22.05.1947
Efri deild: 141. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

255. mál, eignakönnun

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða mjög um þetta mál, en vil þó segja um það nokkur orð, um leið og það verður afgr. frá Alþ. Ástæðan til þess, að ég sé ekki, að það þýði að ræða um málið verulega, er sú, að það er vitað að um málið er samið í því formi, sem það liggur fyrir. Ég vil þá fyrst og fremst segja það við hv. þm. Barð., að þessar fullyrðingar hans, sem maður sér ekki ástæðu til að svara að jafnaði, um stefnu flokka, í þessu tilfelli Framsfl., — það sem hann sagði um það, er vitanlega misskilningur á því, sem er sjónarmið Framsfl. í landsmálum. Framsfl. hefur ekkert á móti því, að menn séu vel efnum búnir, og hefur aldrei haft. Hann mun hvergi geta fundið það í stefnu Framsfl., að hann hafi neitt á móti því. Hins vegar hefur Framsfl. ímugust á vissum tegundum stórrekstrar, sem hann álítur, að geti haft hættuleg áhrif á þjóðfélagið og valdið röskun, sem því er skaðleg. Ég skal ekki fara inn á þetta nánar, því að það er vitanlega ekki rétt að blanda almennum umr. um stefnur flokka inn í þetta mál. En ég vil segja það um eignakönnunarmálið, að það, sem hv. þm. var að finna að þessu frv., að þeim aðfinnslum getur hann fyrst og fremst beint gegn sínum eigin flokki, því að þetta er fyrst og fremst mál Sjálfstfl. Ef honum finnst ekki farið nægilega vel með innistæðueigendur í bönkum, þá getur hann beint geiri sínum þangað, en ekki til Framsfl.

Það er alveg satt, að samkv. þessu frv., ef það verður að lögum, þá eru ýmsir menn, sem eiga peninga í bönkum, ekki vel settir, og það er verr að þeim búið en ýmsum öðrum, því að þetta frv. er fyrst og fremst hagstætt þeim, sem hafa stórrekstur, stórbyggingar og miklar vörubirgðir, og það er vitað mál, að þessir menn hafa aldrei haft fé í bönkum, heldur hafa þeir að jafnaði notað rekstrarfé bankanna — það fé, sem almenningur hefur lagt til með því að leggja það inn í sparisjóð.

Ég veit, að ég þarf ekki að skýra það fyrir þessari hv. d., að þessir aðilar hljóta að vera bezt varðir samkvæmt þessu frv., og ég mun ekki sjá ástæðu til þess að fara inn á skýringar um þessi atriði, en ef því verður mótmælt, þá mun ég sjá mér fært að rökstyðja það þannig, að erfitt verði að hrekja með rökum.

Það er vitað mál, eins og ég sagði áðan, að um þetta mál er samið. Það var talsvert mikið deilumál í þeim samningum, sem fram fóru milli flekkanna um stjórn og málefnasamning, og það var eitt af þeim málum, sem var sett að skilyrði, að yrði leyst á þann hátt, sem fyrir liggur. Ég hef alltaf verið á móti því, að málið yrði leyst á þann hátt, sem hér er gert. Ég hef meira að segja reynt, eftir að samið var um málið, að koma því til vegar, að málinu yrði frestað og það afgr. á einn eða annan hátt síðar, en þess var heldur ekki kostur að koma því til vegar, enda hefði það sjálfsagt kostað samstarfsslit, þar sem um málíð var samið.

