19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

255. mál, eignakönnun

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. lét þau orð falla, að algerlega væri rangt hjá mér, að hann hefði gefið nokkra yfirlýsingu í þá átt, að flytja ætti skatta af þeim burðameiri á þá burðaminni. Síðar í ræðu sinni hafði hann um þetta ákveðnari orð. Hann kallaði þetta fantalegar hártoganir hjá mér, og síðar sagði hann, að þetta væru hártoganir af hinni allra verstu tegund. Mér finnst því ástæða til að gera nokkru nánari grein fyrir því, hvað það var, sem kom mér til að draga þær ályktanir, sem fram komu í minni síðustu ræðu. Hæstv. fjmrh. lýsti því ótvírætt yfir, að skattalöggjöfin hefði verið svo á landi hér og væri svo, að hún freistaði mjög til skattsvika. Og hann lét orð um það falla, að ýmsir menn segðu sem svo, að ef þeir teldu allt fram, væri allt af þeim tekið. Það var mjög greinilegt, enda vitað áður bæði fyrr og síðar, að hæstv. fjmrh. er einn í hópi þeirra manna, sem telur skattalöggjöfina svo þungbæra, eins og hún hefur verið, að það sé í raun og sannleika eðlilegt, að menn skjóti fé undan sköttum að svo miklu leyti sem við verður komið. Niðurstaðan af þessari skoðun ráðh. var sú, að rétt sé einu sinni að gera hreint borð, þ. e. a. s. að gera upp við menn fyrir allar drýgðar syndir í þessu efni og gefa mönnum kost á að kaupa sér aflát, þannig að þeir komi ekki á syndaskrána, því að mönnum er svo mikil vorkunn, þó að þeir gangi inn á þá braut að telja ekki allt fram til skatts. Þetta var nú fyrri hlutinn af því, sem hæstv. fjmrh. sagði. Í framhaldi af þessu kom hann svo inn á, að nauðsyn bæri til að breyta skattalöggjöfinni þannig, að hvöt manna til að brjóta hana yrði minni. Og ummæli hans gat ég ekki skilið á annan hátt en þann, að þetta yrði að gera með því að létta að einhverju leyti af skattabyrðinni — hverfa eitthvað frá því fyrirkomulagi, sem margir telja, að sé þannig, og þar með hæstv. ráðh., að ef þeir telji rétt fram, sé allt af þeim tekið. Ég veit, að hæstv. ráðh. neitar ekki, að þetta var kjarninn í hans fyrstu ræðu. Skattalöggjöfin er óþolandi, skattabyrðin svo þung, að þess vegna á að fyrirgefa mönnum, þó að þeir svíki skatta, og síðan koma í veg fyrir, að þeir haldi áfram á sömu braut, með því að breyta löggjöfinni þannig, að bærilegra verði fyrir skattþegnana. Af þessum forsendum leyfi ég mér að draga ályktanir. Þar er fyrst til að taka, að skattstiginn hækkar mjög ört hlutfallslega, eftir því sem tekjur lækka. Þannig hygg ég, að skattstigi eigi að vera. Þá er spurningin: Hverjir eru þessir menn, sem líta svo á, að það þurfi að draga undan skatti, því að annars verði allt af þeim tekið? Það eru áreiðanlega ekki mennirnir, sem hafa 18–20 þús. kr. í árslaun, eins og Dagsbrúnarmenn hafa nú. Þeir hafa ekki ríka tilhneigingu til að draga undan skatti, því að það væri mesta öfugmæli, að með sköttum væri allt af þeim tekið. Það er fyrst, þegar komið er upp í hærri tekjur, sem skatturinn verður hár, og við 90–100 þús. kr. tekjur verður skatturinn mjög hár. Mér sýnist því augljóst, að hvötin til að draga fé undan skatti sé því meiri, sem tekjurnar eru hærri, af þeirri ástæðu, að skattakerfið er þannig, að hlutfallslega er tekið meira, eftir því sem ofar kemur, enda er það alkunna, að sá stóri hópur manna, sem talið er, að beiti öllum ráðum til að draga fé undan skatti, eru menn, sem hafa háar tekjur, en ekki lágar. Af þessu öllu og yfirlýsingu hæstv. ráðh. um nauðsynlega endurskoðun skattalöggjafarinnar og raunar ákvörðun um endurskoðun hennar, hef ég dregið þær ályktanir, að létta eigi byrðunum af þeim, sem mestar hafa tekjurnar og bera nú hlutfallslega hæsta skattana. Hitt er svo annað mál, að mér er ekki ljóst, hvort þetta er vilji ríkisstj., og mér er ekki ljóst, hvort hæstv. menntmrh., sem átti mestan þátt í því að skapa þetta kerfi, hefur svo skipt sinni í þessum efnum, að hann telji nú nauðsyn til bera að setja sérstaka löggjöf til að fyrirgefa mönnum skattsvik. Þetta veit ég ekki, en hinu held ég fram, að þetta séu rökréttar ályktanir af þeim forsendum, sem hæstv. fjmrh. hefur gefið mér.

