21.05.1947
Neðri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

255. mál, eignakönnun

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég er einn af þeim, sem þannig líta á, að þetta frv., sem nú liggur fyrir, sé algerlega ófullnægjandi til að leysa þann vanda, sem fyrir liggur og ég hafði gert mér í hugarlund, að væri ætlunin með l. um eignakönnun. En eftir því, sem fram hefur komið í umr. um þetta mál, þá virðist mér, að þeir, sem að frv. standa, hafi gert sér allt annað í hugarlund en ég hafði gert, og er tilgangur þeirra allur annar en ég hafði hugsað mér. Það vill svo til, að við Íslendingar erum ekki einir um að fara þessa leið, að láta fram fara eignakönnun. Í öllum tilfellum, um skilning á slíkum lögum, þá er höfuðtilgangurinn sá að ná miklu fé, sem safnazt hefur á fárra manna hendur á vafasaman hátt, og að ná stríðsgróðanum í þágu ríkisins. Ég hef hlustað hér á allar umræður, en ekki heyrt minnzt á þetta atriði. Hv. frsm. minntist þó lítils háttar á, að ríkið mundi fá nokkurt fé með þessu. Aftur sagði hæstv. fjmrh., að höfuðtilgangur með þessu frv. væri sá að gefa mönnum kost á að koma fé sínu fyrir á löglegan hátt, en við lestur frv. er sýnilegt, að tilgangurinn sé að leysa menn og fyrirtæki úr skattsvikaklípunni, en ekki að gera upptækan stríðsgróðann, heldur á að leysa órólega menn úr klípu og gefa þeim syndakvittun.

Þetta kom líka fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. En þetta atriði vil ég undirstrika, að er höfuðtilgangurinn með eignakönnuninni. Ég hef aldrei heyrt, að tilætlunin með eignakönnun væri sú að leysa menn úr skattsvikaklípunni, heldur að ná vafasömum gróða fárra manna, til að þjóðin gæti notið hans. En hvaða líkur eru til þess, að ríkið fái fé með þessu? Það eru hverfandi líkur, að ríkissjóður hafi nokkurt fé upp úr þessari eignakönnun, en hins vegar er líklegt, að þeir, sem eru í skattsvikaklípunni, fái eftirgefnar syndir sínar, og held ég, að flestum þeirra takist það auðveldlega, ef þetta frv. verður að lögum. Ef ætti að kalla þetta frv. til l. um eignakönnun, þá ætti að kanna eignaframtöl manna. Það þýðir ekkert að taka aðeins tvo þætti: peninga og verðbréf — og rannsaka þá, því að engu síður þarf að rannsaka raunverulegar fasteignir og annað lausafé. En frs. er þannig útbúið, að öllum er augljóst, að þeir, sem vilja fela eignir í fasteignum, eiga auðvelt með það samkv. ákvæðum frv. Ég skal taka hér dæmi til að skýra þetta. Það er alkunna, að margir, sem hafa skotið fjármunum undan skatti, hafa komið þeim þannig fyrir, að þeir hafa ráðizt í húsbyggingar, og eru þær síðan færðar á skattaframtöl á lægra verði en þær hafa kostað. Ef hús kostar eina millj. kr. raunverulega, en eigandinn segir, að það kosti 800 þús. kr., þá getur hann falið 200 þús. kr. Þessum manni er því gefinn kostur á að fela þessar 200 þús. kr., og þarf hann ekki að greiða skatt af þeim í ríkissjóð, og ekki er hann heldur skyldaður til að kaupa verðbréfin. En annar maður, sem grætt hefur 200 þús. kr. og ekki falið þær í byggingum eða öðru, en hefur lánað þetta fé og keypt veðskuldabréf, hann verður nú að fara með þetta fé og kaupa ríkiskuldabréf til þess að fá kvittun fyrir skattsvikum. Þessir tveir aðilar sýna því, að ákvæðin bitna misjafnt á mönnum. Það sama er að segja um mann, sem hefur grætt á sama hátt, en hefur farið þá leiðina að kaupa lausamuni, svo sem vélar o. s. frv. Þá má hann reikna með að sleppa við eignakönnunina samkv. frv., vegna þess að hann fær að telja þessar eignir á lægra verði en þær raunverulega kosta.