Ástæðan til þess, að ég er málinu mótfallinn eins og það er afgr., er sú, sem ég skal nú skýra að nokkru. Í fyrsta lagi eru þær ástæður, sem ég færði fram í upphafi máls míns, um það atriði, hverjum þetta frv., ef að l. verður, kemur fyrst og fremst niður á. Ég álít, að það sé gert of auðvelt fyrir ýmsa menn, sem eiga eignir sínar í fasteignum, byggingum eða vörubirgðum og stórrekstri, að sleppa fram hjá ákvæðum frv., ef að l. verður. Það má segja, að það sé auðvelt fyrir fleiri, því að það leiðir af hlutarins eðli, að með því að afgreiða málið á þennan hátt — með þeim frestunum, sem ákveðið er í frv. — þá er einnig flestum gert mögulegt að sleppa. Og það er rétt, sem hv. þm. Barð. tók fram, að það er ekki mikils árangurs að vænta af þessu máli í framkvæmd. Ég held, að árangurinn af þessu máli í framkvæmd verði fyrst og fremst sá, að valda röskun og glundroða nú á þessu tímabili, sem fresturinn verður gerður, og það er auðsætt, að það verður aldrei hægt að framkvæma eignakönnun með því að gefa frest fyrir fram. Nú er eignakönnun sama og rannsókn, og það mundi þykja einkennileg aðferð hjá þeim, sem ætlaði sér að rannsaka mál, ef hann gæfi út tilkynningu um það með þriggja mánaða fyrirvara, hvernig hann ætlaði að fara að því að framkvæma könnun. Það er hætt við því, að þetta valdi mikilli hræðslu og röskun hjá þeim aðilum og mönnum, sem ekki eru það útsmognir, ef svo má segja, að hafa lag á því að sjá leiðir til þess að komast fram hjá l., og þeir munu sjá ýmsar leiðir til þess að koma peningum sínum í eitthvað annað, sem er þjóðinni mjög skaðlegt og hættulegt. Ég á hins vegar von á því, að með því að gefa þennan frest muni þetta fara svo, að það verði sáralítið keypt af skuldabréfum. Upphaflega var það tilgangurinn með þessu frv. að ná lausu fé, sem lægi falið, og fá það sem veltufé til framkvæmda fyrir ríkissjóð og að öðru leyti til að nýbyggja atvinnuvegina. En ég á von á því, að það komi lítið inn af þessum peningum. Hver sæmilega glöggur maður sér, að með þessum fresti er raunverulega boðið upp á aðrar leiðir, sem eru óhafandi fyrir þjóðfélagið, — ég ætla ekki að nefna þær, en þær eru svo margar, að það getur ekki farið fram hjá nema fáum mönnum að sjá þær. Það er mjög hætt við því, að fjármagnið, sem fólkið er hrætt um, leiti inn á þessar leiðir og þetta tímabil verði eitt mesta röskunar- og óreiðutímabil í okkar fjármálum. — Ég hef alltaf talið og tel enn, að það hefði átt að fara þá leið að skipta um seðla, — það hefur oft verið gert og er sérstaklega auðvelt nú. Það mætti t. d. strax á morgun skipta um seðla fyrirvaralaust, og það mætti eftir örfáa daga kalla inn öll skuldabréf og kanna þau. Þetta er fyrsta og mikilvægasta atriðið í sambandi við eignakönnun. Það er talið, að það muni vera 70–80 millj. kr. falið í peningum hjá hinum og þessum, sem ekki er nauðsynlegt að hafa í umferð, og þó er ekki auðvelt að segja um, hvað peningaveltan hefur aukizt mikið með eðlilegum hætti. En þetta var hægt að fá upplýst með því að láta einhvern morguninn, þegar minnst varði, fara fram rannsókn á þessu atriði. Skráning bréfa mátti líka fara fram fyrirvaralaust. Með þessu móti voru fengin fram tvö mikilsverð atriði. En jafnframt mátti líka á eftir láta fara fram strangt eftirlit með vörubirgðum og vörutalningu og rannsókn á fasteignum, því að það er vitað mál, að þar hafa ýmsir fest peninga sína, eftir því sem menn álíta, og án þess að þar hafi öll kurl komið til grafar við skattaframtal. Með þessu móti, einkanlega að framkvæma tvö fyrstu atriðin fyrirvaralaust, þá var þetta búið. Með þessu mætti vara fólkið, sem annars verður hrætt og notar þennan þriggja mánaða frest og gerir margvíslegar ráðstafanir, — með því að losa það við þessa hræðslu og gera málið hreint. Ég hef alltaf talið ófært að gefa mönnum þennan frest. Og það er víst, að menn grípa til margvíslegra ráða. Ég held, að það sé mjög illa farið, og reynslan mun sanna það, að ekki var farin sú leið, að ákveðið væri, hvernig mæta ætti skattsvikum. Láta svo eignakönnun fara fram og ljúka á skammri stundu. Þá var þjóðfélagið laust við þær afleiðingar, sem ég annars tel, að eignakönnun þessi muni hafa í för með sér um leið, röskun og glundroða, jafnframt að það fari saman, að hún verði tilgangslaus. Þjóðfélagið mun verða mjög viðlíka nærri því markmiði að verða fjármálalega hreint þjóðfélag eins eftir og áður.

Að lokum vil ég segja það, að ég hygg, að flestir okkar líti svo á, að ekki verði komizt hjá því innan stundar, og það ekki dregið of lengi, að gera ráðstafanir til þess að breyta okkar fjármálastefnu, — taka dýrtíðarmálin föstum tökum. Við sjáum, hvernig þingið hrekst undan þeim málum mánuð eftir mánuð um síðustu áramót. Hér hefur aðeins stefnt niður á við. Það hefur ekkert verið gert í þeim málum, þótt menn sjái fram á, að aðalframleiðsluvörur okkar seljast ekki á erlendum markaði nema fyrir 2/3 þess, sem við þurfum að fá fyrir þær. Ég hef alltaf litið svo á, að þau mál, sem greiða bæri úr, væru dýrtíðarmálin. Þau mál átti sannarlega að taka fyrir í sambandi við eignakönnunina. Við vitum sannarlega ekki of vel, á hvaða fjárhagsgrundvelli þjóðin stendur. Við vitum ekkert, hvaða röskun eignakönnun kann að valda hjá einstaklingunum. Eignakönnunin og lausn dýrtíðarmálanna áttu að fara saman. Síðan, þegar eftir eignakönnunina, lá fyrir, að þeir menn, sem komið hafði í ljós við eignakönnunina, að hafi stórfé aflögu, geri þjóðinni færara að leysa dýrtíðina. Og ég verð að segja, að þegar eignakönnuninni er lokið og dýrtíðarmálin óleyst, að þá gæti ég trúað því, að ríkisstjórnin teldi, að hún þyrfti verulegra fjárupphæða með, þegar leysa á dýrtíðarmálin. Það er tvímælalaust eðlilegast, að þessi tvö mál fari saman, af þeirri ástæðu, að vegna þeirra fórna, sem færa þarf, þegar breytt er um fjármálastefnu, verður að krefjast mikils fjármagns, og ætti þá fyrst og fremst að taka það þar, sem féð hefur safnazt fyrir. Og í annan stað er það ljóst mál, að fjármálastefna sú veldur röskun á efnahagnum, og því eðlilegt, að þetta fari saman.

Ég skal svo ekki fjölyrða meir um þetta mál. Ég harma mjög, að málið skuli afgr. á þennan hátt, því eins og ég sagði áðan, mun það hafa mikla röskun og glundroða í för með sér, en árangur í þá átt að kynnast, hverjar eignir manna munu vera, lítill eða enginn, og þjóðin jafnnær um eignir, sem ætlazt var til að ná í með þessari eignakönnun.