21.05.1947
Neðri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

255. mál, eignakönnun

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Herra forseti. Um það atriði, sem hv. síðasti ræðumaður spurði um, hvort nokkrar framtíðaráætlanir væru uppi um það, að sparisjóðsinnistæður og bankainnistæður verði skráðar á nafn, þá get ég ekki svarað fljótlega um það. Hæstv. fjmrh. hefur lýst þv5 yfir, að hann muni leggja fyrir næsta þing frv. til l. um fullkomna endurskoðun á núverandi tollalöggjöf, og má vera, að þessi atriði komi þá til meðferðar. Hitt væri þá ekki nema eðlilegt eða eðli málsins samkvæmt, að gera slíka almenna breytingu á almennum skattal. í því frv., því að þetta frv. á einungis við eignakönnun og fyrirskipar ekki nafnskráningu nema í sambandi við eignakönnunina sjálfa.

Um hitt atriðið, hvort ekki sé hætta á því, að raskist eitthvað með starfsemi bankanna af þeirri ástæðu, að Landsbankinn fari með sölu bréfa, þá vil ég taka það fram, að ég hef rætt við viðkomandi ráðh. og reyndar fleiri í stjórninni um það, hvernig þeirri framkvæmd muni verða hagað, og mér hefur skilizt, að Landsbankinn eigi að vísu að hafa einn með höndum sölu bréfanna, en að sjálfsögðu selji hinir bankarnir og sparisjóðirnir einnig bréf, en þeir gera svo upp við Landsbankann, sem er umboðsmaður ríkisvaldsins í þessu efni.

Ég hef einnig rætt við ráðh. um það, hvort t. d. sparifé yrði fært milli stofnana, og ég hef fengið þau svör, að það yrði reynt að stuðla að því, að þar sem féð er úttekið til verðbréfakaupa, þar verði það geymt áfram á reikningi ríkisins. Það er ekki skylda ríkisvaldsins að geyma allar sínar innieignir á sama stað, og þar sem eignirnar eru til orðnar á þennan hátt, þá er sjálfsagt að raska ekki neinu jafnvægi á milli bankanna þannig, heldur fái hver banki endurgoldið það fé, sem hann hefur geymt áður, þó að það sé fært yfir á reikning ríkisins. Ég sé, að hæstv. fjmrh. er viðstaddur, og vil ég taka hans þögn sem samþykki um. að svo verði, og sömuleiðis, að við höfum átt þetta samtal saman.

Ég skal svo aðeins geta þess í sambandi við það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði um ákvæði 17. gr., að 25 þús. kr. fyrir stríð væru miklu meiri peningur en 15 þús. kr. nú, og það er alveg rétt, en það, sem gerir úrslitin í þessu máli, er, að ef þessar 25 þús. kr. eru til nú, þá eru þær orðnar svipaðar hverjum öðrum 25 þús. kr.

Út af síðustu ræðu hv. frsm. minni hl. vil ég taka það fram, að meiri hl. n. vill leggja áherzlu á það, að eignakönnuninni verði beitt að svo miklu leyti sem hægt er að framkvæma hana, og ef ekki er hægt að byggja á framtölum manna, þá verði þessum ákvæðum l. beitt skilyrðislaust.