14.04.1947
Neðri deild: 113. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það er að minni hyggju ekki að ófyrirsynju, þó að endurskoðun hafi verið gerð á 1., sem fjalla um sölu landafurða á innlendum markaði og að sjálfsögðu er eðlilegt, að þau séu öll færð í einn lagabálk. Hitt vildi ég hafa sagt, að mér virðist að hér hafi verið meira um það að ræða að safna saman eldri ákvæðum um þessi efni á einn stað en að fram hafi farið virkilega ýtarleg, gagngerð endurskoðun á ákvæðum eldri l. En vissulega hefur hæstv. Alþ. tækifæri til þess að láta þá endurskoðun fara fram. Og ég vildi vænta þess, að þetta frv. fengi mjög ýtarlega athugun hjá þeirri n., sem það væntanlega fer til, sem mun sennilega verða hv. landbn. Og vildi ég láta falla nokkur orð til athugunar fyrir þessa hv. n.

Um I. kafla frv. er það að segja, að með honum er í raun og veru gerð mesta breyt., sem gerð er með frv. þessu á gildandi lagaákvæðum. Þar er sem sé horfið frá því fyrirkomulagi, sem gilt hefur nú um skeið, að láta það stjórnskipaða búnaðarráð fjalla um afurðasölumálin og verðlagningu landafurða. Ég fyrir mitt leyti tel það til bóta, að horfið sé frá þessu fyrirkomulagi. Mér hefur virzt það fyrirkomulag óheppilegt, og ég hef ekki fengið nein rök fyrir því, að hægt væri að líta á það sem æskilegt og eðlilegt fyrirkomulag. Ég tel, að ráðh., úr hvaða flokki sem hann er og hvað sem hann heitir, sé gefið óeðlilega mikið vald með því, að hann tilnefni 25 bændur til þess að fjalla um þessi mál. Mér finnst það því til betri vegar, þegar lagður er sá grundvöllur, að þessir menn skuli vera kosnir af samtökum bænda. Um það má svo deila, hversu margir þeir skuli vera, og að ýmsu leyti, hvernig þeir skuli kosnir. Ég skal ekki fara nánar út í það. En sá megingrundvöllur, hvernig á að kjósa framleiðsluráð, sem fær í hendur verkefni búnaðarráðs. að það sé kosið af samtökum bænda, finnst mér eðlilegur. — Ég vil þó skjóta því fram í því sambandi, hvort ekki væri athugandi, að í þessu verðlagsráði væru líka einhverjir fulltrúar frá neytendasamtökunum. Ég hygg að það gæti verið fulltrúum bænda til leiðbeiningar og samtökum bænda til gagns að fá þannig aðgang að kröfum og óskum neytendanna. Ég hef engar ákveðnar till. fram að bera í þessu efni að svo stöddu. En mér virðist, að þetta sé vel athugandi og að hv. n., sem fjallar um málið síðar, ætti að taka þetta til athugunar. Það er eðlilegt, að bændur hafi ráðin í þessu fyrirhugaða ráði og völdin. En hitt hygg ég, að gæti verið til bóta, að neytendur ættu þar nokkurn aðgang að, þannig að fulltrúar bænda mættu heyra þeirra kröfur og óskir og aðfinnslur og till.

Í 2. gr. frv. er ákveðið verksvið hins fyrirhugaða framleiðsluráðs. Ég verð að segja það, að við lestur þeirrar gr. kemur mér í hug, hvort hér sé ekki verið á sömu braut eins og reyndar í svo margri annarri löggjöf, sem afgr. hefur verið á síðustu þingum, að setja upp eins konar glansmyndir. Mér finnst verkefni þessa væntanlega framleiðsluráðs ekki sérstaklega raunhæft ákveðið. Og við það að fara yfir liðina í 2. gr. sér maður, að þetta ráð á fyrst og fremst að fylgjast með framleiðslu, sölu og vinnslu landafurða. (Ég nota orðið landafurðir. en ekki landbúnaðarafurðir, sem er smekksatriði.) Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því einnig, að framleiðsluráð eigi að stuðla að eflingu landbúnaðarframleiðslunnar í samstarfi við Búnaðarfélag Íslands, svo að hún fullnægi. eftir því sem kostur er á, þörfum þjóðarinnar. Þetta er þarft ákvæði. En ég spyr bara: Er ekki þetta bara glansmynd?

