22.05.1947
Efri deild: 141. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

255. mál, eignakönnun

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Þetta frv. um eignakönnun, sem farið hefur í gegnum hv. Nd. að mestu leyti eins og það var lagt fram af ríkisstj., er eitt af þeim málum, sem lagt er fram samkvæmt samningi um stjórnarmyndun. Það er mikið búið að tala hér á landi og lengi um nauðsyn á því, sem kallað er eignakönnun, og sérstaklega svo sem hún hafi verið talin nokkurs konar þjóðarnauðsyn. M. a. má benda á, að í áliti þeirra hagfræðinga, sem hafðir voru til ráðuneytis stjórnarflokkunum í vetur, er mikið farið inn á þetta mál. Einnig finnst mér, að það hafi komið nokkuð greinilega í ljós við umr. í Nd., að ýmsir þeir, sem voru ákafastir að hrópa á þetta mál, virðast hafa nú miklu minni áhuga á því, að það sé lögfest, og virðast hafa allt á hornum sér. Og gildir þetta jafnt um þá, sem hér telja of skammt gengið, og um hina, sem telja gengið of langt. Það er vitanlega alltaf matsatriði, hvað er rétt í því efni. Fer það vitaskuld eftir því, hverjar skoðanir menn hafa á sjálfu hugtakinu. Nú, svo er ekki að neita, að það hefur skinið í gegn við umr. í Nd., að viðhorf manna til mála og stjórnarflokka hafi áhrif á afstöðu þeirra í þessu sérstaka máli. Ég skal ekki að þessu sinni fara ýtarlega út í það. En andmælin gegn frv. voru svo margvísleg og svo mismunandi í þessu máli, að þegar kom út í hita við 3. umr., þá héldu sumir fram skoðun, sem braut alveg í bága við það, sem þeir höfðu haldið fram við 2. umr. Sérstaklega tel ég það koma skýrt fram af því, sem snertir þá menn, sem hafa komið undan eignum sínum í húsbyggingar. Við 1. umr. taldi einn andmælandi frv., að þeir, sem lagt hefðu vinnu og fé í hús, færu sérstaklega illa í þessu máli. Var tekið undir þetta af flokksbróður hans. Þegar svo var komið til 3. umr., þá hélt sami höfuðandmælandi því fram, að þeir, sem hefðu sett fé sitt í hús, slyppu. Hús voru þá utan við línuna. Hið sama sagði annar, sem hélt því fram, að þeir, sem lagt hefðu fé í fasteignir, slyppu við allt mótlæti, slyppu alveg við eignakönnun. Þetta bara sýnir, hvað andmælin eru mikið á rökum reist, hvað eitt gat verið góð latína við 1. og 2. umr., en var ómögulegt við 3. umr. Okkur hér á landi ætti að verða litið til útlanda. Þegar menn hér tala um eignakönnun, ættu þeir að líta til Noregs og Danmerkur, en þar hafa farið fram svipaðar ráðstafanir eftir stríðið og verið þar talið mikið nauðsynjaverk. En þetta hefur verið notað sem rökstuðningur fyrir því, að hér á Íslandi þyrfti líka að framkvæma sams konar aðgerðir og sópa saman eða ná í stríðsgróðann. Þetta getur þó aldrei verið rökstuðningur fyrir því, að hér á landi væri farið út í eignakönnun. Því þeir peningar, sem þar söfnuðust á margra manna höndum, það voru blóðpeningar, teknir frá þjóðinni sjálfri af fjandsamlegu herveldi og greiddir aftur fyrir þá þjónustu, sem þessir menn veittu hinu erlenda ríki. Það er því ekkert undarlegt, þótt Danir og Norðmenn gerðu út leiðangur gegn þeim mönnum, sem söfnuðu saman dönskum og norskum þjóðbankaseðlum í hundruð þúsunda tali, sem Þjóðverjar höfðu pressað út úr þessum þjóðum. Það er ekkert undarlegt, þó að ríkisvaldið geri alveg einstæðar ráðstafanir til þess að ná í þessa peninga og láta gjalda hæfilega sekt eða skatt. En þetta dæmi á ekki við hér. Því þeir peningar, sem komu hér inn í landið, voru t. d. laun verkamanna eða andvirði fyrir íslenzka fiskinn. Og svo eru önnur rök, sem eru enn nærtækari en þetta, og það er, að fé er dreift um landið í ýmsum eignum, sem ekki hefur verið talið fram til skatts. Nú um mörg ár hefur verið talað um það, hvað féð skili sér illa til skatts. Því verður víst ekki andmælt, þó að það sé kallað meinsemd í þjóðfélaginu, þetta ólag á skattheimtunni. Það mun vera í mörgum tilfellum um það að ræða, að fé sé haldið undan skatti. En svo hefur líka í mörgum tilfellum verið, að mönnum, sem átt hafa eignir, hefur verið brigzlað í þessu efni og því haldið fram, að þeir neyttu allra undanbragða til að svíkja undan skatti, án þess að menn viti það með vissu. Hitt held ég, að menn geti verið sammála um, að reynt verði að koma á breytingu á þessu hér á landi. Með þessu frv. er nú verið að gera ráðstafanir til þess, að menn geti talið fram það, sem þeir sjálfir hingað til kynnu að hafa dregið undan, og til þess að menn framvegis dirfist ekki að koma með óhrein framtöl, og af þeim ástæðum líka neyddir til að halda áfram að hafa framtölin ekki mjög röng. Líka er það vitað, að skattalöggjöfin er ekki vinsæl hjá þjóðinni, og hefur verið sagt, eg ég tel það ekki með óréttu, að skattalöggjöfin muni í mörgum tilfellum kalla fram undanbrögð á framtali. Mætti sjálfsagt lengi tala um þessi mál, um það ólag, sem á þeim er, og meint brot og þá líka, hvernig skattalöggjöfin verkar á siðferðiskennd manna í þessu efni. En ég tel óþarft að ræða það frekar.

