19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Gunnar Thoroddsen:

Í fyrri ræðu minni gat ég þess, að ég gæti fallizt á fullt samkomulag við meiri hluta nefndarinnar um 1. og 3. breytingartillögu. sem ég stend að. Um aðrar tillögur var ekki samkomulag. Það vakti fyrir mér með flutningi 2. brtt., að skylt sé að veita mjólkurbúum, sem bæjarfélög stofna, þessa undanþágu, að slíku búi sé ekki skylt að láta mjólk til samsölu, heldur mætti selja beint. Í brtt. n. við þennan tölulið er gengið inn á þetta, að því er snertir bú innan lögsagnarumdæmisins. Nú get ég tekið fram það, sem öllum er vitanlegt, að því er snertir Reykjavíkurbæ, að ef farið yrði út í mjólkurframleiðslu, yrði stefnt að framleiðslu barnamjólkur, svo að það má segja, að hér sé fullnægt með till. n. Hins vegar nær þetta ekki til, ef rekið er bú utan lögsagnarumdæmisins. En að fenginni yfirlýsingu landbrh. og frsm. meiri hl. n. varðandi þetta mál tel ég, að eftir atvikum sé þessu máli viðunanlega borgið með till. meiri hl. n. við okkar till. Ég tek fram, að ég tala aðeins fyrir hönd mína, en ekki fyrir aðra.

Varðandi eftirlitsmannsstarf Sigurðar Péturssonar skal ég ekki lengja umræðurnar með því að fara að ræða aðalröksemd hæstv. heilbrmrh. fyrir því, sem ég kalla uppsögn Sigurðar. Hann sagði að í hinni nýju reglugerð hefði verið gert ráð fyrir þessu. Nú hefur hv. þm. Ísaf., sem var heilbrmrh., þegar reglugerðin var sett, lýst yfir, að með þessu ákvæði reglugerðarinnar væri ætlazt til, að Sigurður Pétursson hefði þetta starf áfram með höndum í Reykjavík og á Suðurlandsundirlendinu, og taldi hann það heppilegt, þar eð sá maður væri sérstakur áhuga- og kunnáttumaður. Með þessu er full sönnun fengin fyrir því, sem ég held fram, og upplýst frá fyrstu hendi, að það er alls ekki mjólkurreglugerðin og ákvæði hennar, sem hafa gert þessa breyt. nauðsynlega, heldur eitthvað annað.