Þannig eru ákvæði frv. ósanngjörn og koma misjafnt niður á mönnum. En þegar þetta er borið saman við það sjónarmið að leysa menn úr skattsvikaklípunni, þá passar þetta. Margt annað má tilnefna um þetta frv. T. d. það, að þeir, sem hafa svikið undan réttu framtali, muni — og er enda auðvelt fyrir þá — sleppa undan mörgum ákvæðum frv. Í frv. er gert ráð fyrir því, að menn séu ekki neyddir til að kaupa ríkisskuldabréfin af fyrstu 15 þús. kr. En ef maður á 100 þús. kr., getur hann farið þá leið að dreifa þessu fé á fleiri aðila, t. d. börn sín, og með slíkri útþynningu á eignum er auðvelt að komast hjá ákvæðum frv., og mun enginn efast um, að margir munu sleppa á þann hátt. Svo skiptir hitt miklu máli, að það er mjög auðvelt að útþynna öll ákvæði frv. með framkvæmd l., því að það er allt á valdi fjmrh. og nefndar þeirrar, sem hann skipar, hvernig framkvæmdinni verður háttað, og því vitum við lítið um, hvaða ákvæði verða hörð í framkvæmdinni og hver ekki, enda sagði hv. frsm. meiri hl., að framkvæmdin yrði að vera góð, og ætti það að vera undirskilið í frv. Slík ákvæði eins og það, að ráðh. og n. skuli vera heimilt að láta fara fram eignatalningu, eru óskýr, og er þá öll framkvæmd á valdi ráðh., og hefði verið skýrara og einfaldara að segja, að skylt væri að láta fram fara eignatalningu.

Ég verð að segja, að mér finnst, að með flutningi þessa frv. leggist harla lítið fyrir ýmsa, sem mest hafa skrifað og talað um nauðsyn eignauppgjörs og aðgerðir í því sambandi. Ég minnist þess, að meðan Framsfl. var í stjórnarandstöðu, gat að líta í blaði flokksins, Tímanum, allhávær orð um nauðsyn þess, að eignakönnun yrði látin fara fram, og nauðsyn þess, að ríkið tæki í sínar hendur verulegan hluta af stríðsgróða þeim, sem lausbeizlaður væri. Nú standa forsvarsmenn þessa flokks að því að leggja fram slíkt frv. eins og það, sem hér liggur fyrir, þar sem ekki er minnzt á, hvað ríkið muni fá í tekjur við framkvæmd laganna. Það er því gert að algerðu aukaatriði, en hitt að aðalatriði, að veita mönnum syndakvittun fyrir að hafa brotið skattal., sem einn af aðalmönnum Framsfl. hefur hælt sér af í tíma og ótíma, að hann hafi staðið að að fá samþ. hér á þingi, en nú stendur hann að frv. um eignakönnun, til að menn geti komizt undan ákvæðum gildandi skattalaga. Svipað má segja um afstöðu Alþfl. Hann stendur að flutningi þessa frv. á þann hátt að eyðileggja með öllu möguleikana til þess, að í framtíðinni sé hægt hér á landi að láta fram fara víðtæka allsherjar eignakönnun meðal landsmanna, þannig að hægt sé að segja með réttu, að fram hafi farið þannig mat á eignum manna, að ekki verði um það deilt, að hlutföllin milli eigna einstaklinga í þjóðfélaginu séu nokkurn veginn þau í skattaskýrslum, sem þau eru í reyndinni. Nú er sem sagt búið að eyðileggja þessa hugmynd með því að segja: Nú er búið að fara þessa leið. Það er búið að setja lög um eignakönnun, en það eru þá l., sem veita mönnum fyrirgefning fyrir sínar skattsyndir á undanförnum árum.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði hér fyrir skömmu, og eftir að hann hafði „kritíserað“ frv. í mörgum greinum og lýst yfir, að það væri ekki í samræmi við þær till., sem hann hefði staðið að að gera um eignakönnun í hagfræðingan., og lýst yfir, að þetta frv. væri þannig úr garði gert, að hann gæti ekki stutt það, þá þótti honum þó nauðsyn að kasta að Sósfl. nokkrum hnútum og tala um, að okkar afstaða til málsins væri alleinkennileg. En ég vil spyrja hv. þm. um það, þar sem um svo mikilvægt mál er að ræða, hvort honum finnist það ekki skipta miklu máli, að þessi möguleiki verði ekki eyðilagður á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir, heldur verði fresturinn fram til hausts notaður til að undirbúa frv., sem betur uppfylli þá möguleika, sem ég vænti, að hann og fleiri, sem hafa hugsað um eignakönnun, hafi ætlazt til, að notaðir yrðu við setningu slíkra l., heldur en að eyðileggja þann möguleika með því að láta slíka lagasetningu ná fram að ganga, sem hér liggur fyrir.