Ég sé ekki í frv. nein ákvæði, sem í raun og veru geri framleiðsluráði fært að anna þessu hlutverki. Í samstarfi við Búnaðarfélag Íslands á það að stuðla að eflingu landbúnaðarframleiðslu, svo að hún fullnægi, eftir því sem kostur er, þörfum þjóðarinnar. Er þetta ekki bara að kalla út í loftið, ef ekki er jafnframt undirbúin löggjöf að öðru leyti, til þess að þetta fyrirhugaða ráð geti rækt þessa mjög svo þýðingarmiklu skyldu, sem lögð er hér því á herðar? Hæstv. landbrh. segir mér nú, að í 26. gr. frv. sé farið inn á þetta. Ég held, að það sé ákaflega veikur grundvöllur, sem í þeirri gr. er lagður í þessu efni. Í 3. tölul. 2. gr. frv. eru ákvæði um, að þetta ráð eigi að stuðla að umbótum á vinnslu og meðferð landafurða. Það hygg ég betur hugsað ákvæði, þannig að þetta ráð gæti áorkað nokkru í því efni. Í 4. lagi á þetta ráð að vinna að aukinni hagnýtingu markaða fyrir þessar vörur utan lands og innan. Ég geri einnig ráð fyrir, að framleiðsluráð geti nokkru áorkað í þessu efni. Í 5. lagi á framleiðsluráð að vinna að því að beina framleiðslu landbúnaðarins að þeim framleiðslugreinum, sem landbúnaðinum eru hagfelldastar og samrýmast bezt þörfum þjóðarinnar á hverjum tíma. Hér er gripið á mjög mikilsvarðandi atriði. En ég held, að hér skorti líka undirbúning, en sé meira um að ræða frómar óskir glansmynd, heldur en raunhæf ákvæði, sem hægt sé að vænta, að leiði til raunhæfra framkvæmda á þessu mjög svo þýðingarmikla atriði. — Um 6., 7. og 8. verkefni er ekkert sérstakt að segja. Það er allt framkvæmanlegt og vissulega á valdi framleiðsluráðs að framkvæma það, sem í þessum tölul. er fram tekið.

Ég vil beina til hv. landbn. sérstaklega því, hvort henni finnst ekki ástæða til að bæta einhverjum ákvæðum inn í frv., sem gerðu framleiðsluráði kleifara að framkvæma þær gífurlega miklu skyldur, sem því eru á herðar lagðar samkv. 2. til 5. tölul. 2. gr. frv. — Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þennan kafla frv.

