23.05.1947
Efri deild: 145. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Eins og tekið er fram á þskj. 963, gat ég ekki orðið sammála mínum meðnm. um afgreiðslu þessa máls, og verð ég að segja, að mér finnst afgreiðsla n. ákaflega léleg. Málinu er hespað af á ca. 10 mín. og ekki tími til að athuga í n. þær brtt., sem ég flutti og hefði viljað leita samstarfs um við meðnm. mína. Mér hefur dottið í hug út af þessu, til hvers sé verið að hafa tvær d. í þinginu, þegar ekki er tími til að athuga málin í síðari d. nema í 5–10 mín. En ég ætla ekki út í þetta.

Frsm. meiri hl. (PZ) er búinn að lýsa því, hvað hann telji aðalkostina á þessu frv. Hann byrjaði á að ræða um það, að samkvæmt 1. kafla væri ætlunin að skapa eina heildarstjórn. Þetta er rétt og hef ég ekki gert brtt. við þann kafla, því að ég áleit, að hann gæti gengið eins og hann væri.

Þá talaði frsm. meiri hl. um ákvæði 2. gr. um verkaskiptingu milli bænda og talaði um, hve nauðsynlegt væri að skapa verkaskiptingu milli bænda um framleiðslu á landbúnaðarvörum. Ég fagna því að heyra þetta, því að þessu leyti erum við sammála. þótt við séum máske ekki sammála um það, að hve miklu leyti þetta frv. hjálpi til þess, að þetta megi verða. Það hefur verið notað sem árásarefni á okkur sósíalista, að við viljum stefna að verkaskiptingu, og sagt, að við viljum flytja fólkið á 2–3 staði á landinu og flytja það, hvort sem það vildi eða ekki. Nú upplýsir hv. þm., að hann hafi hreyft þessu á bændaskólanum á Hvanneyri fyrir 30 árum. Ég verð að skýra það nánar, hvers vegna ég er sammála hv. þm. um nauðsyn verkaskiptingar milli bænda.

Það er mikið talað um dýrtíðina í landinu, en það er ekki hægt að komast hjá því að viðurkenna, að dýrustu vörurnar eru landbúnaðarafurðirnar. Þetta er ekki bændunum að kenna. Þetta er af því, að ef þeir eiga að hafa viðunandi kjör, verða vörurnar að vera dýrar, og eitt af því, sem gerir framleiðsluna dýra, er það, að ekki hefur tekizt að skapa þá verkaskiptingu í landbúnaðinum, sem þarf að skapa. Í sambandi við þetta langar mig að geta þess, að ég gerði það einu sinni til þess að skapa mér yfirlit um þetta að fara í gegnum hagskýrslur og reikninga um búfjárflokka, miðað við 5 manna fjölskyldu. Niðurstöðurnar sýndu, að maður gat tekið 2 hreppa og barið saman nautgripafjölda og hrossa, sem var kannske jafnmikill, en svo var sauðfjáreignin kannske 3–4 sinnum meiri í öðrum hreppnum. Þetta sýnir okkur, að skilyrðin til hinnar ýmsu búfjárræktunar eru svo geysilega misjöfn, að það getur verið allt að ¼ til helmingi ódýrara að framleiða eina vörutegund á þessum stað en á öðrum. Það er þetta, sem þýðir það, að þetta þarf að færa í betra horf og lækka dýrtíðina, án þess að það þurfi að rýra lífskjör þeirra, sem við framleiðsluna fást. Enn fremur vil ég benda á það, að á þessu þingi og í fyrra hafa verið samþ. stórkostlegar fjárveitingar til landbúnaðarins, aðallega sem lánsfé, og það er enginn vafi á því, að einstaklingarnir munu á næstu árum leggja gífurlega mikið fé fram frá sjálfum sér í það að fullkomna og breyta framkvæmdum í landbúnaði. Það skiptir ekki litlu máli, hvernig þessu fé er varið, þannig að skipulagt verði um leið, hvað eigi að framleiða, þar sem framleiðslan er dýrari, og hvað, þar sem framleiðslukostnaður er minni. Ég skal ekki rengja það, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að stjórn stéttarsambands bænda og þeir, sem þar réðu mestu, hafi fullan vilja á að koma þessu í framkvæmd. Ég skal ekki rengja það, en aðeins benda á það, hvaða möguleikar eru á því, að þetta komist í framkvæmd með þessum 1., sem hér er um að ræða. Ég veit það enn fremur, að búnaðarþing hefur fyrir nokkrum árum samþ. frv. allmikið um það að greiða misjafnt verð fyrir landbúnaðarafurðir eftir því, hvort ætlazt er til, að framleiðslan dragist saman á einhverju svæði eða aukist. Þetta frv. var sent til búnaðarsambandanna, en síðan ekki meira. Mér var ekki ókunnugt um, að þetta kom fram.

