19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

255. mál, eignakönnun

Áki Jakobsson:

Það er vegna nokkurra atriða í ræðu hæstv. fjmrh., sem ég vil segja nokkur orð. Hæstv. ráðh. sagði, að eignakönnunin hefði verið frá okkur sósíalistum, og var helzt á honum að skilja, að núv. stjórn hefði séð sér þann kost vænstan að leggja fram þessa eignakönnun vegna krafna frá Sósfl. Þetta mál hefur verið lengi á athugun, og hæstv. fjmrh. sagði, að það hefði verið gagnhugsað. Í sambandi við það vil ég benda á, að það er veigamikið, þegar svona mál eru undirbúin, að hafa samstarf við stjórnarandstöðuna um það. Þegar svona ráðstafanir eru gerðar, er það langveigamest, að þær veki ekki deilur, heldur samstarf. En Sósfl. hefur ekki fengið að sjá þetta mál fyrr en nú fyrir nokkrum mínútum, þar sem með málið hefur verið farið eins og mannsmorð. Það hefði verið eðlilegra, að Sósfl. hefði verið gefinn kostur á, því að fá að taka þátt í undirbúningi þessa mikla máls.

Hæstv. ráðh. átti erfitt með að gefa skýringu á því, hvers vegna það hefði tekið tvo og hálfan mánuð að undirbúa þetta mál. Ef við rennum augunum yfir málefnasamning núv. stjórnar, þá sjáum við, að það eru ekki mörg atriði umfram þessa eignakönnun, sem þar er greint frá. Þetta mál ásamt nokkrum öðrum er það, sem stjórnin lofar skilyrðislaust að gera. Samt er þetta mál dregið svona lengi. Er það þó vitað, að það eitt út af fyrir sig hefur haft skaðleg og lamandi áhrif á fjármála- og atvinnulífið í landinu. Og nú er það þar að auki svo, að þótt frv. sé samþ. nú, þá er málið ekki komið í gang, heldur getur orðið margra mánaða dráttur á því enn, að eignakönnunin verði framkvæmd, jafnvel fram að næstu áramótum. Þá sagði hæstv. fjmrh., að það væri ekki meiningin með eignakönnuninni að beita henni frekar gegn einum en öðrum, hún ætti að ganga jafnt yfir alla. Þetta eru hin almennu rök. En frv. sjálft, greinar þess og það, hvernig það fyrirskipar eignakönnunina, sýnir, að þetta er ekki rétt. Hæstv. ráðh. lagði áherzlu á, að ástæðan fyrir þessari eignakönnun væri sú, að menn hefðu dregið eignir sínar undan skatti. En samt á að byggja þessa eignakönnun á skattaframtölum. Þeir menn, sem hafa skapað sér aðstöðu til að draga undan vegna núgildandi skattal., þeir eiga að halda því áfram undir þessari eignakönnun. Það á að fylgja sömu reglum og við venjulegt skattaframtal. Launþegar, sem hafa þannig tekjur, að atvinnurekandi gefur allt upp til skatts, hafa orðið að borga 100% samkv. núgildandi skattstiga, þeir lenda nú í því að þurfa að gefa upp þær eignir, sem þeir hafa dregið undan framtali. En hinir, sem gátu smogið skattal., þeir hafa möguleika til að smjúga eignakönnunina. Og það er vegna þessa, sem þeir menn, sem hafa safnað auði á undanförnum árum, leggja nú mikið kapp á, að þetta mál komist fram og það sem fyrst í því formi, sem það er. Ég sagði, að eignakönnunin ætti að miðast við verzlunarstéttina. Hún hefur haft möguleika til að græða margfalt meira en aðrir. Að vísu má þarna telja með nokkra aðra, eins og t. d. húsbyggingarfélög og einstaklinga hér í Reykjavík og ef til vill einhverja aðra. En þetta nefni ég sem dæmi um hóp manna, sem hefur grætt mikið fé, en sleppur vel gegnum eignakönnun í mótsetningu við þá smærri, sem hafa orðið að borga fullan skatt, en eiga einhverjar upphæðir, t. d. líka hús, sem hafa breytt um verð við það, að gildi peninganna hefur breytzt á þessum tímum, þeir verða verulega varir við ákvæði þessa frv. Þeir eiga um tvennt að velja, kaupa þessi vaxtabréf hins opinbera eða verða stimplaðir sem skattsvikarar af fjmrh., ef þeir ekki gera það, þar sem þeir hafa ekki þá aðstöðu, sem hinir ríku hafa til að smeygja sér undan þessu. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv. Það er beinlínis í frv., eins og þm. las það upp, að gert er ráð fyrir, að ekki fari fram nein almenn könnun á „vörulagerum“, vélum og eignum þessara fyrirtækja, sem grætt hafa á undanförnum stríðsárum. En ýmis ákvæði frv. gera það að verkum, að margir verða að telja fram hvern eyri. Í þessu felst ósamræmið. Ríkisstj. ætlar ekki að láta hlutina ganga jafnt yfir, heldur misjafnt. Það er opnuð smuga fyrir hina stærri.