Þá vék hæstv. ráðh. að því, að það væri greinilegt, hvað fyrir mér vekti, það væri að gera menn seka. Það væri annað en það, sem fyndist hjá hæstv. ráðh., hann vildi gefa mönnum aflátsbréf. Það getur verið, að í þessu felist dálítill skoðanamunur hjá okkur. Ég lít svo á, að maður, sem hefur brotið landslög, hvort sem það eru skattalög eða önnur l., sé sekur um lögbrot, það gerir hann enginn sekan eða saklausan, hann hefur sjálfur gert sig sekan. Hver maður, sem vitandi vits telur rangt fram eigur sínar er sekur, hvorki ég né ráðh. getur gert hann sekan eða saklausan, það hefur maðurinn sjálfur gert. Hitt er svo annað mál, að það má með ýmsum hætti taka á sekum mönnum, og ég get fallizt á, að það geta verið vissar ástæður til þess, að reynt sé að gera hreint borð í þessum efnum.

En ég finn það vel, að hér er mikill munur á skoðunum okkar hæstv. ráðh. Hann lítur svo á, að ef þessir menn sæta ábyrgð gerða sinna, þá væri það af því, að einhverjir vondir menn væru að gera þá seka. En ég segi: Þessir menn hafa sjálfir gert sig seka.

Ég hef beint ákveðinni fyrirspurn til hæstv. ráðh. um það, á hvern hátt væri hugsað að framkvæma eftirgrennslan eftir því fé, sem hugsanlegt er að margra manna áliti, að sé geymt erlendis, og margir halda að muni nema mörgum millj. kr. Ég vil benda á, að í 15. gr. frv. er svo fyrir mælt, að menn skuli gera grein fyrir því, hvort þeir eiga fé erlendis og í erlendri mynt hjá lánsstofnunum eða öðrum. En hæstv. ráðh. vildi ekki beinlínis svara þessu. Hann taldi, að það væri mjög margt á huldu enn um framkvæmd 1., en eina samlíkingu gat hann þó komið með til afsökunar. Hann benti á, að í sömu gr. væri mönnum gert að skyldu að gera grein fyrir hjónabandi sínu og ástvinamissi. Það má vel vera, að fjármunir, sem geymdir eru ólöglega erlendis, séu í augum hæstv. ráðh. hliðstæðir hjónabandi og ástvinamissi. Það kann vel að vera, að hann líti svo á, að ef leitað væri uppi þetta fé og það fyndist, þá litu einhverjir svo á, að það stappaði nærri ástvinamissi eða hjónaskilnaði. Annars veit ég ekki, hvað hefur vakað fyrir hæstv. ráðh. með því að draga upp þessa samlíkingu. En ég verð að segja það, að ég teldi það ekki að ófyrirsynju, að um það, hversu mikið fé menn ættu erlendis, hvar það er geymt, hvernig menn hefðu komizt yfir það. væru einhver ákvæði í lögum. Hins vegar kann vel að vera, að það takist að bæta úr þessu undir meðferð málsins. Ég sagði í minni fyrri ræðu, að það væru til lög, sem hefðu tog. Þetta þýðir, að svo eru lög sem þau eru framkvæmd. En framkv. l. er fyrst og fremst falin þrem mönnum, sem fjmrh. skipar, eins og segir í 45. gr. Það er ekki smáræðis vald, sem þessari n. er gefið. Samkv. 46. gr. getur framtalsn. falið sérstökum mönnum eða matsnefndum að framkvæma mat á vissum eignum, svo sem vörubirgðum, byggingum, skipum, vélum, tækjum o. s. frv., til að sannreyna, hversu mikið fé hefur verið í þær lagt. Enn fremur er skýrt tekið fram, að framtalsn. hafi heimild til, án dómsúrskurðar, að láta fulltrúa sinn rannsaka vörubirgðir. M. ö. o., þarna er það lagt á vald þriggja manna, tilnefndra af fjmrh., hjá hverjum eru athugaðar eignir. Þetta er ekki lítið vald. En í 49. gr. frv. segir svo: „Fjmrh. getur, þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi, veitt undanþágur frá einstökum ákvæðum laga þessara.“ Sem sé, allt vald um framkvæmd l. er hjá fjmrh. Það er hann, sem algerlega ræður því, hvað mikið tog þessara l. verður, þegar farið er framkvæma þau.

