21.05.1947
Neðri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

255. mál, eignakönnun

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Það eru aðeins örfáar aths. Það hefur komið fram, að þetta frv. skattleggi ekki nema litlar tekjur. Ég skal geta þess, að ég flutti ekki till. um að breyta þessu vegna þess, að ég tel, að með breyt. á skattal. 1943. þegar lagður var á stríðsgróðaskattur, hafi verið farið svo langt, að lengra sé ekki hægt að fara, og veit ég ekki, hvernig hægt er ofan á það að bæta, enda skattstigi okkar mjög hár. Varðandi eftirlitið skal ég geta þess, að einn flokksbróðir hv. þm. Siglf. bar fram 1944 frv. um eignaraukaskatt, þar sem svo er ákveðið, að við ákvörðun eignaraukningar skuli farið eftir framtölum skattþegna, eins og skattan. hefur frá þeim gengið við álagningu tekju- og eignarskatts. Þegar form. Sameiningarfl. ber fram frv. um skattlagningu stríðsgróðans, ætlar hann að byggja á framtölunum, svo að það er nú það sama sem stjórnin ætlar að gera nú. Og hún mun áreiðanlega ekki láta neitt eftir liggja, til að þessi framtöl verði sem réttust. Þá vildi ég benda á það, að það er alls ekki sambærilegt, ástæðurnar til eignakönnunar hér og í Danmörku. Þar voru það ólöglegar tekjur, sem ná þurfti í, en hér var öðru máli að gegna, hér voru tekjurnar ekki ólöglegar, þær voru fullkomlega löglegar, það sem ólöglegt var, var að telja þær ekki fram til skatts, en þær voru ekki fengnar með landráðastarfsemi. Þá er einnig á það að líta, að í Danmörku tapaði ríkið um 200 millj. á hernáminu, en við fengum allt borgað upp í topp, hvert einasta handarvik. Þessu má ekki rugla saman. Og þó að skapazt hafi allháar fúlgur hjá sumum, þá er það fé þó í atvinnulífinu, a. m. k. það, sem útgerðarmenn hafa fengið, og þó að þeir hétu braskarar fyrir stríð, eru þeir nú orðnir valinkunnir sómamenn, á hverjum ekki finnst blettur né hrukka. Skal ég svo ekki orðlengja þetta frekar.