21.05.1947
Neðri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

255. mál, eignakönnun

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Ég ætla sérstaklega að ræða þau atriði, sem fram hafa komið í umr., og sný mér fyrst að hv. 4. þm. Reykv. (GÞG). Vil ég taka það fram, að ég get verið hv. 4. þm. Reykv. algerlega sammála um þá lýsingu, sem hann gaf á frv., á göllum þess og hve ófullkomið það væri. Býst ég við, að við séum sammála um það, að þegar þetta frv. er borið saman við þá eignakönnun, sem hagfræðingarnir gerðu ráð fyrir í áliti sínu, þá sé mjög hæpið að kalla það eignakönnun, sem frv. gerir ráð fyrir. Satt að segja hefur hv. 4. þm. Reykv. lýst göllum frv. miklu nákvæmar en ég gerði í framsöguræðu minni. Þarf ég í raun og veru ekki annað en að vísa til ræðu hans hvað það atriði snertir, hvílíkur óskapnaður þetta eignakönnunarfrv. væri, sem hér liggur fyrir. Hann sannaði það svo rækilega, og flokksbróðir hans, hv. frsm. meiri hl., reyndi ekki að hrekja annað úr ræðu hans en það, að hann taldi það ekki rétt hjá hv. 4. þm. Reykv., að bréf væru í umferð, sem væru óháð skattaeftirlitinu, en gætu haft siðspillandi áhrif, eins og hv. 4. þm. Reykv. hélt fram, að mundi vera. Hann benti á það sérstaklega, að hagfræðingarnir hefðu lagt á það áherzlu og talið það vera skilyrði fyrir því, að eignakönnunin yrði að gagni, að hún færi fram fyrirvaralaust eða með sem minnstum fyrirvara. Benti hann á; að búið væri að ræða um þessi mál, síðan hæstv. ríkisstj. ákvað að framkvæma eignakönnunina, og síðan eftir að þetta hefur verið lögfest, getur liðið allur tíminn til 31. des. þ. á., þar til hin raunverulega eignakönnun fer fram. Hef ég heyrt margar raddir um það, að sjálfsagt væri að láta þetta eignakönnunaruppgjör fara fram um leið og næsta skattaframtal eða miða við 31. des. Þetta sýnir manni, að eitt veigamikið atriði í undirbúningi og framkvæmd eignakönnunarinnar, sem hagfræðingarnir gengu út frá, á að þverbrjóta. Virðist hér beinlínis eiga að gera ráðstafanir til þess, að menn fái tækifæri til þess að lagfæra hjá sér, áður en til þess kemur, að menn þurfi að telja fram.

Hv. frsm. meiri hl. vildi halda því fram, að það væri ofsagt hjá mér, að ýmis fyrirtæki gætu með ýmiss konar bókfærslutilfærslum og brellum gefið skýrslur um peningaeign, verðbréfaeign og bankainnstæður sínar. Það skal hins vegar viðurkennt, að eftir því sem fyrirtækin hafa skemmri tíma upp á að hlaupa, þeim mun erfiðara er þeim að koma slíku við, en eftir því sem þau hafa lengri tíma upp á að hlaupa, þeim mun auðveldara. Það er alkunnugt, að sum fyrirtæki hafa tvenns konar bókhald: annað fyrir skattaframtal til þess að sýna skattanefndinni, hitt, sem er raunverulega rétta bókhaldið. Kom það fyrir fyrir 2 árum, að fyrirtæki eitt í Reykjavík varð fyrir þeirri slysni að afhenda skattan. rétta bókhaldið. Ég tel, og það kom að ýmsu leyti