Hæstv. fjmrh. sagði, að það mundi seint verða samið frv., sem gæti séð við öllum refilstigum, og það fer að verða nokkuð til í þessu. En ég er sannfærður um, að hægt er að komast miklu nær því en þarna er gert. Og eðlilegast hefði verið að gera þetta með minna bákni, til þess að hægt sé að rannsaka nánar þá menn, sem sérstök þörf er að rannsaka, þann hóp manna, sem hefur haft sérstaka aðstöðu til að moka til sín verulegum gróða. Hefði vilji átt að vera hjá stjórninni til að láta þá menn gera fyrst og fremst grein fyrir sínum eignum, en vera ekki að elta ólar við þá smærri, sem af hreinni tilviljun hafa fengið einhverja peninga, t. d. fyrir seldar eignir, en hafa hins vegar borgað skatt af öllum tekjum sínum á undanförnum árum. En þetta bákn virðist skapað fyrst og fremst til þess að veiða þá smáu. En svo þykir það „of viðamikið“, eins og hæstv. fjmrh. sagði, að stofna til húsrannsóknar, þegar hinir stærri eiga í hlut. Þá er það líka talin ofsókn að láta slíka menn gera grein fyrir eignum sínum umfram það, sem þeir þurftu að gera á þeim árum, sem fjmrh. sagði, að þeim hefði tekizt að koma eignum sínum undan skattaálagningu. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri sneitt fram hjá eignum hinna smærri. Það er sneitt fram hjá þessum 15 þúsundum og þó þannig, að það skal vera opinberlega staðfest, að viðkomandi maður hafi svikið 15 þús. kr. undan skatti. Mér finnst vera reiknað með því, að það sleppi enginn annar en sá, sem hefur verið opinberlega lýstur skattsvikari og hefur gefið sig upp sem slíkan. Þetta tekur einnig til 45 þús. kr. eignarinnar. Slíkir menn hljóta að verða fyrir allmiklu ámæli í sambandi við þetta. Býst ég við, að margir mundu heldur kjósa að kaupa hin opinberu skuldabréf og þar með binda algerlega sína fjármuni heldur en að láta þannig festa sig upp. Enda vil ég benda hæstv. stjórn á, að ef svo fer, að farið verður að stimpla hundruð og þúsundir borgara, sem fyrir einhverjar orsakir hafa fengið nokkra peninga handa á milli, sem allir vita nú í þessari síauknu dýrtíð, að eru ekki svo mikils virði, þar sem 15 þús. eru ekki nema eins og 2–3 þús. fyrir stríð — ef á að stimpla þetta fólk, hlýtur það að hafa áhrif á siðgæðiskröfurnar gagnvart heiðarlegum framtölum. En að þessu virðist ríkisstj. stefna, á sama tíma sem hún opnar víða smugu fyrir þá stærri til að losna. Þessi smuga er það að kaupa skuldabréf ríkisstj. með 1% til þess að komast hjá að verða ber að skattsvikum, en hún er þess eðlis, að hinir smærri geta ekki yfirleitt hagnýtt sér. Margir þeirra eiga nokkra tugi þús., eru menn, sem búa í mjög dýrum íbúðum, menn, sem verða að grípa til þessara fjármuna, ef eitthvað minnkar atvinna eða eftirvinna. Ef þeir hins vegar eru búnir að binda þessa peninga í skuldabréfum ríkisstj., eru þeir algerlega undir öxina komnir með sína húseign og geta átt á hættu að verða algerlega féflettir með því, að húseignin sé seld fyrir áhvílandi skuldum. Hinir stærri, sem meiri peninga hafa, geta keypt stórar upphæðir af þessum skuldabréfum. Þá er einnig stór hópur manna, sem ekki þarf á slíku að halda, af því að eignir þeirra eru ekki rannsakaðar, og geta þeir falið sínar eignir í stórum „vörulagerum“. En eins og ég sagði, verða þeir, sem lítið eiga, að hafa sitt tiltækt til þess að geta bjargað því, sem bjargað verður, ef eitthvað minnka tekjur.

Ég sé því ekki betur en hæstv. ríkisstj. sé að koma upp því kerfi, að hinir ríku hafi margfalda aðstöðu til þess að smeygja sér fram hjá þessari eignakönnun, en hinir smærri verða að festa sitt litla fé og eiga margt á hættu. Fjölskyldumönnum verður meinað að eiga húsnæði yfir sig og sína fjölskyldu, eiga á hættu að verða sviptir því. Varla hefði getað verið ósanngjarnlegar að farið gagnvart almenningi, sem er að berjast í því að koma yfir sig húsnæði, heldur en með þessu tiltæki stjórnarinnar.