23.05.1947
Efri deild: 145. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson) [frh.]:

Þá vil ég með nokkrum orðum svara ræðu hv. 1. þm. N-M. Hann vék nokkuð að mínum brtt. og taldi þær allar vera til skemmda, en lýsti því yfir, að hann væri mér sammála um þá stefnu, sem þær miða að. Hann gat þess, að fyrsta till. væri nafnbreyting. Hún er ekki nafnbreyting, heldur er hún viðbót við nafnið, og misskilningur hans mun stafa af því, að hann álítur, að með orðinu framleiðslusvæði eigi ég við hið sama sem átt er við með mjólkursölusvæði í frv., en þetta er hins vegar ekki það sama. Það, sem fyrir mér vakir, er að bæta inn í frv. nýju viðfangsefni í samræmi við það, sem till. felur í sér. Álít ég, að ummæli hv. þm. stafi af misskilningi, sem út af fyrir sig er ekki annað en að leiðrétta.

Þá vildi hann einnig færa þau rök móti mínum till., að þróunin gæti aldrei orðið í einu stökki. Þetta er einmitt það sama og ég tók fram í minni framsöguræðu, því að slíkt er ekki hægt, og það er einmitt stefnt að því í brtt. mínum, að þetta verði smátt og smátt. Það er stefnt að því með brtt. mínum, ef þær verða samþ., að þróunin geti byrjað, en með frv. er stefnt að því, að hún dragist eða geti ekki byrjað. Þetta er munurinn, sem hér er um að ræða.

Þá vildi hv. þm. leggja mikla áherzlu á það, að það væri allmikill verðmismunur milli bænda eftir því, hvað unnið væri, og efast ég ekki um, að hann hafi farið rétt með þær tölur, sem hann minntist á í því sambandi, en það er ekki þetta atriði, sem hér um ræðir. Hér er um það að ræða að skapa þann heppilega verðmun, sem þarf til þess að hvetja bændur til þess að beina framleiðslu sinni inn á þessa braut. Það er alls ekki að því stefnt, að þessi verðmunur geri heildartekjur bænda misjafnari. Það er ætlazt til þess, að munurinn verði einmitt jafnaður með því, að þar sem önnur framleiðsluvara er lægst, verði hin hæst. Hv. þm. var að taka dæmi af Hvammstanga og Snæfellsnesi. Benti hann á, að bændur norður í Húnavatnssýslu, sem sendu mjólk sína í mjólkurbúið á Hvammstanga, vildu fá að selja mjólk sína til Reykjavíkur eins og bændurnir á Snæfellsnesi. Þetta má vel vera, en ég er þeirrar skoðunar, að heppilegra væri að flytja hvorki mjólk frá Snæfellsnesi né Hvammstanga til Reykjavíkur. Það er hins vegar rétt, að mikið hefur verið sótzt eftir því undanfarin ár að færa út mjólkurverðlagssvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, og hefur verið mjög erfitt að standa á móti slíku, vegna þess að skortur hefur verið á, að mjólkurframleiðslan væri nógu mikil í nágrenni Reykjavíkur.

Þá lagði hv. 1. þm. N-M. sérstaka áherzlu á það að þetta væri ekki hægt, vegna þess að það vantaði skilning hjá bændum. Hér er um allmikinn skoðanamun að ræða hjá okkur, og ég vil minna á það í þessu sambandi, að þegar frv. um ræktunarsjóð var til umr. í þessari d. fyrir nokkrum dögum, var ég með brtt. við það frv., sem hafði verið felld í hv. Nd., en kom upphaflega frá nýbyggingarráði, um það að fjárhagsráð og Búnaðarfélag Íslands skyldu gera till. í sambandi við sjóðinn. Þá hélt þessi sami hv. þm. því fram, að óþarfi væri að setja þetta í frv., vegna þess að bændur ættu sjálfir að skipuleggja þetta mál, og sagði, að þeir væru einmitt farnir að skilja það. Nú heldur hann fram hinu gagnstæða og álítur, að bændur séu enn ekki farnir að skilja nauðsyn þessa máls.

Þá var hann einnig að tala um það, að það væri ekki hægt að skipta landinu þannig niður, að ákveðið yrði, að mjólk skyldi eingöngu framleidd í einum landshluta og kjöt í öðrum, vegna þess að í ýmsum héruðum landsins færi saman sauðfjárrækt og nautgriparækt. Það er einmitt gert ráð fyrir því í mínum till., að á stærstu markaðsstöðum séu sköpuð neyzlumjólkursvæði, til þess að reyna að efla þar mjólkurframleiðslu, sem fullnægi neyzlunni, til þess að þurfa ekki að flytja mjólkina að úr mörg hundruð km fjarlægð. Hins vegar er einnig gert ráð fyrir öðrum svæðum með blandaðri framleiðslu, þar sem sauðfjárrækt er nokkur, en framleiðsla mjólkur til vinnslu á þeim svæðum, þar sem skilyrði fyrir mjólk eru góð, en liggja of langt frá markaðsstöðum til þess að flytja mjólk þangað daglega.

Þá minntist hann á, að ég vildi fella niður 20. gr.till. er afleiðing af þeim fyrri, og ef fyrstu aðaltill. verða felldar, þá eru hinar sjálfteknar aftur, því að þá standast þær ekki í frv.

Að síðustu vil ég benda á það, að það liggur hér fyrir, að báðir þeir ræðumenn, sem hér hafa talað, eru raunverulega sammála um, að þetta þurfi að gera, enda liggur það ljóst fyrir, að þetta þarf að gera, og ég vil í þessu sambandi benda á það, að samkvæmt þeim upplýsingum, sem fengust við fjárskiptin 1946, þá kom það í ljós, að á Akureyri voru hvorki meira né minna en 1700 fjár. Sér nú hver maður, hvaða vit er í því að hafa framleiðsluna svona, enda ber að leggja kapp á að skipuleggja hana í sambandi við þau fjárskipti, sem væntanlega verða nú bráðlega. Ég hef þá svarað því, sem að mér var beint, og skal ekki lengja umr. frekar.