II. kafli frv. er um verðskráninguna. Í fyrstu gr. þessa kafla, 4. gr. frv., er svo ákveðið, að söluverð landafurða á innlendum markaði eigi að miðast við það, að heildartekjur þeirra, sem landbúnað stunda, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta. Þetta þykir mér rétt og eðlileg hugsun, og ég tel, að á þessu eigi að byggja verðákvörðunina. Ég tel yfirleitt, að þannig eigi að stjórna þjóðarbúinu, að þær vinnandi stéttir, hvar sem þær starfa, hljóti hver um sig eðlilega hlutdeild af þeim arði, sem myndast við rekstur þjóðarbúsins. En hins er rétt að geta, að það er ákaflega fjarri því, að það sé svo auðvelt sem ætla mætti í fljótu bragði að framfylgja ákvæðum þessarar gr. Og ég vil alveg sérstaklega benda á það, að ef þetta verður ákveðið í l., sem mér þykir eðlilegt, að verði gert, þá verður að sjálfsögðu að miða við einhverja vissa framleiðslugetu. Það verður að miða við, að til þess að bóndi geti fengið þessa hlutdeild, sem þarna er ætlazt til, í þjóðarbúinu, þá standi hans búskapur á einhverju frambærilegu, tæknilegu stigi, þannig að afköst hvers manns séu nokkurn veginn í samræmi við það. sem eðlilegast er að krefjast. Ef ætti að framfylgja þessu ákvæði, sem ég tilgreindi, án tillits til þess, hvernig framleiðsluafkoman er á hverjum stað að þessu leyti, gæti það beinlínis orðið til þess að vera hemill á þróun landbúnaðarins til fullkomnari tækni og meiri afkasta. Ég vil benda á það, að það ætti að gera það ljóst í þessum l., að þegar landbónda er þannig ákveðið verð fyrir vöru sína, þá verði miðað við sæmileg framleiðsluafköst, miðað við, að véltækni sé að meira eða minna leyti tekin í þjónustu landbúnaðarins. Hæstv. landbrh. jánkar þessu nú, hér við hliðina á mér, og þykir mér ánægjulegt að heyra, að hann sé inni á þessari skoðun, enda hygg ég, að við séum sammála um það, að þessi löggjöf þurfi að vera þannig úr garði gerð, að hún knýi landbúnaðinn til meiri tækniframleiðslu.

Þá er í 5. gr. frv. til tekið, að það eigi að leggja til grundvallar verðákvarðana sömu reglur eins og fylgt var í sex manna nefndir samkomulaginu svo kallaða, og þetta tel ég vissulega gott. Ég tel, að á þeim tíma, þegar það gilti, hafi góðu heilli verið farið inn á þann samningsgrundvöll. Og þær reglur, sem samninganefnd þeirri voru settar, tel ég, að hafi verið heilbrigðar. Og ég tel það eitt merkilegt spor, þegar sex manna nefndar samkomulagið náðist, svo mjög sem það hefur þó verið gagnrýnt af ýmsum aðilum.