En þessi er ástæðan hjá ríkinu fyrir því að setja þessa löggjöf um eignakönnun, og að þess verði a. m. k. freistað að fá hreint loft, þ. e. a. s. koma heilbrigðu skipulagi á þessi mál. Því að ef lokatilgangur frv. næst, er mikið unnið. En hann er sá að gera mönnum kleift að standa réttar gagnvart þessu máli heldur en hingað til og enn þá er. Nú, svo er og þess að gæta, að ríkið á kröfu á því að fá til sín það fé, sem hefur verið dregið undan og skylt er að greiða. Og þessi þörf er ekki minni nú, þar sem um er að ræða svo margvíslegar og auknar framkvæmdir og mikla aðstoð, sem það opinbera veitir. Það er þannig full þörf ríkinu að ná inn fjármunum, sem það að öllu leyti á með réttu samkv. gildandi lögum.

Það eru þrjár leiðir til þess, eins og lýst hefur verið í blöðum og umræðum. Það eru þrjár leiðir opnar fyrir almenning í þessu máli til þess að koma framtölum sínum á hreint og gjalda keisaranum það, sem hans er. Sem sé fyrst kaup á ríkisskuldabréfum og festa féð í allt að 25 ár. Önnur leiðin er sú að telja fram til skattyfirvaldanna undandregnar eignir og greiða af þeim vangoldinn skatt samkv. gildandi skattalögum án sekta. Svo er sú leiðin, sem 17. gr. frv. ræðir um og á nú sennilega við um mikinn fjölda fólks og einkum og sér í lagi þá, sem sparað hafa saman, þ. e. a. s. það yrði nú á dögum kallað lítið fé, og er samkv. þeirri gr. farið vægt í sakirnar við þetta fólk. Það er vitað, að í þeim hópi er margt gamalt fólk, sem af misskilningi og vanþekkingu hefur vanrækt að telja fram þær eignir og peninga, sem það kann að hafa nurlað saman, en að vísu munu sumar upphæðirnar stærri, og það getur líka átt við þá, sem við talsverð efni búa. En það hefur verið álitið rétt að fara vægt í sakirnar við þann fjölda, sem þar stendur að máli. Enda kom fram í n. rökstudd gagnrýni á þessari gr. Því hefur og verið haldið fram, að hér væri fólkinu gert sérstaklega erfitt fyrir. Þetta er mjög rangt. Það er reynt að láta það fólk sleppa vægilega. Nú, þeir, sem dragið hafa undan skatti, eiga þarna kost á að gjalda skatt, þar sem þeir eiga að fórna 4/5 af þeim vöxtum, sem þeir hafa t. d. af verðbréfum. Það er líka annað mál að missa algerlega vexti í staðinn fyrir 4–5 prócent, sem nú mun gilda um flest verðbréf.

Ég skal svo ekki fjölyrða um málið frekar. Ég geri ráð fyrir, að í þessari hv. d. komi fram svipuð sjónarmið sem í Nd. Ég vildi að lokum mælast til þess, að frv. verði vísað til fjhn. og 2. umr.