23.05.1947
Efri deild: 145. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

194. mál, lögræði

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Þau mistök hafa orðið á um afgreiðslu þessa máls, að nál. liggur ekki fyrir. Hins vegar hefur allshn. athugað málið og var sammála um að mæla með því án breyt. Ég skal þegar taka það fram, að það verður vitanlega á valdi þessarar hv. þd., hvort hún vill afgreiða málið með þessum hætti þrátt fyrir mistökin. En ég skal taka það fram, að þegar n. athugaði þetta mál, þá var hún, eftir að hafa lesið yfir frv., borið það saman við gildandi l. og lítils háttar breyt., sem Nd. gerði á því, á einu máli um það, að mæla með frv. án breyt. En frv. er samið af einum gegnasta og bezta lögfræðingi okkar lands, Þórði Eyjólfssyni hæstaréttardómara. Þessi löggjöf er til endurbótar á l. nr. 60 frá 1917, eins og skýrt er frá í upphafi grg. frv. En með þeim l. var sú breyt. gerð á lögræðissviptingu, að það var lagt undir dómsvald í stað þess, að það hafði áður heyrt undir framkvæmdarvald. og var það mikil réttarbót fyrir þá, sem áttu undir því að búa. L. nr. 60 frá 1917 voru mikil bót, en voru fremur ófullkomin, og kom í ljós, að inn í l. vantaði mörg ákvæði. Auk þess voru þau ekki nægilega skýr til þess að búa örugglega um rétt þegnanna. Löggjöf sú, sem hér liggur fyrir, á að bæta úr þessu. Hér er á vissan hátt rýmkaður réttur aðstandenda og skyldmenna til þess að fá þá menn, sem fyrir óreglu eða af öðrum ástæðum eru ekki færir um að ráða sér, svipta lögræði. En að hinu leytinu er sérstaklega vel búið um rétt þeirra manna, sem þurfa að sæta dómsúrskurði út af slíkum málum. Þær breyt., sem gerðar voru á frv. í Nd., voru mjög lítilfjörlegar. Þær miðuðu að því að tryggja það að þeir, sem sviptir skulu sjálfræði með sjúkrahúsvist, hafi öruggan rétt til þess að leita úrskurðar um það, svo að ekki sé hægt að nota sjúkrahúsvistina sem frelsisskerðingu. Og hafði Nd. ástæðu til að gera hér breyt. til þess að búa örugglega um þetta atriði. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. En ég hygg, að mér sé óhætt að mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt, enda var n. sammála um það. Og óskar hún eftir, að það verði að l. á þessu þingi.