19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

255. mál, eignakönnun

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að mótmæla þegar í stað öllum aðdróttunum af hálfu þessa hv. þm., er síðast talaði, í þá átt, að ég hefði gefið yfirlýsingu um það, að hér ætti að fara fram breyt. á skattal., þannig að flytja ætti skattana af baki þeirra stærri og burðarmeiri og á hina burðarminni þegna þjóðfélagsins. Ég sagði það, að þess yrði freistað að láta fara fram gagngerða endurskoðun á skattal. Ég veit ekki betur en þessi endurskoðun sé af fjölmörgum talin nauðsyn. Í hagfræðingaálitinu í vetur var drepið á það, að hún væri mjög aðkallandi. Og hvaða goðgá er það þá, þótt núv. stjórn hafi hugsað sér að koma þessari endurskoðun í framkvæmd? Það er allt of áberandi hártogun hjá þessum hv. þm. að fara þannig með þau ummæli, sem ég viðhafði. Hinu atriðinu þýðir honum ekki að neita að það er almennt álitið hjá fólki í landinu, að skattalögin séu mjög þung. Og það er oft notað sem afsökun, þegar talað er um undandrátt á skattaframtali, að þegar menn telji rétt fram, þá sé allt frá þeim tekið. Þetta hef ég þráfaldlega heyrt menn segja, sem alls ekki geta talizt til þess að vera neinir stórtekjumenn, að ég ekki tali um stórgróðamenn, svo sem heildsala og annað slíkt fólk, sem í einu og öllu er glæpalýður í augum þessa hv. þm., þessa tandurhreina engils, sem á finnst hvorki blettur né hrukka og í hvers munni ekki finnst fals né lygi. En honum verður það þá á, þessum hreina sannleikans manni, að hártoga nokkuð freklega það, sem aðrir segja, ef hann hyggur, að með því geti hann fengið máli sínu framdrátt. Og þessi hártogun á máli mínu er af versta tagi. Annars kom það sama fram í ræðu þessa hv. þm. og það, sem ég gat um áðan lauslega, að vekti fyrir vissum hluta manna, þegar talað er um eignakönnun. Hann er einn af þeim, sem leggur mest upp úr því að gera menn seka. Hann telur, að ákvæði í l. varðandi framtal og rannsókn á ýmsum hlutum séu allt of óljós, og krefst því skýringar á því, hvernig rannsóknir og því um líkt eigi að fara fram. Mér kemur ekki til hugar, að þm. sé svo blár, að hann á þessari stundu geri sér ekki ljóst, að ýmis atriði varðandi framkvæmd þessara l. er ekki hægt að segja um á þessu stigi málsins. Fjhn. Alþ. munu nú fjalla um málið, og auk þess er ætlazt til, að sérstök n., skipuð af ráðh., leggi línurnar í því, hvernig rannsókn og athugun á ýmsu skuli fara fram. Það eru ótal liðir, sem rannsaka á. Í 15. gr. er t. d. talað um rannsókn varðandi hjónabönd, ástvinamissi og því um líkt. Það er eðlilegt, að upp geti risið í sambandi við þetta ýmislegt, sem snertir efnahagslega afkomu viðkomandi aðila. En það er ekki gert ráð fyrir að rannsaka, hvernig menn hafa haft pólitísk fataskipti. Ef það hefði verið gert, hefði hv. þm. þó komizt í skotmark.

Mér kemur ekki til hugar að svara þeim persónulegu hlutum, sem hv. þm. beindi að mér. Ég hef gert það áður. Og þótt það sé alfa og ómega í hans ræðum, þá læt ég það sem vind um eyrun þjóta. Ég held, að þessari löggjöf væri ekki betur farið, þótt henni væri beint í þá átt, sem hv. þm. vill vera láta, þótt efnt væri til húsrannsóknar hjá hverjum og einum, því að vitanlega leiðir það af sjálfu sér, að ef rannsaka ætti eins og hv. þm. talar um, þá yrði að rannsaka yfir allt landið. Það er fjarri því, að ég mæli með slíkum aðferðum, þótt þær falli þessum hv. þm. bezt í geð.

Ég tel mig þá hafa komið inn á þau atriði, sem máli skipta í ræðu þessa hv. þm. Ég vildi sérstaklega ekki láta standa ómótmælt þau ummæli, sem hv. þm. þóttist geta lesið út úr ummælum mínum varðandi skattal. og þá endurskoðun á þeim, sem ríkisstj. og margir aðrir telja, að nauðsyn sé að fari fram. En hv. þm. las vitanlega út úr þessum ummælum á sama hátt og viss persóna les biblíuna.