23.05.1947
Efri deild: 145. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

255. mál, eignakönnun

Frsm. meiri hl. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Aths., sem komið hafa frá tveim ræðumönnum varðandi frv. þetta um eignakönnun, beinast aðallega að smærri ágöllum þess, eða hvort hægt sé að komast fram hjá ákvæðum laganna. Það hefur hvorki mér né öðrum sennilega komið til hugar, að þótt þessi l. væru sett, þá kæmu öll kurl til grafar. Ég hygg það sé ofvaxið öllum að setja reglur, sem tryggja það. Hitt er svo vafalaust rétt, að menn eru misjafnlega settir eftir því, í hverju eignir þeirra eru. Það er augljóst mál, að þeir, sem eiga mest í peningum eða verðbréfum, eiga erfiðara með að draga undan en þeir, sem hafa lagt fé í húseignir, eða þeir, sem eiga eignir sínar í ýmsum tækjum og vörubirgðum og þar fram eftir götunum. Hins vegar er það ákaflega stórkostlegur misskilningur, sem kom fram hjá hv. 4. landsk., að þeir, sem ættu peninga í verðbréfum, væru fátæklingar. Það er ekki vafi á því, að ýmsir auðugustu menn landsins eiga mestar eigur sínar í verðbréfum. Það er vitað mál, að að því leyti, sem þeir kynnu að hafa dregið þarna undan, þá standa þeir ekki betur að vígi en aðrir. En setjum sem svo, að maður hafi lagt fé í verksmiðju og ýmiss konar tæki. Þá er ákaflega erfitt að henda reiður á því, hvað í raun og veru hefur verið lagt í þessa hluti. Hins vegar er kannske ekki svo mikil tilhneiging hjá mönnum að gera stofnkostnað minni en hann í raun og veru er, af því að meira og minna af þessum fjárútlátum, sem þeir verða fyrir í þessu sambandi, kemur á rekstrarreikning. Og vitanlega reyna allir að teygja útgjöldin til rekstrarins eins langt og fært er, þar sem rekstrargjöld dragast frá tekjum. Það er vitanlega mjög erfitt að hafa eftirlit með framtali á vörubirgðum, svo að fullnægjandi sé. Það má vera, að svo sé, að skattayfirvöldin eigi heimtingu á því að fá að vita, hvaða verð er lagt á vöruna. Hitt er geysilega erfitt, að ganga úr skugga um það, hvort vörumagnið er rétt fram talið. Og mér er ljóst, að þótt þessi l. yrðu framkvæmd eins samvizkusamlega og mögulegt væri, þá gæti enginn fullyrt, að ekki væri skotið einhverju undan rannsókn. Það er ekki viðeigandi að lýsa því, hvernig það ætti að gerast. Það mætti skoðast sem leiðbeining um það að sniðganga l., enda er það óþarft. Hver maður, sem hugleiðir þetta, sér, að hér eru til ýmsir möguleikar. En hins ber að gæta, að þótt menn komist fram hjá þessu eignaframtali, þá eru þeir ekki þar með komnir undan eftirliti skattayfirvaldanna. Og ef það kemst upp, að þeir hafa dregið fé undan þessu eignaframtali, þá liggja við því svo þungar refsingar, að það mundi ríða þeim mörgum að fullu. Af þeirri ástæðu mætti gera ráð fyrir því, að allir þeir menn, sem ekki vilja leggja sig í slíka hættu, hugsi sig um, áður en þeir skjóta sér undan þessu eignaframtali. Það gefur að skilja, að framkvæmd í þessum efnum hefur raunverulega miklu meira að segja en lagaákvæði, sem sett eru um það. Í 15. gr. frv. er ákvæði, sem gefur skattan. ákaflega mikið vald til þess að heimta skýrslur af mönnum um öll þau atriði, sem við koma eignum og máli skipta í þessu sambandi. Ég held þess vegna, að þótt einhverjir ágallar yrðu á þessu, þá yrðu þeir naumast að kenna því, að í löggjöfinni séu ekki nægileg ákvæði fyrir skattayfirvöldin til þess að komast eftir eignum manna. En sem sagt, mér er það fullljóst, að það mun fara svo, að einhverjar eignir verða dregnar undan framtali. En með löggjöf verður aldrei hægt að fyrirbyggja það. Út af fyrir sig er ekki eins hættulegt, þótt vörubirgðir séu skrifaðar mikið niður, af þeirri ástæðu, að það hlýtur að hefna sín seinna, nema því aðeins að bókhaldið sé falsað. Með því móti er alltaf hægt að laga framtöl í hendi sér. Hins er að gæta, að bókhaldsfölsun hjá fyrirtæki er enginn leikur. Það getur naumast nokkur atvinnurekandi, nema með því að taka í vitorð með sér fleiri eða færri af sínu starfsfólki. Og það munu ekki margir leggja sig í þá hættu.