fram hjá hv. 4. þm. Reykv., að það sé þessi frestur í frv., sem geri það gersamlega kraftlaust. Það er staðfest í frv., að það á ekki að framkvæma eignakönnun á hinum ríku, sem mest hafa grætt á undanförnum árum. Hv. 4. þm. Reykv., sagði, að í frv. væri gengið mjög rækilega til verks gagnvart peningaeign og verðbréfaeign, en hvað snertir rekstrarfé, þá væru því miður ekki eins ýtarleg ákvæði í frv. og æskilegt hefði verið. Þetta er það, sem ég hef verið að leggja áherzlu á, og þetta er ástæðan fyrir því, að ég tel það til vansæmdar fyrir hv. Alþ. að samþykkja frv. eins og það, sem hér liggur fyrir, og að skárra væri að framkvæma enga eignakönnun en eins og hér er verið að fyrirskipa.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að það væri aðallega í 3 atriðum, sem þetta frv. um eignakönnun væri frábrugðið því, sem hagfræðingarnir í áliti sínu hefðu talið rétt vera. Í fyrsta lagi hefðu hagfræðingarnir gengið út frá því, að eignakönnun yrði framkvæmd í því skyni að skattleggja stórgróðann. Hins vegar er frv. einmitt byggt á þeirri forsendu að gera þeim mönnum kleift, sem stærstar hafa tekjurnar og telja ekki rétt fram til skatts, að koma þessum gróða sínum fyrir á þann hátt, að samræmzt geti lögunum. Það er sem sagt þveröfugt við það, sem hv. 4. þm. Reykv. taldi rétt að gera í þessum efnum. — Í öðru lagi ætti að gera tilraun til þess að koma upp um öll skattsvik. Í þessu frv. er hins vegar gengið mjög misjafnt að mönnum í þessum efnum, og hef ég áður lýst því. Loks ætti að gera eignakönnun fyrirvaralaust, en eins og ég lýsti áðan, er í frv. gert ráð fyrir mjög löngum fresti, áður en hún kemur til framkvæmdar. Í þessum þrem höfuðatriðum er frv. þannig í hrópandi andstöðu við það, sem hv. 4. þm. Reykv. telur undirstöðu undir eignakönnun, en þó lýsti hann því yfir, þegar hann var búinn að rekja þessi atriði, að hann mundi ekki greiða atkv. móti frv., heldur ætlaði hann sér að sitja hjá við afgreiðslu þess. Þessi síðasta yfirlýsing hans var í svo mikilli hrópandi mótsögn við alla hans ræðu, að mig stórfurðar á, að slíkt geti komið fram frá jafngreindum manni og hann er. Býst ég þó við, að þarna ráði mestu um, að hann vilji ekki falla í of mikla ónáð hjá máttarvöldum síns flokks og þess vegna vilji hann heldur draga sig í hlé en berjast fyrir réttum málstað með okkur sósíalistum. Að lokum taldi hann sér þó nauðsyn á að veitast að okkur sósíalistum — og þó sérstaklega að mér — fyrir þá afstöðu, sem við höfum tekið, og lagði mikla áherzlu á, að hann vildi eignakönnun, þótt frv. gerði að vísu ráð fyrir henni á annan veg en hann hefði hugsað sér. Þess vegna mundi hann ekki verða á móti frv., og skildist mér það vera aðallega fyrir þá sök, að í fyrirsögn frv. stæði eignakönnun. Ég vil hins vegar enga eignakönnun hafa, ef á að framkvæma hana eins og frv. gerir ráð fyrir, og er miklu minni spilling í því.