Þá kem ég að því, hvernig skipa skuli þá fulltrúa, sem taka eiga þátt í þessari samningagerð. Ég skal ekki ræða þá hliðina, sem að bændunum snýr, en hina fremur, sem að neytendunum snýr. Það er gert ráð fyrir því, að Alþýðusamband Íslands hafi einn fulltrúann og Landssamband iðnaðarmanna hafi einn fulltrúann og að Sjómannafélag Reykjavíkur hafi einn fulltrúa í þessari nefnd. Satt að segja er þetta ákvæði, að Sjómannafélag Reykjavíkur skuli hafa einn fulltrúa í n., ja, í fyrsta lagi furðulegt og alveg stórmerkilegt, að hæstv. ríkisstj. skuli láta sér detta í hug að koma með frv. með svona ákvæði í. Og ég er sérstaklega undrandi yfir því, að hæstv. landbrh. skuli láta þetta sjást eftir sig. Nú má enginn taka orð mín svo, að ég sé á móti því, að sjómannastéttin fái sitt orð að segja um þessa samninga. En það hljóta allir að gera sér ljóst og allra helzt hlýtur næstv. landbrh. að gera sér ljóst, að hér er um landssamninga að ræða, og þeir verða að fara fram milli landssamtaka, enda eru ákvæði frv. svo, hvað bændur snertir, viðkomandi skipun n. og hvað neytendur snertir, aðra en fulltrúann frá Sjómannafélagi Reykjavíkur. Ég skal benda hæstv. ráðh. á það, að það hefði verið tiltölulega auðvelt að koma því til leiðar að fá fulltrúa frá sjómönnum, ef óskin hefði verið sú. Það hefði t. d. mátt láta Alþýðusamband Íslands tilnefna tvo menn í n. og tiltaka, að enda væri annar þeirra fulltrúi sjómanna. Sjómannafélag Reykjavíkur er í Alþýðusambandinu og sjómannafélög landsins yfirleitt. — Nei, rök eru ekki fyrir þessu. En ástæðan fyrir þessari tilhögun er sú, að Alþfl. á með þessu móti þarna fulltrúa í n. Það er nú bara tilviljun, að sá flokkur ræður sem stendur stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur. Ég er nokkurn veginn sannfærður um það, að þó að Alþfl. hefði ekki haft ráðin í stjórn neins félags innan stéttarfélagasamtakanna annars staðar en t. d. í stjórn blikksmiðafélagsins hér, þá hefði verið svo til tekið í þessu frv., að Félag blikksmiða í Reykjavík skyldi eiga fulltrúa í framleiðsluráði, þó að það sé eitt hið minnsta af félögunum í Alþýðusambandinu. — Það mætti þá setja það í samband við það, að það þyrfti blikkbrúsa undir mjólkina, því að ekki mátti segja það berum orðum, að meiningin væri, að Alþfl. ætti að eiga þarna einn fulltrúa í n. — Ég hygg, að hæstv. landbrh. sé mér sammála um það, að það hafi verið æskilegt og gott, þegar farið var inn á sex manna nefndar grundvöllinn, og mjög gæfulegt, að þar náðist samkomulag. Og reyndar var það ekki nema einn aðili í landinu, sem virtist vera óánægður þá með þann samningsgrundvöll, og það var Alþfl. Alþfl. gagnrýndi samkomulagið ákaflega harðlega. Ég vil nú spyrja hæstv. landbrh., hvaðan honum komi sú vizka, að nauðsyn sé að lögbjóða það skipulag, sem þessi sex manna n., er byggð á, að fá fulltrúa frá sérstökum stjórnmálaflokki og það flokki, sem hefur lýst sig mótfallinn þessu samkomulagi, því að það er víst, að á sínum tíma var þessi flokkur á móti samkomulaginu. Ég skal svo auk þess, sem ég hef bent á, að ef sjómenn hefðu átt að fá fulltrúa í þessari n., þá hefði Alþýðusambandið átt að tilnefna tvo fulltrúa, þá mætti hugsa sér landssamtök sjómanna, Farmanna- og fiskimannasambandið. Það hefði verið vel hugsanlegt að snúa sér til þess, að það tilnefndi einn fulltrúa.

Mér þykir líka undarlegt, að það skuli vera tilnefnd samtök neytenda á þessum vettvangi, en ekki samband starfsmanna ríkis og bæja. Ég þykist vita, að d. láti þetta frv. ekki frá sér fara án þess að athuga, hvort það væri ekki nær að láta slík allsherjar landssamtök fá fulltrúa heldur en Sjómannafélag Reykjavíkur, því að það mætti þá alveg eins gefa Búnaðarfélagi Fljótsdæla rétt til að fá einn fulltrúa eða Búnaðarfélagi Mosfellssveitar, eða þá frá einhverju ungmennafélagi, t. d. ungmennafélaginu Drengur í Kjós eða Afturelding, prýðilegt félag, það mætti alveg eins fá að tilnefna fulltrúa fyrir bændur. Ég held, að hæstv. landbrh. sjálfur hafi verið einn af frumherjum þess félags og starfað þar af miklum krafti, og ég hygg, að hann standi þar enn á verði. Ég læt svo útrætt um þetta.

