23.05.1947
Efri deild: 145. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

255. mál, eignakönnun

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Við höfum lifað á sérstökum efnahagslegum tímum í þessu landi nú undanfarin ár, og því væri ekki úr vegi, að menn fengju að vita, hvar þær eignir, sem allir vita að hafa skapazt á þessum árum, eru niður komnar. Sú vitneskja er mikilvæg að mjög mörgu leyti, en ég hygg, að hennar yrði ekki aflað með öðru en almennri eignakönnun, en hún þarf að vera m. a. þannig, að þeir, sem raunverulega eru ekki skattsvikarar, verði ekki stimplaðir sem slíkir. Því miður er ég hræddur um, að sú eignakönnun, sem hér er fyrirhuguð með þessu frv., verði með þeim hætti, að vart verði hægt að treysta, sérstaklega hvað það snertir, að menn munu finna leiðir til þess að draga fjöður yfir skattsvik sín, svo að þjóðfélagið fái ekki vitneskju um, hvar eignirnar eru meðal þjóðfélagsborgaranna. Að einu leyti er ég samþykkur anda þessa frv. Ég held það sé bezt, að eignakönnunin sé á pappírnum heldur mild en ströng. Ég held það skipti meira máli, að niðurstaðan verði rétt með tilliti til framtíðarinnar, sem byggir á þessum niðurstöðum, heldur en hún reynist strangur refsidómur út af afbrotum, sem drýgð hafa verið á undanförnum árum. Ég held, að ef skattsvikin eru eins stór og af er látið, sem ég efa, þá sé þetta ekki síður þjóðfélaginu og stjórninni að kenna en borgurunum, sem hafa freistazt til að svíkja undan skatti. Framkvæmdin hefur verið það laus í böndunum og eftirlitið með skattal., að menn hafa ekki talið það neina áhættu að svíkja undan skatti. M. a. þess vegna hafa skattsvikin orðið svona almenn. Ég tel því ekki rétt að koma með eignakönnun, sem fyrst og fremst væri þungur refsidómur yfir borgarana út af skattsvikum, sem þeir hafa gert sig seka um. Ég álít því, að ákvæði frv. gegn þeim, sem hafa svikið skatt lítið, séu væg, þar sem af 45 þús. kr. þurfa þeir aðeins að borga um 3000 kr. En það er lægri upphæð en ef þeir hefðu talið rétt fram á hverjum tíma. Að öðru leyti þurfa þeir, sem telja fram meira en 45 þús., að borga af því samkv. gildandi skattal. Ég get ekki tekið undir það, að tekið sé of miskunnarlaust á hinum smærri skattsvikurum. Hins vegar getur ranglætið verið í því falið, að stóru skattsvikararnir geta komizt hjá því að leggja pappírana á borðið. Ef svo reynist, getur þessi löggjöf orðið mikið ranglætismál. Ég er óánægður með það, hversu langur tími hefur liðið, síðan farið var að tala um að koma fram með þessa löggjöf. Og ég er líka óánægður með það, hversu langur tími líður, þangað til þessi löggjöf kemur til framkvæmda. Ég hygg, að þessi langi tími hafi verið notaður og muni verða notaður til að beita svikum í framhaldi af þeim svikum, sem framin hafa verið á undanförnum árum.

Þá eru nokkur atriði, sem mig langar til að spyrja um, hvort frv. taki til, og mér finnst máli skipta. Fyrst er það, hvernig ætlazt er til, að eignir félaga séu taldar fram við eignakönnunina. Við skulum segja, að hlutafélag hefur 100 þús. kr. hlutafé, en eignir þess eru upp á 10 millj. Hverjar verða eignir 5 aðila í félaginu, ef þeir ættu allir jafnt? Verður eignum í slíku félagi skipt niður milli eigenda, eða verður hlutafélagið eigandi eignanna, sem um er að ræða? Á hvað verða vörubirgðir metnar í eignakönnuninni? Verða eigendur slíkra vörubirgða að ákveða verðið sjálfir, eða verður settur opinber mælikvarði? Nú hefur þess mjög orðið vart í samtölum manna, að þess muni ekki vera kostur að kanna það, hvort vörubirgðir væru réttar fram taldar. Og virðist sem hugur margra stefni að því að koma sem mestu af skattsviknum eignum í vörubirgðir í skjóli þess, að hægt sé að tilgreina hæfilegt verð og draga fjöður yfir framin skattsvik. En væri ekki hægt að fyrirbyggja skattsvik í eignakönnuninni að þessu leyti með því, að í frv. væri ákvæði um það, að ríkið hefði heimild til að kaupa vörubirgðir á því verði, sem þær eru gefnar upp fyrir. Ég held ekkert sé í frv. í þessa átt. Þá langar mig til að vita um það, hvernig verð á hlutabréfum vel stæðra hlutafélaga verða metin. Þau geta verið í tíföldu verði. Svo geta önnur hlutabréf verið fyrir neðan nafnverð. Hvernig verður þetta í framkvæmdinni? Þá langar mig til að spyrja um það, hvort nokkrar ráðstafanir séu gerðar til þess að fyrirbyggja dreifingu eigna í því augnamiði, að lægri upphæðir komi á hvern einstakling. Eru nokkur ákvæði til að fyrirbyggja gjafir í þessum tilgangi, þar til eignakönnuninni er lokið. Verða svo nokkrar hömlur settar á kaup á skartgripum, sem hægt er að koma verðmæti í? Það held ég full ástæða sé að gera. Og að lokum þetta: Er nokkur mismunur gerður á því, hvort hér er um að ræða eignir, sem stafa af skattsviknum eignum, eða eignir, sem stafa af skattsviknum tekjum? Það er gefið mál, að ef um skattsviknar tekjur er að ræða, þá á að refsa strangar fyrir það en skattsviknar eignir. Mér virðist þarna enginn greinarmunur gerður. Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta. Ég vil vona, að frv. sé samið með það fyrir augum að fá vitneskju um það, hvaða eignir skattborgararnir eiga nú, svo að hægt sé að byggja á því í framtíðinni fyrir þjóðfélagið og þessir menn geti ekki komizt undan sköttum á komandi árum. Og ég vona, að framkvæmdin verði með þeim hætti, að betur sé af stað farið en heima setið. En verði þetta til þess, að skattsvikin geti haldið áfram eftir sem áður, þá verður þetta meiri sorgarsaga en menn gera sér í hugarlund.