Þá las hv. þm. upp þáltill., sem flokkur hans lagði fram á þingi 1945, en það stóð fram á 1946, og var þeirri till. útbýtt 13. apríl þ. á., en þinginu lauk 29. apríl. Ég held, að hv. þm. hefði ekki átt að minnast á þá till., því að hún er flokki hans sízt til sóma. Ætla ég hér að lesa upphaf hennar upp, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa 5 manna mþn. til þess að gera tillögur um sérstakan skatt á stórgróða, sem fallið hefur í hlut einstaklinga og fyrirtækja á stríðsárunum, og gagngerða eignakönnun í því sambandi. Jafnframt skal n. endurskoða ákvæði tekjuskattslaganna um skattfrelsi varasjóðstillaga hlutafélaga, sem ekki reka framleiðslustarfsemi.“ — Till. þessi kom einu sinni á dagskrá, og Alþfl. hafði ekki svo mikið við till., þótt hann væri stjórnarflokkur, að sjá um, að hún væri rædd. Till. fór aldrei í n. og var aldrei afgr. En til hvers var till. borin fram? Hún var borin fram til þess, að hægt væri að flagga með henni í kosningum þeim, sem áttu að verða nokkrum vikum síðar, og einn af þeim mönnum, sem sérstaklega hlaut það verkefni að reka áróður á grundvelli þessarar till., það var einmitt hv. 4. þm. Reykv. (GÞG), sem var efsti maður á lista Alþfl. hér í Reykjavík og lagði höfuðáherzlu á það í öllum sínum ræðum fyrir kosningarnar, að nauðsynlegt væri að leggja skatta á stórgróðann. Nú hefur hann verið kosinn á þing, ekki hvað sízt fyrir sína skeleggu baráttu fyrir því að vilja leggja skatta á stórgróðann. Hann er meðlimur í flokki, sem stendur að frv. því, sem hér liggur fyrir, sem ekki einasta gerir ráð fyrir að skattleggja stórgróðann, heldur opnar mjög rúman gang fyrir stórgróðann til þess að hverfa, þannig að hann getur óáreittur sloppið fram hjá þessari eignakönnun. Svo kemur þessi hv. þm. inn á þing og segir: „Ég ætla ekki að greiða atkv. um þetta mál. Ég ætla að sitja hjá.“ Þarna sér maður baráttu þessa manns fyrir framkvæmd þeirra stefnumála, sem hann var kosinn á þing fyrir. Ég hefði í sporum þessa hv. þm. ekki sagt eitt einasta orð. Ég hefði valið aðferð hæstv. menntmrh., er allra manna mest á öllum þingum, síðan hann kom á þing, hefur talað um skatta- og tollamál, en segir nú ekki orð og lætur ekki sjá sig í salnum.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að afstaða okkar sósíalista - og sérstaklega mín — byggist á því, að við vildum afla okkur fylgis meðal hinna óánægðu millistétta gegn eignakönnuninni. Þetta eru náttúrlega rök, sem alltaf má bera fram. Til hvers var hann að halda hrókaræður fyrir síðustu kosningar um að skattleggja stórgróðann? Til hvers var hans flokkur að bera fram þessa þáltill. á Alþ., sem hann lét ekki samþykkja, um það að undirbúa löggjöf um skattaálagningar á stórgróðann? Var ekki verið að reyna að afla fylgis? Og út af fyrir sig er ekkert við það að athuga, þótt menn reyni að afla góðu máli fylgis, en þegar menn eru búnir að lofa að fylgja fram góðu máli, þá er aðalatriðið að standa við það.

Ég get sagt hv. 4. þm. Reykv. það, að við sósíalistar munum aldrei ganga inn á frv. um eignakönnun, sem gerir ráð fyrir, að eignakönnun fari fram gagnvart almenningi í landinu, en öllum stórgróðamönnum í landinu sleppt, og hann getur kallað það hvað sem honum sýnist. Það, sem mestu máli skiptir er, að þetta er stefna flokksins, og hann mun ekki víkja frá henni. — Þá sagði hv. 4. þm. Reykv. það, að ég hefði haldið því fram, að það ætti að sleppa almenningi við eignakönnun, en framkvæma hana aðeins hjá hinum ríku. Ég sagði, að það væri minnst ástæða til þess að framkvæma eignakönnun hjá hinum smærri, ástæða væri til að framkvæma eignakönnun gagnvart stórgróðanum. Þetta var tilgangurinn í byrjun, og það hefði verið í alla staða æskilegast, ef hægt hefði verið að framkvæma eignakönnunina á þann hátt að sleppa hinum smærri, sem vitað er, að hafa lítið af sér brotið, hvað þetta snertir. Aðalatriðið er, að eins og frv. er, þá er hinum ríku gert mögulegt að sleppa við eignakönnun, og þar með vil ég heldur láta sleppa hinum smærri og hætta við alla eignakönnun.