Fyrst skipar ráðh. 3 menn, þeir eiga að ráða, hvaða rannsókn fer fram, síðan á ráðh. sjálfur að ákveða, frá hvaða lagaákvæðum megi veita undanþágur. Mér finnst þetta alveg furðulegt lagaákvæði, og ég hygg, að ekki séu til nokkur dæmi þess, að einn fjmrh. hafi þannig viljað leggja valdið í sínar eigin hendur til þess að framkvæma mikilvæga rannsókn eftir eigin geðþótta.

Hæstv. ráðh. vék að því í sinni ræðu, að persónulegum hlutum svaraði hann ekki. Ég verð að segja, að hér kemur fram greinilegur skoðanamunur milli mín og hæstv. ráðh. Ég hika ekkert við að nefna þær staðreyndir, sem máli skipta. Hæstv. ráðh. gekk upp í ráðherrastólinn, þegar firma, sem hann er einn aðaleigandi að, lá undir ákæru — lá undir ákæru fyrir það að skjóta fé undan í erlendan banka og brjóta gjaldeyrisl. og verðlagsl. Forsendur allar hníga í þá átt, að hjá þessu fyrirtæki hafi verið um mjög veruleg skattsvik að ræða, og það er mín skoðun, að það gæti ekki viðgengizt í neinu réttarþjóðfélagi nema á Íslandi, að maður yrði ráðh. undir slíku tilfelli.

Það er augljóst, að mörg ákvæði í þessu frv. þurfa nákvæmrar athugunar, og verða þau áreiðanlega athuguð af fjhn. og þm., áður en lýkur. Mín athugun á frv. nær að sjálfsögðu mjög skammt, en ég tel mig samt hafa rekizt á mjög veigamikla galla.

Ég vil svo að lokum undirstrika eitt atriði, sem kom fram í ræðu hv. þm. Siglf. Samkvæmt frv. eiga allir þeir, sem eiga peninga og verðbréf, að geta keypt aflátsbréf, þeir fá tíma til að breyta þeim í ríkisskuldabréf til 25 ára með 1% vöxtum og þurfa ekki að telja bréfin fram við hið sérstaka uppgjör. En svo eru aðrir menn, sem kann að vera svo ástatt um, að við athugun eigna þeirra komi fram meiri eignir en ætti að vera samkvæmt skattaframtali undanfarin ár. Þessir menn eru þannig settir, að þeir eiga þess engan kost að kaupa aflátsbréf, og verða því stimplaðir sem skattsvikarar, en hinum sleppt.

Vil ég benda á dæmi í þessu sambandi. Það er mjög algengt á síðustu árum, að menn, sem hafa lítil efni, hafa lagt á sig geysimikið til þess að koma upp yfir sig dýrum íbúðum, menn, sem höfðu verið að vinna þjóðnytjastarf. Þeir hafa unnið nótt og dag að þessum byggingum, og ef rétturinn hefði skeð, þá hefðu þeir átt að telja sér til tekna alla vinnutíma, sem þeir hafa lagt í slíkar byggingar, með taxtakaupi. Og satt að segja finnst mér, að slíka frávikning frá skattal. ætti að virða mönnum til vorkunnar og réttlætis. Nú stendur slíkur maður uppi með sína dýru íbúð meira og minna skuldum vafinn, en ef íbúðin er rétt metin, þá kemur fram meiri eign hjá honum en ætti að vera samkvæmt fyrri skattaframtölum, og ástæðan er þessi, hversu maðurinn hefur lagt á sig mikla vinnu við bygginguna. Þessi maður verður stimplaður sem skattsvikari, en sá, sem hjálpaði honum með okurláni, getur keypt aflátsbréf. Þetta er aðeins eitt dæmi. Sá, sem stelur miklu, gengur til virðingarstöðu, en sá, sem stelur litlu, er stimplaður skattsvikari.