19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

255. mál, eignakönnun

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Ég átti von á því, að það kæmi fram hjá þeim flokki, sem þessi hv. þm. tilheyrir nú — þeim flokki, sem hæst hefur hrópað um eignauppgjör, að þegar einhver tæki að sér að koma fram löggjöf um þessi efni, þá sæju þm. Sósfl. það fljótt, að skórinn mundi kreppa að einhverjum, sem þeim væru við hönd riðnir. Hv. þm., sem síðast talaði, var að tala um menn, sem byggju í dýrum húsum, að þeir yrðu sérstaklega hart úti við eignakönnunina. Ég held, að á þessu stigi málsins sé ekkert hægt að segja um það yfir höfuð, hverjir verða illa og hverjir vel úti, og sennilega mundi það standa nokkuð á sama, hvernig löggjöfin væri lögð fram — þessir hv. þm. mundu alltaf sjá ótal annmarka á því, sem kæmi fram. Annars hefur það nú ekki hingað til verið talin nein sérstök dyggð í augum þessara manna, að menn byggju í dýrum húsum. Það hefur einatt verið talað um „lúxus“ í því sambandi, og það hefur verið talað um það í þeim tón eins og þetta gengi glæpi næst. En nú er allt í einu annað uppi á teningnum. Nú sjá þessir hv. þm. hættuna steðja að einhverjum vinum sínum, sem hafa byggt dýr hús, og tönglast báðir á því.

Það var mikið lagt upp úr valdi fjmrh. í ræðu hv. 6. þm. Reykv. Ég býst við, að þessi löggjöf, sem fjallar um skattamál, þótt hún hneyksli þessa saklausu sál — að það verði ekki hjá því komizt, að svona mál heyri undir þá stjórnardeild, sem fjmrh. á að sjá um. Sú framtalsn., sem skipuð verður samkv. þessum l., hún verður að sínu leyti alveg eins sjálfstæð í sínum störfum og t. d. skattanefndir eru nú, t. d. ríkisskattanefnd, og ég geri ekki ráð fyrir, að neinn fjmrh. vilji blanda sér í störf þessara opinberu nefnda. En vitaskuld er það, séð frá bæjardyrum hv. 6. þm. Reykv., alveg sjálfsagt að búast við alveg sérstökum og einhverjum fráleitum aðgerðum hjá núverandi fjmrh. Ég kippi mér ekki upp við það. Það virðist ekki undan því komizt, að þessi hv. þm. geti ekki staðið hér upp í neinu máli, sem snertir núverandi fjmrh., án þess að ausa hann auri og bera hann og fyrirtæki hans hinum verstu brigzlyrðum. Þetta er einhver sjúkleiki hjá þessum þm., kannske álíka sjúkleiki og sú eðlishneigð hans, sem hefur aflað honum þess vitnisburðar hjá fyrrverandi samflokksmönnum hans, sem nýlega kom fram hér í þingsölum, að þessi þm. hafi verið sú fégráðugasta persóna, sem nokkurn tíma hafi verið í Alþfl. Þessu var lýst yfir í heyranda hljóði hér á Alþ. fyrir nokkru. Og hann heldur víst, að allir aðrir séu steyptir í sama móti.

Hv. þm. minntist á djúpsettan skoðanamun á milli mín og hans. Já, svo er guði fyrir að þakka. Og ég vona, að sá skoðanamunur haldi áfram að dýpka, en ekki að grynnka. Ég vildi heldur láta bera mig þeim brigzlum, að ég vilji vera of mildur og fara vægilega í sakirnar, en að hafa þá lund, sem þessi svartmunkur Alþingis hefur.