Þá sagði hv. 4. þm. Reykv., að ég ætlaðist til þess, að samin væru lög, þar sem fram kæmi í senn mildi og strangleiki gagnvart skattsvikurum. Það sagði ég ekki beinlínis, en hann segir, að þetta sé óframkvæmanlegt. En ég vil bara benda á, að þetta hefur ríkisstj. tekizt. Henni hefur tekizt að búa til frv., sem er bæði milt og strangt, frv., sem er milt við stóreignamenn og braskara, en strangt við þá, sem eiga peninga eða verðbréf. Og þetta; segir hv. 4. þm. Reykv., að sé óframkvæmanlegt, þetta, sem ríkisstj. hefur tekizt svo dásamlega með því að snúa hlutunum algerlega við. En mér finnst það gremjulegt að láta stórgróðamennina komast svona út úr skattsvikafeninu með frv., sem heitir eignakönnun, en láta þá, sem engir svikarar eru, bíða hið mesta afhroð eða leita náðar hjá stjórninni og játa synd sína. En ég vil undirstrika það, að ég þakka hv. 4. þm. Reykv. fyrir hina ágætu gagnrýni hans á frv., og ég teldi mikils vert, að sú ræða yrði birt almenningi, og það sem flestum, og það er alveg augljóst, að hann hefur hugsað mikið um þessi mál og er vel að sér í þeim. En hitt var svo í algerðu ósamræmi við rök hans gegn þessu frv., að veitast að mér og Sósfl. fyrir okkar afstöðu til þessa frv.-skrípis, sem hann er búinn að rífa niður sjálfur.

Þá eru það nokkur atriði út af því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði. Það er greinilegt, eins og ég benti á áður, að hv. Alþfl. ætlar sér að komast „billega“ frá þessu máli. Nál. er einar 2 prentaðar línur, það er árangurinn af rannsókn n., og framsöguræðan stóð í nokkrar mínútur, og seinni ræðan ber þess líka greinileg merki, að hann vill sem minnst um þetta tala, en ég vil taka það fram, hv. þm. V-Ísf. til verðugs hróss, að hann var ekki meðflm. að þáltill. hv. Alþfl. fyrir kosningarn2.r í fyrra, en allir hinir 6 þm. flokksins voru flm. hennar. Þó að hv. þm. V-Ísf. mæli með þessu frv., er það ekki í ósamræmi við hans fyrri yfirlýsingar. Þessa vildi ég láta getið í þessu sambandi. Hv. frsm. gengur út frá því sem gefnu, að þetta frv. sé samkomulagsatriði og það sé ekki í sínum verkahring að gera brtt. við það, enda mun það réttast hjá honum að ræða þetta mál sem minnst. Hann furðaði sig á því, hv. frsm., að þrátt fyrir það, hve mikið skrifstofubákn þetta yrði, þá vildi ég láta ganga enn lengra. Rétt er það, að það mundi auka starfsemina stuttan tíma, ef til vill 1–2 daga. En úr því að farið er að byggja þetta bákn upp, er það óafsakanlegt að gera enga raun verulega eignakönnun, en elta ólar við smærri framteljendur, sem ekki geta smogið möskva þessa frv., en sleppa öllum þeim, sem eitthvað verulega hafa grætt, enda er lögð áherzla á það, bæði af hæstv. fjmrh. og frsm. meiri hl. n., að ekki sé að vænta neinna verulegra tekna í ríkissjóð af framkvæmd þessa frv. Rök fyrir þessu dýra bákni eru því minni, því minni tekjur sem líkur eru til, að það færi í ríkissjóð. Þá hélt hv. frsm. því fram, að ekki væri hægt að skjóta miklu undan með bókhaldsbrellum. Ég býst nú við, þó að ég á engan hátt vilji lasta hv. þm., að hann þekki þessar reglur, en maður með minni menntun getur ekki komizt hjá því að kynnast þeim, svo að ég þarf engar fullvissanir frá hv. þm. V-Ísf. um, að slíkar reglur séu ekki til. Það má sem dæmi nefna, að mörg fyrirtæki hafa tvöfalt bókhald, annað fyrir skattaframtölin og hitt rétt, og það hefur komið fyrir, að skattan. hefur verið afhent vitlaust bókhald, sem gaf miklu meira upp en