19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Jónas Jónsson:

Hv. landbrh. hefur nú reynt að taka upp vörn í þessu erfiða Laugaskarði, sem hann er flúinn í. — Hvaða dóm sem búnaðarráð á að hafa og sú saga frá undanförnum tveimur árum. þá gerði þáv. landbrh. (PM) eitt gott við bændur landsins, en það var að slá því föstu, að niðurborgunin væri ekki gerð fyrir bændur, sem allir vissu, heldur væri hún framkvæmd fyrir neytendur. Það var sem sagt gert vegna neytendanna, og það vita allir, að verkamannaflokkarnir og launastéttirnar yfirleitt hafa haldið fram, að þetta yrði að gera, heimta verð landbúnaðarvara í vísitöluna. Það er því leiðinlegur misskilningur hjá þeim manni, sem tekur við af Pétri Magnússyni, að vilja koma þessu á bændur. Er vonandi, að ráðh. muni þetta framvegis og reyni ekki aftur að koma niðurborgun vísitölunnar á bændur.

Þá minntist hv. þm. á niðurstöður sex manna n. í sambandi við þetta mál, en þar var þannig um búið, að þrír fulltrúar voru frá neytendum og þrír frá framleiðendum, og ef þeir urðu samdóma, þá gilti það sem dómur, sem lög. Hér aftur á móti eru tveir bæjarmenn og einn sveitamaður, sem þurfa ekki að koma sér saman, til þess að niðurstaðan sé gild. — Ég veit, að ráðh. skilur þetta, en er kominn undir áhrif samherja sinna í þessum efnum. — Ráðh. segir, að það eigi að byggja þetta á búreikningunum. Það er furðulegt, að jafnmikill búmaður og hann skuli halda þessu fram, þar sem allir vita, að búreikningarnir eru það allra óáreiðanlegasta, sem til er að fara eftir, bara formið. og dettur því engum í hug að byggja neina þýðingarmikla úrskurði á þeim. Búreikningarnir eru því miður í því ástandi. að það er alveg þýðingarlaust. Og svo er sagt: Það á að byggja á þessu.

Stéttarsamband bænda er þannig fram komið, að það er ekki félag í hverjum hreppi. né heldur er það einungis búnaðarsamband Suðurlands, eins og sumir vilja láta liggja að. Nei, það eru samtök, sem alls staðar á landinu hafa gripið um sig, þrátt fyrir ósvífinn áróður og blekkingar ýmissa þeirra manna, sem maður skyldi ætla, ef dæma á eftir gaspri þeirra, að væru vinveittir bændum. Ég vildi geta þess, að eitt sinn var ég á fundi með einum 300 bændum, sem voru á einu máli um það, að bændum bæri að efla óháð samtök sín. En hvað gerist svo? Það er sendur legáti úr Reykjavík, sem fer á bæina og „agiterar“, og seinna kemur það upp úr kafinu, að sumir af fulltrúunum eru fyrir fram undirbúnir, en aðrir ekki. Svona var farið að um allt annað í sambandi við þetta. Þeir menn, sem blekktir höfðu verið, voru ekki nógu stórir til þess að játa, að þeir höfðu verið blekktir. Þessi samkoma var á Laugarvatni. Bjarni Ásgeirsson og fylgifiskar hans reyndu að dulbúa blekkingar sínar og þröngva skoðunum sínum upp á bændur, en um síðir fór þó fyrir þeim líkt og fór fyrir ráðskonu einni við Möðruvallaskólann gamla, sem bar á borð fyrir skólapilta óætt pestarkjöt, en þegar þeir vildu ekki borða það sagði hún: „O, það skal nú í þá samt“ — og síðan lét hún útbúa það með kryddi og ýmiss konar sósum, en engu að síður var það ekki etið. Bændur sáu og skildu, að hér var ekki um neitt frjálsræði að ræða, og næsta ár komu þeir saman á Hvanneyri, kúskaðir af Búnaðarfélaginu. Hvanneyrarfundurinn varð þó ekki — af hálfu búnaðarfélagsmanna — annað en uppgjöf.

Hæstv. ráðh. var að tala um það, að verkamenn og bændur bæru jafnt úr býtum. Ég vildi benda á það, að ekki hefur verið gert nokkurt verkfall í Reykjavík, svo að ekki hafi verið knúin fram kauphækkun með því.