Þá er það, hvernig að skuli fara, ef ekki takast samningar. Það er að minni hyggju mjög vafasöm lausn, en hún er á þá leið, að þriggja manna n. skuli skera úr, og ákvæðin um það, hvernig hún skuli skipuð, eru á þessa leið: „Nú næst ekki samkomulag um einhver atriði snertandi útreikning framleiðslukostnaðar eða verðlagningu landbúnaðarafurða, og skal þá vísa þeim atriðum, er ágreiningi valda, til sérstakrar yfirnefndar. Yfirnefnd þessi skal skipuð 3 mönnum, einum tilnefndum af fulltrúum Stéttarsambands bænda, öðrum af fulltrúum neytenda og hagstofustjóra sem oddamanni. Fellir hún fullnaðarúrskurð um ágreiningsmálin.“ Mér er ekki fyllilega ljóst, hvað hér er meint, og vil biðja um skýringu. Það stendur „tilnefndum af fulltrúum Stéttarsambands bænda“. Það mætti skilja þetta svo, að fulltrúar Stéttarsambands bænda í sex manna n. ættu að tilnefna þennan mann. (Atvmrh.: Það er líka meiningin.) Og þá vitanlega á sama hátt, að fulltrúar neytenda í n. tilnefni annan fulltrúa. Það er líka eðlilegasti skilningurinn, er ég hygg, að þetta þurfi greinilegar að koma fram, þetta er ekki nægilega ljóst orðað. Þessir menn eiga svo að ganga saman undir forustu hagstofustjóra. eftir að samningar hafa sprungið. Ég hygg, að þetta sé að leggja málið í hendur hagstofustjóra eins. Ég tel ekki nokkrar líkur til, að þegar sex manna n. hefur árangurslaust reynt að ná samkomulagi, þá verði samkomulag milli tveggja manna, sem þessi sama sex manna n. tilnefnir. Og þá er valdið hjá oddamanninum. Ég er yfirleitt fremur andvígur gerðardómum. Ég álít, að hér eigi að fara líkt að og í samningum milli verkamanna og vinnuveitenda, að reyna til þrautar að semja, og oftast semst, en ef samningar ekki takast. þá séu báðir óbundnir og þá sé líka óbundið, hvort leyfður sé innflutningur á landbúnaðarafurðum, þá sé gersamlega frjálst með þessar vörur. Ég hygg að þetta sé nægilegt aðhald, til að samningar næðust yfirleitt. Gerðardómsákvæði eru alltaf vafasöm. — Ég held, að ég þurfi svo ekki fleira um þetta að segja.

Um III. kafla skal ég lítið ræða, sem fjallar um sauðfjárafurðir. Þar eru svo að segja óbreytt ákvæði núgildandi l. Þó er eitt ákvæði í 9. gr., sem ég vildi minnast á: „Heimilt er að veita slátrunarleyfi félögum neytenda á þeim stöðum, þar sem ekki eru sláturhús, en aðeins fyrir það fé, sem þau kynnu að kaupa til neyzlu meðlima sinna.“ Mér finnst, að þarna sé sniðinn óþarflega þröngur stakkur, og mun ég koma betur að því í sambandi við mjólkursöluna. Ég vil, eins og mörgum er kunnugt, að neytendurnir hafi með dreifinguna að gera. Ég held, að þetta ætti að vera opnara svið en það er fyrir samtök neytenda. Þar að auki er þetta ákvæði ekki framkvæmanlegt. því að félög neytenda, t. d. neytendasamtökin hér í Reykjavík, verða að hafa vörur til sölu á frjálsum markaði bæði fyrir félagsmenn og aðra, sem óska eftir kaupum, en um það skal ég ekki ræða meira í sambandi við þennan kafla og ekki heldur IV. kafla.