skattskýrslan. Þetta veit hv. þm. V-Ísf., enda er það almennt vitað, að svona er farið að. Hv. frsm. sagði, að ég teldi það höfuðókost frv., að komið væri upp um skattsvik, er næmu nokkrum hundruðum eða þúsundum hjá mönnum, sem hefðu orðið það á að gefa of lítið upp til skatts, telja ekki fram smáupphæðir, en sleppa stórgróðamönnunum. Það er rétt, ég tel þetta óhæfu. Það vita allir, að hver sá maður, sem á allt að 100 þús. kr., á ekki meira en fyrir íbúð sinni, og sé þetta af þeim tekið, geta þeir ekki haldið sinni íbúð, enda kom það fram í n., að svo gæti farið, að gengið yrði að húseignum manna, húsum, sem þeir hafa varið öllum frístundum sínum til að koma upp, og eiga svo ekki annars kost, ef þeir vilja halda þessari eign sinni, en að knékrjúpa stjórninni og biðja um náð. Það er rangt hjá hv. frsm., að ég sé ánægður með frv., af því að ég flyt engar brtt. Ég tel frv. svo mikla fjarstæðu, að það sé gagnslaust að vera að flytja brtt. við það og sé bezt að kappkosta að krefja stjórnina um betra frv. og réttlátara, ef hún ætlar út í eignakönnun. En það er lítið vit í því að reyna að gera einhverja breyt. við frv., sem er tóm vitleysa og hrópandi ranglæti. En annars mun ég athuga fyrir 3. umr., hvort ég sé mér fært að flytja nokkrar brtt., en ég flutti dagskrártill. núna til þess að gera mitt til, að þessi smán yrði stöðvuð. Hv. frsm. var að tala um það, að ég hefði kvartað yfir því, hvað þetta mál hefði tafizt, en þó vildi ég tefja það enn meir. Ég vil benda hv. þm. á það, að það er alls ekki víst, að málið tefðist, þó að dagskrártill. mín yrði samþ. Það er ekki ákveðið, hvenær framtalsdagurinn verður, það getur dregizt til 31. des. Ef till. mín yrði samþ. og hagað sér eftir henni, þá tæki það einn dag að framkvæma þessa hluti. Ég vil einnig benda hv. þm. á það, að í Danmörku var eignakönnunin samþ. á einni nóttu í þinginu og framkvæmd daginn eftir, og svo var það búið. Það er því fullkomlega óvíst, að það yrði til að tefja málið, þó að till. mín yrði samþ., ef hagað væri sér eftir henni. Þá sagði hv. frsm., að þetta mundi skapa eðlilegt ástand í fjármálum. Kaupgeta mundi minnka, og þar með mundi verðgildi peninga hinna ríku verða meira. En þá er bara það að athuga, að þeir ríku sleppa, og ég hygg, að braskið hér í Reykjavík muni blómstra með enn meiri ofsa en áður. Þegar braskararnir hafa fengið svona gott tækifæri til að sleppa „billega“ frá skattsvikunum, þá kemst svo mikið fjör í braskið, að við höfum aldrei séð annað eins. því að þá verður hægt að spenna bogann hátt upp, þegar stórgróðamennirnir sleppa lausir frá þeim ótta að verða gerðir upp. Ég held þess vegna, að þetta verði ti1 að brjóta niður allan „móral“ : skattaframtölum, hann er núna slappur, en hann mun stórum versna við svona aðgerðir. Ég get vel trúað, að ýmsir stuðningsmenn hæstv. stjórnar telji þetta höfuðkost frv., menn, sem telja, að hverjum beri að svindla sem mest og græða sem mest og hljóta þá meiri ívilnanir frá löggjafanum. Þetta frv. mun því ekki auka skattasiðferðið. eins og hæstv. fjmrh. vildi halda fram. Þá hefur þessu frv. verið líkt við skattal. frá 1927. Nei, það eru gersamlega óskyldir hlutir. Ég tel, að það hafi komið greinilega fram í þeim ræðum, sem fluttar hafa verið, sérstaklega hjá hv. 4. þm. Reykv., að allt, sem ég sagði, var rétt. Þessi eignakönnun er á þá smærri, en sleppir þeim stóru, og er því engin eignakönnun, sem er fólgin í því að kanna og skattleggja stórgróðann.