Ef maður lítur á þetta frv., sem hér liggur fyrir, er það rétt, sem hv. frsm. meiri hl. benti á, að í 2. gr. er liður, sem hljóðar svo:

Aðalverkefni framleiðsluráðs er „að vinna að því að beina framleiðslu landbúnaðarins að þeim framleiðslugreinum, sem landbúnaðinum eru hagfelldastar og samrýmast bezt þörfum þjóðarinnar á hverjum tíma.“

Þetta er nú það eina, sem um þetta stendur jákvætt í þessu frv. En hvað er það annað, sem stendur í þessu frv., til þess að framleiðsluráð geti þetta? Ekkert var tekið upp úr frv. Búnaðarfélagsins. Það er ekki verið að hafa verðmiðlunina þannig, að hún hvetji menn til þess að breyta um framleiðslu. Einmitt í 18.–20. gr. og í 29. gr. eru ákvæði, sem miða að því að gera verðjöfnunina enn ýtarlegri, þannig að það verði greitt sama verð fyrir sömu vöru, hvar sem er á landinu.

Mörg þau ákvæði. sem eru um verðuppbætur, stangast svo, að ef menn kynnu að vilja vinna eitthvað eftir þessum ákvæðum 5. tölul. 2. gr., hlytu þessi ákvæði um verðuppbætur að verka algerlega öfugt við það. Ég vil benda á það, að í bréfi, sem mjólkursamsalan í Reykjavík sendi til n., er einmitt á þetta minnzt. Þar stendur í d-lið, með leyfi forseta:

„Þá virðist einnig fara að hallast talsvert á milli þeirra, sem búa á beztu sauðfjárræktarsvæðunum, og hinna sem verða að halda sér að mjólkurframleiðslu að mestu leyti, ef þeim á sauðfjárræktarsvæðunum er tryggt sama eða svipað verð og hinum, bæði á kjöti og mjólk, án tillits til framleiðslukostnaðar eða hvar þeir eru búsettir á landinu. Mundi þá fara að þrengjast fyrir dyrum hjá þeim, sem í þéttbyggðari sveitunum búa og í nágrenni bæjanna.“

Hvað þýðir nú þetta, að það sé þrengra um þá, sem búa í nágrenni bæjanna? Það, að aukin séu skilyrði þeirra, sem hafa betri möguleika til annarrar framleiðslu til samkeppni við þá, sem nær bæjunum búa. Enn fremur segir svo:

„Oss virðist sem verðmiðlun, slík sem hér er áformuð, um mjólk og mjólkurafurðir geti því eigi komið til greina, nema heildarframleiðsla landbúnaðarins sé skipulögð til fulls, um leið og ákveðið sé, hvar bezt og hagkvæmast sé, þjóðfræðilega séð að framleiða hverja tegund afurða fyrir sig. Að öðrum kosti hlýtur slík ráðstöfun, sem hér er áformuð, að hafa hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir landbúnaðinn í heild sinni. Leyfum vér oss því að vara alvarlega við að lögfesta hana að svo komnu máli og leggjum til að 28. gr. b-liður og 29. gr. verði felld burtu.“