Um V. kafla, sölu mjólkur og mjólkurafurða, vil ég nokkuð ræða og þá fyrst það, að þar er ekki um neina verulega nýjung að ræða frá því, sem er. Nýlega voru mjólkurmálin til umr. í bæjarstjórn Reykjavíkur. Borgarstjóri, hv. þm. Snæf., bar þá fram till. í þeim málum, sem ég hygg, að hafi verið áður lesin í þessari hv. d., en ég var ekki því miður við fyrsta hluta þessarar umr. En það er aldrei góð vísa of oft kveðin, og ætla ég því að lesa hana upp með leyfi hæstv. forseta: „Það hefur um margra ára skeið verið alkunna meðal bæjarbúa og nú og oft áður staðfest af skýrslum sérfræðinga, að ástandið í mjólkurmálum höfuðstaðarins er og refur um langt skeið verið algerlega óviðunandi og háskalegt fyrir heilbrigði fólksins. Kemur þar margt til, svo sem það, að mjólkin er oft meingölluð, þegar hún kemur til mjólkurstöðvarinnar í Reykjavík, að vélar stöðvarinnar eru alls ófullnægjandi og óskiljanlegur dráttur á útvegun nýrra véla, að flöskumjólk er lítt fáanleg, að mjólkin stórspillist í búðunum vegna lélegs aðbúnaðar, skorts á kælingu o. fl. Samkv. gildandi l. eru mjólkurmálin ekki á valdi bæjarstjórnar. En bæjarstjórnin telur það skyldu sína vegna hollustu og heilbrigðismála í bænum að skora á Alþ., ríkisstj. og stjórn mjólkursamsölunnar að bjarga mjólkurmálunum nú þegar úr því ófremdarástandi, sem er til vansæmdar fyrir alla aðila.“ Þetta er, eins og ég sagði. till., flutt af hv. þm. Snæf., sem er borgarstjóri, og bæjarstjórn samþykkti till. með 15 shlj. atkv., atkv. allra bæjarfulltrúa, og af þeim eiga a. m. k. fjórir sæti í þessari hv. d. Það ræður því af líkum, að á grundvelli þessarar till. gera bæjarfulltrúarnir kröfu til, að séð verði svo um, að bætt verði úr því ástandi, sem þessi bæjarstjórn hefur kallað ófremdarástand, sem sé til vansæmdar fyrir alla aðila, og krefjast þess, að úr því verði bætt. Það kann að vera, að einhver ágreiningur geti verið um það milli þeirra hv. þm., sem eru bæjarfulltrúar, á hvern hátt eigi úr að bæta, en ég hygg, að um eitt atriði hljóti þó allir að vera sammála, en það er það, að inn í þessi l. verði að koma ákvæði um það, að frá bæjarins hálfu sé daglegt og fullkomið eftirlit með mjólkurframleiðslunni og að eftirlitsaðilar fái víðtækt vald til að verðfella mjólk og gera hana afturræka, ef hún uppfyllir ekki sett skilyrði. Þetta er áreiðanlega lágmarkskrafa, og ég hygg líka, að bæjarfulltrúar ættu að geta orðið sammála um, að það ætti að vera nokkur sérstaða um þá mjólk, sem bærinn kynni að framleiða. Ég skal taka fram, að það lítið, sem bærinn hefur fengizt við landbúnaðarframleiðslu, þá er það honum til lítils sóma, en hitt er staðreynd, að bærinn á mikil lönd og gæti rekið stórbú, ef þau lönd væru nýtt. Mér sýnist í alla staði eðlilegt, að svo væri um hnútana búið, að ef bærinn hefði búskap í svo stórum stíl, að það þætti borga sig, þá væri honum heimilt að hafa sína eigin mjólkurhreinsunarstöð fyrir sína mjólk og flytja hana frá þeirri stöð beint á markaðinn, þ. e. a. s. heim til neytenda. Þetta geri ég mér hugmynd um, að geti orðið samkomulag um hjá bæjarfulltrúum, sem hafa staðið að þessari samþ., sem ég hef lesið hér.

