annað fólk var við vinnu. Og þar varð vitanlega að pakka saman og binda í pinkla. Ofan á þetta hefur svo bætzt það, að s. l. ár hafa engin húsakynni verið fáanleg undir þessa vinnu. Ráðuneytið reyndi sjálft, en ekkert gekk. Að lokum fengum við þó herbergi á Hótel Borg. En sú stofnun er, eins og kunnugt er, til annars fremur ætluð en að þar fari fram endurskoðun ríkisreikninganna. En hins vegar hef ég ekkert á móti því að vera þar. Nú er verið að byggja nýja viðbót við Arnarhvol og er yfirskoðuninni ætlað pláss þar, og vil ég vona, hvað þetta áhrærir. að betur verði að þessu búið en verið hefur, hverjir svo sem eiga að vinna þetta verk á komandi árum. Ég er ekki með þessu að ásaka stjórnina. Það er erfitt að fá húsnæði. Annars hálffurðar mig á því, hvað hv. þm. V-Húnv. gerir lítið úr þessu verki, að endurskoða ríkisreikninginn. af því að ég veit, að hann hefur nokkra þekkingu á þessu mikla starfi. Hv. þm. minntist á þál. frá 1945. Við könnumst við hana. Og það er ekki undarlegt, þótt hér komi rödd um það, að þessu skuli flýtt. En þó ber þess að gæta, að þegar talað er um þetta, þá ber að gera það með fullri skynsemd. Ég man vel, hvernig þetta stóð af sér þegar sú þál. var flutt. Þá var fyrst lagt til. að yfirskoðun skyldi lokið næsta ár eftir það, sem reikningurinn fjallaði um, og leggjast fyrir þing þess árs. Þá var bent á það, að 15. febr. ætti þingið samkv. l. að koma saman. 15. febr. í vetur átti þá reikningurinn fyrir 1946 að vera fullbúinn og búið að yfirskoða hann. Þessu var breytt, því að þetta er óframkvæmanlegt. Og það verður að ganga þannig frá reikningnum, að það er óhugsanlegt, að hann geti verið búinn, jafnvel þótt þing komi saman að haustinu. Ég mótmæli því ekki, sem hv. þm. V-Húnv. lagði mesta áherzlu á í sinni ræðu, að því aðeins kemur reikningurinn að notum, að ekki sé of langt um liðið, þegar hann kemur fyrir Alþ., frá því, að þær greiðslur hafa verið inntar af hendi, sem þar um ræðir. Þetta skilja allir. En það verður að ganga öðruvísi fyrir sig. Það á að byrja á upphafinu. Það verður að loka reikningunum fyrr. Umboðslega endurskoðunin verður að koma næst og að lokum yfirskoðunin. Það er ekki annað hægt en að viðurkenna, að þetta gangi seint.

Hv. þm. V-Húnv. sagði, að nú ættu í haust að vera til 3 reikningar, fyrir 1944, 1945 og 1946, þ. e. s. l. ár. Reikningur ársins 1944 er langt kominn. Nú hef ég ekki innt eftir, hvort búið er að loka reikningum ársins 1946. Ég efast um, að það sé búið, en þó svo væri, þá er eftir umboðslega endurskoðunin og yfirskoðunin. Ef allt væri vel undirbúið, þá væru möguleikar á þessu, en eins og störfum er nú hagað, vantar mikið á, að þetta sé hægt.

Ég vil minna á það, að það stendur bæði upp á mig og hv. þm. V-Húnv., þar sem ekki er enn búið að kjósa yfirskoðunarmenn fyrir þetta ár, en frá því verður að ganga, til þess að reikningarnir geti orðið tilbúnir fyrir næsta haust. Þetta stendur þá opið. Það þarf að hafa það í huga, að allt sé eins og það á að vera.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar. Það yrðu sjálfsagt margir fegnir að fá þetta öðruvísi en það hefur verið, en engir eins fegnir og yfirskoðunarmennirnir, sem eiga í miklu stímabraki við að koma þessu í kring, og við höfum neyðzt til þess að loka reikningnum án þess að sjá endurskoðunina á honum, af því hún var ekki búin.