19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

255. mál, eignakönnun

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Mér fannst ræða hv. þm. Siglf. svona frekar lík skáldsögutilbúningi en því, að hann væri að ræða þetta frv. og ákvæði þess. Vitaskuld getur maður með greind hv. þm. Siglf. alltaf búið til, út frá hvaða skattalögum sem væri, dæmi um, hvernig einhver gæti hringsnúið eign sinni, ef ég mætti segja það á þann hátt, hagað bókhaldi og eignum þannig, að þeim mundi vera hægt að koma undan skatti. Ég þekki ekki inn á þessar leiðir, en ég get vel trúað því, að það sé hægt að setja fram fræðilega kenningu um það, og virðist sem hv. þm. Siglf. sé sérstaklega vel heima í því. En þetta er í sjálfu sér ekkert annað en nokkuð, sem hann hefur búið til, og vitaskuld fram komið af einlægri viðleitni til að gera málið tortryggilegt í byrjun. Og það er kannske ekki óeðlilegt, af því að hann vildi láta líta þannig á, að það mætti ekki annað um það segja, af því að það kemur frá þessari stjórn. En mér finnst hv. þm. kominn í sjálfheldu í þessu máli. Hann hefur staðið fremstur í flokki að skrifa um eignakönnunina. Hvernig hefur hv. þm. hugsað sér eignakönnun, sem ætti að ná yfir allt landið, án þess að hún yrði nokkuð almenn? En nú er svo að skilja sem hv. þm. álíti, að allar aðgerðir í þessum efnum eigi að beinast gegn einni stéttinni. Hann þráttar fyrir sína fyrstu ræðu, að hann hafi haldið á málinu á þann veg. En mér finnst á seinustu ræðu hans, að hann vilji láta líta svo út, að þeir félagar hafi ekki meint almenna eignakönnun. Og sú viðleitni kemur fram í þessu frv., að undanskilja smærri fjárupphæðir að nokkru leyti og fara mildilegum höndum um þær að öllu leyti, þótt þær séu dregnar undan. Þessari viðleitni snýr hann öfugt og vill láta líta svo út, að það sé ekki mönnum til hagræðis, heldur til að stimpla þá sem skattsvikara. Slíkur málflutningur getur vel verið, að sé hagkvæmur frá bæjardyrum hv. þm., en ég held, að hann hljóti að kannast við, að hann er ekki réttur. Hann er rangur.

Nú þetta margumtalaða vald ráðh. get ég ómögulega fallizt á, að sé meira en í hverju öðru máli, þar sem ráðh. skipar n. til framkvæmda, hvort sem sú n. starfar eitt ár eða fjögur ár, eins og ríkisskattanefndin. Ég get ekki skilið, að hættan á því, að ráðh. blandi sér í þau nefndarstörf, sé til, hvað þá að ráðh. mundi fá sig til þess að fyrirskipa nm., sem búið er að tilnefna í opinberar trúnaðarstöður, að vinna eftir einhverjum geðþótta hans. Ég veit ekki, hvað þessir menn hugsa. Ég vil ekki vera að segja það, að þessi hv. þm. mundi hafa hagað sér þannig, ef hann hefði verið eða yrði sá ráðh., sem þessi framkvæmd heyrði undir á sínum tíma. Mér dettur ekki í hug að bera honum það á brýn að ætla að gera það og blanda sér þannig í störf opinberrar nefndar. Og ég vil mælast undan því, að hv. þm. beri mig slíkum sökum, eindregið. Ég geri líka ráð fyrir, að í slíka n. sem þessa þyki ekki rétt að tilnefna aðra en valinkunnustu og samvizkusömustu menn í þessu þjóðfélagi, sem er treystandi til að vinna trúlega það verk, sem hið opinbera felur þeim. Og hvers vegna er þá nauðsynlegt að þyrla upp svona tortryggni um málið? Ég held, að það sé fast að því óhætt að segja, að það sé aðeins gert til þess að segja eitthvað um málið. Nú er enginn vafi á því, að þetta frv. hefur vitaskuld sína galla, að ég hygg, eins og það hefur þá kosti að ná því langþráða takmarki, sem m. a. hv. þm. Siglf. hefur barizt fyrir, að hér færi fram þessi eignakönnun. Frv. er ekki svo úr garði gert, að ekki megi eitthvað að því finna, og þeirri n., sem fer með það. Þannig hugsa ég ekki, að það sé hér verið með einhvern þann grip, sem sé svo algerlega lýtalaus og fágaður, að enginn megi við honum hreyfa. Hitt er svo allt annað mál, að grundvallaratriðum geri ég ekki ráð fyrir, að breytt verði, og þá sérstaklega því atriði, að reynt verður að láta þessa löggjöf verða þannig úr garði gerða, að hún nái því höfuðmarkmiði, sem haft er fyrir augum með samningu frv., að hér verði nú fært í lag að því leyti, að menn geti komið frá sér á löglegan hátt þeim eignum eða verðmætum, sem kann að hafa verið dregið undan skatti, og staðið svo þannig gagnvart skattalöggjöfinni, eins og ég hef áður lýst, að geta framvegis haldið sér við rétt framtal.

Ég vil líka benda á það viðvíkjandi þeim mörgu liðum, sem taldir eru upp í 15. gr., að upplýsa á ýmislegt og tilfæra eignir, þ. á m. innieignir í útlöndum. Og það er ekki á valdi fjmrh. og ekki heldur neinnar n., hvort á að krefja upplýsinganna. Það stendur orðrétt í nefndri grein: „Meðal annars skal krefjast skýrslna um, hvort framteljandi eigi fé erlendis og í erlendri mynt hjá lánsstofnunum eða öðrum.“ Ég held þess vegna, að ræða hv. þm. Siglf. sé á miklu minni rökum reist en hann vill vera láta, og vissulega er honum þetta sjálfum kunnugt.