Ég hef svo enn fremur mínar till. í þessum málum, sem ég býst við, að samkomulag geti orðið um. Þær eru kunnar hér á þingi og hafa verið fluttar í frv. formi 1943 og nokkuð kynntar af hv. þm. Siglf. við þessar umr. Mín skoðun er sú, að til þess að koma þessum málum í gott horf sé vænlegasta leiðin að láta mjólkurvinnslustöðina og dreifinguna vera í höndum neytenda, láta viðskiptin fara fram, eins og ég hef margsinnis orðað það, utan við stöðvarvegginn, þar tækju neytendur við mjólkinni og önnuðust vinnslu og dreifingu. Ég vil sérstaklega undirstrika það, að ég hygg, að þetta sé vænlegasta leiðin til þess að koma á betra samkomulagi um þetta mál. Vissulega er það svo, að varðandi vinnslu og dreifingu hefur ýmislegt verr farið en vera ætti, og líka er það vissulega svo, að neytendum er nokkuð gjarnt að bera fram allþungar ásakanir í sambandi við þessa vinnslu og dreifingu. Væri þá ekki eðlilegt að láta bæjarbúa hitta sjálfa sig fyrir og láta þá sjálfa um að leysa þetta vandamál, sem þeir sjálfir eiga mest undir? Ég hygg, að þetta mundi koma í veg fyrir óþarfa árekstur og misskilning milli bænda og neytenda, og ég hygg, að neytendum sé betur trúandi til að koma þessum málum á skynsamlegan grundvöll, þar sem þeir eiga miklu meira undir en bændur. Með þessu er á engan hátt stefnt að því, að bændur fái ekki sanngjarnt verð fyrir sína vöru, síður en svo. Það er aðeins um að ræða færanleg landamerki milli framleiðenda og neytenda, setja þau á heppilegasta staðinn fyrir báða. Um það skal ég svo ekki fjölyrða meira.

Eitt er það ákvæði í þessum kafla, sem ég vil nokkuð minnast á, en það er um verðjöfnunina. Frv. gerir ráð fyrir tvenns konar verðjöfnun. Það gerir ráð fyrir verðjöfnun þannig, að jafnað verði milli þeirrar mjólkur, sem fer í vinnslu, og hinnar, sem er seld sem neyzlumjólk. Þetta er dálítið hæpin aðferð. Það er dálítið hæpið, þegar ég kaupi mína mjólk til daglegrar neyzlu, að ég sé að kaupa hluta af því skyri eða þeim osti, sem seldur er. Þó læt ég þetta vera út af fyrir sig. Þetta er ekki neitt stóratriði út af fyrir sig, en hæpið. Ég tel eðlilegast, að hver vörutegund kæmi út með það verð, sem hún hefur samkvæmt verði hennar.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir verðmiðlun milli verðjöfnunarsvæða. Ég get ekki betur séð en að sú verðmiðlun sé beinlínis hemill á eðlilega þróun landbúnaðarins. Reglan gamla, sem ég hygg, að hæstv. landbrh. sé höfundur að sama verð fyrir sömu vöru á sama stað, þ. e. a. s. hver maður fái sama verð fyrir vöruna á sama stað, hvernig sem háttað er hans aðstöðu, er mjög hæpin regla. Það er ekkert efamál hvað mjólkursölu snertir, að eðlilegast og hagkvæmast er að framleiða hana sem næst sölustað, neytendur fá þá bezta mjólk að öðru jöfnu. Þjóðfélagið á rétt til þess, að sem mest af framleiðslunni færist á slík svæði. Þjóðfélagið á að stuðla að því, að það skipulag komist á framleiðsluna, að hver staður framleiði þá vöru, sem hann hentar bezt til, og að mismunandi verðlag sé á mjólk eftir því, hvar hún er framleidd. Til þess að stuðla að þessu á að færa framleiðsluna nær bæjunum, til þeirra svæða, þar sem á að framleiða hana. Allsherjarverðjöfnun milli framleiðslusvæða verkar aftur á móti sem hemill gegn þessari eðlilegu þróun, svo að ég held, að ákvæði verðjöfnunarinnar í 28. gr. ættu að hverfa úr þessum 1., hvað sem liður hinu ákvæðinu, að jafna milli framleiðslutegunda.

Þau atriði, sem ég tel nauðsynleg og legg áherzlu á á þessu stigi málsins, hef ég þá, að ég held, öll talið fram, og vona ég, að þau verði tekin til athugunar í landbn. Ég mun svo á því stigi málsins koma með þær breyt., sem ég tel nauðsynlegt að gera, ef landbn. ber ekki gæfu til þess að koma frv. í sæmilegt horf.