22.05.1947
Neðri deild: 137. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

255. mál, eignakönnun

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég vildi aðeins segja fáein orð og skal ekki verða langorður. Síðasti ræðumaður var hneykslaður yfir því, hve linlega væri farið fram gegn þeim stóru. Hann er nú nýlega kominn úr stjórnarsamstarfi stjórnar, sem átti að dreifa stríðsgróðanum, og var lýsing gefin af því hér, að milljónerar væru nú orðnir yfir hundrað, og allir vita, hvernig þeir hafa skapazt. Þessi hv. þm. var hneykslaður yfir því, að þeir, sem gefi rangt upp, skuli sleppa betur en þeir, sem gefa rétt upp. Þessi þm. hefur nú verið hér riðinn við stjórnmálin undanfarið, og hann veit það, þó að hann sé að þrátta, að mönnum er annaðhvort ætlað að kaupa skuldabréf með 1% vöxtum og borga ekki af þeim eignum eða telja fram eigur sínar. Fyrir tveim árum flutti þessi hv. þm. frv. um að láta fara fram eignakönnun, en talningin átti að byggja á framtölum, sem fyrir lágu, án þess að frekari eignakönnun færi fram. Var það ekki löghelgun skattsvika? Hann upplýsir, að boðin skuli út skuldabréf og þeim gefinn fullkomlega upp skattur, sem kaupa þessi skuldabréf. Hér stendur ekki neitt slíkt til. Jafngóður stærðfræðingur og þessi þm. er veit, að hér er ekki um neina smáræðis eignaupptöku að ræða. Hitt er annað mál, að með þessu er ekki hægt að gera hverjum einstaklingi að greiða allt, sem hann hefði átt að greiða á undanförnum árum, og það er af því, að á meðan þessi hv. þm. studdi stjórnina, þá var svo auðvelt fyrir marga að koma tekjum sínum undan, að það eru engir möguleikar á að ná til þessa fjár, þannig að það verður aldrei hægt að skapa fullkomið jafnrétti. Hann segir, að ef hann hefði ráðið í landinu, hefði hann haft frv. um eignakönnun öðruvísi en hér liggur fyrir, en hér er gert ráð fyrir að leggja sérstakan skatt á þær eignir, sem koma fram við þessa eignakönnun. Þm. (SigfS) fjölyrti hér um skuldabréfaútgáfuna og deildi aðallega á það, að með þessu kæmist prófun ekki að, en þetta er það, sem Framsfl. hefur gengið inn á, til þess að eignakönnunin gæti átt sér stað, og ennfremur hefur flokkurinn gert ráð fyrir að tryggja með 17. gr., að ekki verði gengið eins hart að þeim, sem minna hafa dregið undan. Nú er að vísu sitt hljóðið í hvorum þeirra, þm. Siglf. (ÁkJ) og þessum hv. þm. (SigfS), en ég skal ekki fara út í það, en það, sem m. a. hefur verið fundið að, er það, að ekki væri allt reiknað með, sem vangreitt væri. Ég vil í því sambandi benda á það, að í hagfræðingaálitinu er rætt um eignakönnun, og þar er gert ráð fyrir, að ef eignakönnun færi fram, mundi þurfa að gera sérstakan „skala“, en ekki mundi verða hægt að rannsaka hvert einstakt dæmi aftur í tímann, og þessi leið er framkvæmd með skuldabréfaleiðinni, en ekki framkvæmd að því leyti að krefjast þess, að reiknað sé, hvað hver persóna um sig ætti vangoldið. Einn af þeim, sem skrifaði undir hagfræðinga-álitið, er hagfræðingur frá Sósfl. Af þessu sjáum við, að flestir, sem um þetta hugsa, hafa verið á einu máli um það, að það yrði að setja sérstakar reglur, þegar uppgjörið færi fram.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja þessar umr. Ég vildi segja þessi orð um þá samninga, sem hafa verið gerðir um þessar framkvæmdir, og ég hika ekki við að lýsa því yfir sem minni skoðun, að þetta frv. er til stórkostlegra bóta frá því, sem nú er. Að mínum dómi var hægt að gera þetta frv. betur úr garði, en þetta mál er samningsmál og ber þess merki, en það situr illa á hv. 6. þm. Reykv. að deila hér á menn fyrir að ganga linlega fram, þegar verið er að reyna að bæta úr því, sem þeir hafa að gert í þessum efnum, og þegar vitað er um þeirra uppástungur og framkvæmdir, þegar þeir geta einhverju ráðið.