Þetta segir stjórn mjólkursamsölunnar í Reykjavík, og ætla ég, að það sé ekki að tilefnislausu, heldur sé hún búin að reka sig á, að hér er ekki stefnt í þá átt, sem heppilegt er. Þetta ætla ég að láta nægja til að sýna, að þegar rætt er um, að þetta frv. geti komið á verkaskiptingu, þá er um misskilning að ræða. Þessi 5. liður 2. gr. er ekki nema dúsa, sem stungið er upp í þá, sem kunna að vera óánægðir með ástandið eins og það er, og út frá öðrum liðum er ekkert hægt að gera í sambandi við þetta. Um þetta atriði skal ég svo ekki fara fleiri orðum að sinni, en það eru ýmis ákvæði hér í frv., sem ég er fyllilega sammála, t. d. að skipuleggja sölu stórgripakjöts, sem mikil þörf er að laga, og ég er alls ekki á móti því, að svo sé stefnt sem þar er gert, og hygg það vera til bóta á löggjöfinni. En ég vil færa rök fyrir því, að þetta frv. markar ekki stefnubreytingu frá því, sem verið hefur. Þetta er uppsuða á l., sem giltu um þetta til 1945, er búnaðarráðslögin voru sett, og svo eru tekin í II. kaflann svipuð ákvæði og lögfest voru, eftir að sex manna nefndar samkomulagið var samþ. árið 1943.

Í sambandi við þetta vil ég minnast á viss atriði í II. kafla frv. Þar eru veigamikil atriði, sem ég er alveg sammála um, en hins vegar eru veigamikil atriði þannig, að þeim þarf að breyta.

Þegar sú n., sem fyrrv. landbrh. skipaði til þess að endurskoða l. um búnaðarráð, hélt sinn fund, sinn eina fund, þá lýsti ég yfir því, að ég liti svo á, að verðlagninguna yrði að ákveða með samkomulagi milli framleiðenda og neytenda. Í samræmi við þetta eru fyrirmæli 5. gr., sem fjalla um, að byggt sé á verðgrundvelli, sem fenginn sé með samkomulagi milli þriggja fulltrúa. sem tilnefndir eru af stjórn stéttarsambands bænda, og þriggja fulltrúa frá þessum félagssamtökum neytenda: Alþýðusambandi Íslands, Landssambandi iðnaðarmanna. Sjómannafélagi Reykjavíkur. Það er fullkomlega eðlilegt, að Alþýðusambandið eigi fulltrúa í þessari n., því að það er fjölmennustu neytendasamtökin í landinu, og mætti benda á, að það ætti að eiga tvo fulltrúa í þessari n. Hins vegar virðist vera nokkuð undarlegt að velja Landssamband iðnaðarmanna. sem er bara fámennur hópur iðnrekenda, sem ekki er ástæða til, að ætti fulltrúa í n. Að minnsta kosti virðist rétt að athuga, hvort ekki eru til önnur samtök, sem gætu komið fyrr til greina, og dettur mér þá fyrst í hug Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, sem eru mjög fjölmenn samtök, og því eðlilegt, að þau ættu fulltrúa í n. Ef það væri talið eðlilegt, að Landssamband iðnaðarmanna ætti að eiga fulltrúa í n., mætti eins segja, að Landssamband útgerðarmanna ætti að eiga þar fulltrúa. Ég tel þess vegna eðlilegt, að það ætti að koma fulltrúi frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og hef borið fram brtt. um það. Þá er enn fremur gert ráð fyrir að sjómenn eigi þar fulltrúa . . . . . . . . . [Eftir skýrslu lestrarsalsvarðar vantar hér í hndr. kafla frá innanþingsskrifara (Má Jóh.).]