23.05.1947
Efri deild: 145. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson) :

. . . . . . . Þó væri eðlilegt, að sama gilti eins og milli vinnuveitenda og verkamanna, að þegar þeir ná ekki saman, verði átök, þar sem annaðhvort báðir aðilar eða annar lætur undan, en öðru máli gegnir um framleiðendur og neytendur, meðan ríkið greiðir niður verð á landbúnaðarafurðum á opnum markaði. Ég skal taka dæmi. Ef ríkið greiddi 1/3 af vinnulaunum, þá hefðu verkamenn sterkari aðstöðu en eins og nú horfir málunum, og stæðu þeir þá betur að vígi með að knýja kaupgjaldið upp. Eins má segja að í átökum framleiðenda og neytenda standi framleiðendur óeðlilega vel að vígi. Þess vegna er ekki eðlilegt ástand, sem hér er byggt á, meðan svona standa sakir, og er því ekki nema rétt, að þá sé settur yfirdómur til að skera úr, ef í odda skerst, en hann fellur niður með þessu fyrirkomulagi. Og ég verð að segja, að það er ekki óeðlilegt, að þessi yfirdómur sé settur. Hann er ekki neinn venjulegur gerðardómur, vegna þess að l. segja til um verðlagið, og á það að gefa bændum svipað og vinnandi stéttir hafa. Þegar þetta er ákveðið, þá er það meira reikningslist að finna niðurstöðurnar, og eru forsendurnar kaup og kjör verkamanna annars vegar og framleiðslumagn bænda hins vegar. Þessar nefndir eru því ekki annað en eins konar dómur til þess að finna forsendur fyrir niðurstöðunum. Það er því lagaskýring, sem n. hefur með höndum. Hún hefur ekki rétt til að setja bönd á verðið, heldur á hún að skýra l. um verðið. Það er eðlilegt, að sá maður, sem frá upphafi fylgist með rannsólm frá báðum hliðum, að honum sé falið að skera úr, ef ágreiningur verður. Til að bændur beri réttlátlega úr býtum, þá þarf aðeins greinargóða menn til að komast að réttri niðurstöðu. Betri tryggingu getur löggjafinn ekki fengið í hendur en þá, að færustu menn fáist til að reikna út þetta verð. Ég tel svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum og læt lokið máli mínu.