Út af því, sem hv. 4. landsk. sagði um það, að hinir smáu yrðu að stimpla sig sem skattsvikara, þá er það ekki rétt. Hver maður hefur rétt til að verja fé sínu til kaupa á ríkisskuldabréfum. Er það gert til hags fyrir þá smáu, en ekki til að láta þá vera skör neðar en þá, sem mikið fé hafa dregið undan. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða um þetta. Hv. þm. hlýtur að sjá, að það er enginn möguleiki til þess, ef menn vilja verða þessara fríðinda aðnjótandi, annar en sá, að þeir geri skattayfirvöldunum aðvart um það, að þeir vilji nota sér þennan rétt, sem þeim er veittur. Hitt eru svo nokkuð stór orð, að þeir séu stimplaðir sem skattsvikarar. Ég verð að segja eins og er, að ég er viss um, að þótt maður hafi talið fram 15 þús. kr. minna en hann á, þá getur verið, að hann sé ekki skattsvikari. Það getur legið til þess t. d. það, að honum finnist hann vera búinn að gera skyldu sína, þegar hann er búinn að telja fram tekjurnar. Hins vegar mun ástæðan fyrir þessu fyrst og fremst vera sú, að menn vilja ekki láta vita, að þeir eigi eitthvað. En eignarskatturinn hefur aldrei verið svo hár, að hans vegna hafi menn ekki getað talið rétt fram. Og ég held, að þótt menn upplýsi nú þessa yfirsjón, þá missi þeir lítið af sinni þjóðfélagslegu virðingu eða aðstöðu í þjóðfélaginu. Ég held, að það sé þá ekki fleira, sem ræða hv. 4. landsk. gaf tilefni til að svara. En svo gerði 3. landsk. nokkrar fyrirspurnir. Í raun og veru vörðuðu þær ekki þessa löggjöf, sem hér liggur fyrir, heldur gildandi skattal. Ég veit ekki, hvort ég er svo vel að mér, að ég geti svarað spurningum hans að fullu. En að mestu leyti held ég, að ég geti það. Hv. þm. spurði, hvernig eignir hlutafélaga yrðu metnar, hvort þær væru metnar með nafnverði, hvort sem fyrirtækið er ríkt eða fátækt. Eignir hlutafélaga eru metnar á sama hátt og eignir einstaklinga. Hlutabréf eru einnig talin með nafnverði. Þau eru talin til skulda hjá hlutafélögunum og til eigna hjá eigendunum. Um þetta hefur staðið styr hjá skattayfirvöldunum. Þau hafa talið, að hlutabréf ættu að teljast fram með því verði, sem ætti á þeim að vera. Nú er það vafasamt, að hægt sé að meta hlutabréf með því að telja saman eignirnar og hins vegar hlutaféð, og hef ég alltaf skilið það svo, að ef hlutabréfin ættu að reiknast eigendunum með því verði, sem á þeim er, ættu þau að reiknast til skuldar hjá hlutafélögunum með því verði, sem á þeim er. Annars eru þau tvísköttuð, því að jafnaðarlega er það svo, að þar sem um gróðafélög er að ræða, er hlutaféð reiknað hærra, og þá er síður en svo hagur fyrir ríkissjóð að telja með raunverulegu verði á báðum stöðum, til eigna hjá eigendunum og til skulda hjá hlutafélögunum.

Þá spurði hv. þm., hvernig vörubirgðir yrðu taldar, og benti á hættuna á því, að þar sem viðskipti væru rekin, yrði notuð sú aðferð að auka vörubirgðirnar. Vörubirgðir eiga vafalaust að teljast á venjulegan hátt eins og við skattaframtal og setja á þær venjulegt verð, að sjálfsögðu lægra en útsöluverðið. En þar er ekki um neina sérreglu að ræða. Hættan af auknum vörubirgðum hygg ég, að ekki muni vera svo mjög mikil af þeirri ástæðu, að vöruflutningar til landsins eru litlir, og má gera ráð fyrir, að þeir verði það á þessu ári, og mun þess vegna ekki vera mjög þægileg aðstaða fyrir kaupmenn til að auka „lager“ sinn á þessu ári. Eftirspurnin er meiri en nokkru sinni fyrr, vöruþurrð er í mörgum verzlunum, margar tegundir vefnaðarvöru er mjög erfitt að fá, og efast ég um, að mikil hætta sé á, að kaupmenn geti dregið að sér vörur, svo að nokkru nemi.