Þessi hv. þm. reyndi að gera tortryggilega okkar afstöðu til þessa máls með því að segja, að við værum sífellt á móti því, sem kæmi frá hæstv. ríkisstj., og nefndi sem dæmi, að við hefðum ráðizt á þetta frv. frá hægri, eins og hann komst að orði, sem sagt, að við hefðum bent á, að sum ákvæði frv. bitnuðu hart á smærri aðilum. Ég vil benda honum á, að sjálfsagt lítur hann einnig svo á, að öðrum tökum beri að taka þann skattsvikna pening eða eignabreyt., sem orðið hefur á undanförnum árum með því, að honum hafi verið skotið undan skatti, að það beri að taka hann vægari tökum í þeim tilfellum, þar sem eignabreyt. þessara manna stafa meir af vantöldum eignum undanfarinna ára en vantöldum tekjum. Þetta minntist hann á, og þetta er það sama og við höfum bent á, en til þessa er ekki tekið tillit í frv., og þetta kemur til með að bitna á hinum smærri, og ég hygg, að það sé ekki sá skoðanamunur milli okkar og hans, sem hann vill skrúfa upp, líklega til að fá kvittun hjá sínum samflokksmönnum fyrir því, að hann væri ekki á stefnu komma í þessu máli. Miklu frekar sýndist mér, að það væri hér um að ræða, að hann væri að reyna að skrúfa upp úr sér einhverja sérstöðu, heldur en að slík sérstaða væri til.

Eins og ég hef fram tekið, þá lít ég svo á, að þeim höfuðtilgangi, sem eignakönnunarfrv. var ætlað að ná, verði á engan hátt náð með þessu frv. Ég hef líka sýnt fram á, að frv. leiðir til þess, að mjög misjafnlega verður tekið á ýmsum þegnum, sumir verði hart úti, en aðrir sleppi að mestu leyti. Og svo vil ég bæta því við að síðustu, að ég tel það harla lítinn ávinning að veita þá syndakvittun, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sérstaklega meðan ekki er svo um búið, að telja megi víst, að eftirleiðis verði útilokað, að menn skjóti tekjum sínum undan skatti, heldur séu nokkurn veginn sömu möguleikar og áður til að draga undan skatti, eftir að þessi syndakvittun hefur verið veitt, hjá vissum einstaklingum og fyrirtækjum, á sama tíma og aðrir verða að greiða fullan skatt af öllum sínum tekjum. Það hefði kannske komið til greina að veita mönnum einu sinni uppgjöf saka, ef um leið væri girt fyrir, að þeir gætu haldið áfram á sama hátt og undanfarið að brjóta skattalögin.