Hæstv. ráðh. kom seinast að því, að bændur ættu, hvað samtök sín snertir, „að fylgja á eftir í slóð verkalýðsins“. Að vissu leyti er þetta rétt, en þetta er einmitt orðalagið, sem sýnir innrætið gagnvart bændastéttinni. Bændur eiga að koma á eftir og fylgja þeirri slóð, sem aðrir hafa markað þeim, þessi stétt, sem Einar Benediktsson kallaði aðalsstétt. En ef ein stétt af fúsum vilja vill sætta sig við að feta fyrirskipaða braut og tína molana, sem falla af borðum annarra, þá er naumast von, að allt sé vel um hag hennar. Ég veit vel, við hversu mikla erfiðleika verkalýðurinn hafði að etja um samtök sín í fyrstunni, en smátt og smátt hefur honum tekizt að gera samtök sín sterk.

Hæstv. ráðh. er svo sanngjarn að játa, að fram undan séu erfið ár fyrir bændastéttina, engu síður en fyrir aðra, og að hlutverk bænda í þjóðfélaginu sé engu ómikilvægara, nema síður sé, heldur en annarra helztu stétta í landinu. Bændur framleiða nú helming af öllum mat, sem neytt er í landinu, og þrennt það eftirsóttasta, mjólkina, kjötið og smjörið. Ég sé því ekki, að bændur þurfi að standa neðar, hvað kaup og kjör snertir, heldur en þeir, sem flytja olíu milli tanka hér í Reykjavík eða stunda aðra verkamannavinnu.

Nú neitar því enginn, að samkvæmt sex manna álitinu áttu bændur rétt á að fá uppbætur á vörur sínar, því að þær voru seldar lægra verði en sexmenningarnir gerðu ráð fyrir, að þeir þyrftu að fá, ef greiðslan ætti að vera í hlutfalli við annað verðlag í landinu. Bændur voru fúsir til að lækka kaupið, ef aðrar stéttir gerðu það líka, en það hefur enn ekki orðið af því. Þá kem ég að einhverju hæpnasta atriðinu í ræðu hæstv. landbrh., en það er það, hversu mikinn trúnað hann leggur á orð óáreiðanlegasta manns þingsins, Páls Zóphóníassonar, en hann heldur því fram, að ekki hafi átt samkv. sex manna álitinu að verðuppbæta útfluttar landbúnaðarafurðir. Allir nema hreinir hálfvitar hljóta að sjá, að hvað uppbæturnar snertir, þá var ekki gert ráð fyrir að gera neinar undantekningar, og að nauðsyn var á að verðuppbæta alla vöruna, en ekki sumt af henni. Það væri eins og einhverjum hefði dottið í hug að greiða uppbætur á mjólk af Suðurlandi, en aftur á móti engar uppbætur á kjöt frá Vestfjörðum eða Þingeyjarsýslum. Ég vænti þess, að engum detti framar í hug að halda því fram, að samkv. áliti sex manna n. hafi átt að svíkja suma bændur um uppbætur, af því að þeir framleiddu vöru, sem flutt var úr landinu.

Þá vildi hæstv. landbrh. halda því fram, að ábyrgð sín á þessum málum væri jöfn og ábyrgð forseta Sþ. Ýmislegt dettur honum í hug, þessum hæstv. ráðh., og ég hygg, að menn þarfnist engrar skýringar á þessu til að sjá, hvílík fjarstæða þessi samanburður er.

Ég vildi að síðustu koma lítillega inn á það, hversu mikinn styrk bændastéttin hefur haft í samvinnufélagsskapnum. Samvinnufélögin hafa getað orðið bændum að liði vegna ábyrgðar sinnar á málefnum bænda og gætilegrar skipulagningar. Það vill svo vel til, að Samband ísl. samvinnufélaga hefur verið styrkt af óvenju sterkum mönnum og bændur hafa þar sjálfir verið mikils ráðandi. Nú dettur engum í hug að tala um samvinnufélögin sem stéttarsamtök bænda, og því verða bændur alls staðar á landinu að taka höndum saman og mynda með sér öflug samtök — jafnvel þótt það kosti þá áratugi —, sem geta byggt upp og varið heiður þeirra og varnað því, að þeir verði fótaþurrka annarra stétta í landinu.