Þá spurði hann, hvernig því væri varið með dreifingu á eignum, hvort mönnum væri gefinn kostur á að dreifa eignunum á fleiri hendur. Það er ákvæði viðvíkjandi börnum, því að aðalhættan liggur í því, að menn dreifi til barna sinna. En í sambandi við hitt, að menn fái vandalausa menn til þess að taka á sitt nafn t. d. þessar 45 þús. kr., þá mundu koma svo miklir erfiðleikar upp, þegar ætti að yfirfæra þær aftur, að hver skynsamur maður mundi hugsa sig um tvisvar, áður en hann gerði slíkt. Segjum, að hann tæki yfirlýsingu af manninum og svo félli hann frá. Hann ætti á hættu, að eignirnar yrðu gerðar upptækar og hann yrði líka að borga 200 þús. kr., svo að enginn heilvita maður mundi gera það. Hitt er annað, þegar um yfirfærslur til barna er að ræða, því að þá stendur foreldrunum á sama, þótt eignin yfirfærist ekki aftur. Undir þennan leka átti að setja með ákvæði í frv. í 12. gr. neðst, þar sem segir, að eign barns innan 16 ára aldurs, sem ekki hefur verið sjálfstæður framteljandi, teljist með eignum foreldra, nema sannað sé, að barnið hafi verið orðið eigandi fjárins fyrir 1. sept. 1946. Þetta er gert í varúðarskyni, ef menn skyldu; eftir að byrjað var að tala um þetta, fara að reyna að yfirfæra eignir sínar á nafn barnanna.

Þá spurði þm., hvort nokkrar hömlur væru lagðar á kaup á skrautgripum. Ég hygg, að það sé naumast hægt, en það er hið sama að segja um það og viðvíkjandi vörubirgðunum, að það er ekki mikil hætta á misnotkun í þessu efni þegar af þeirri ástæðu, að það verður ekki þægilegt að flytja inn mikið af skartgripum, nema þá með því að flytja þá inn í heimildarleysi, og undir þann leka hugsa ég, að aldrei verði sett. En aldrei verður þægilegt að draga undan á þann hátt, svo að nokkru máli skipti.

Þá spurði hv. þm., hvort gerður yrði munur á eignaaukningu, sem kæmi fram við hið sérstaka eignaframtal, sem stafaði af undandregnum eignum og undandregnum tekjum. Um þetta segir í 17. gr., að enginn munur verði gerður á 45 þús. kr. fyrstu, hvort þær hafa verið dregnar undan tekjuframtali eða eignaframtali. Það er alveg sérstök regla um það. Það er nokkurs konar „amnesti“, sem verður um þetta. Hins vegar ef það er svo, að maður hafi aðeins dregið undan eignaframtali, þá mundi hann geta látið leggja á sig samkvæmt gildandi skattalöggjöf, þannig að við bættist skattur af þessari fjárhæð. Það er heldur ólíklegt, að til kæmi um þetta. Þegar svo yfir 45 þús. kr. kemur, verður að rannsaka, hvort sú eignaaukning, sem fram kemur, hefur verið dregin undan tekju- og eignarskatti, og ef það kemur í ljós, á að leggja á eins og talið hafi verið fram á réttum tíma.

Ég held, að ég hafi þá svarað öllum þeim atriðum, sem hv. þm. minntist á. (HV: Hvernig er hugsað að ná til erlendra innistæðna?) Því er ekki hægt að svara nema með því, sem stendur í 15. gr., að það er hægt að krefjast skýrslna og spyrjast fyrir um, hvort um erlendar innistæður sé að ræða. Annars er alveg ljóst, að það gildir hið sama um það og um sumar aðrar eignir, sem hér hefur verið rætt um, að það getur verið mjög erfitt eða ómögulegt að grafast fyrir þær rætur. Ég held, að þótt við vildum fara þá leið að spyrja erlenda banka, að t. d. enskir bankar mundu ekki gefa það upp. (BrB: Er það upplýst?) Ég held það hafi verið spurt um þetta og enska stjórnin hafi neitað að gefa það upp. Bretar leggja meira upp úr því en nokkur önnur þjóð, að fullkominn trúnaður geti haldizt milli bankans og viðskiptamanna hans, og er það af því, að þeir hafa haft heimsverzlunina svo lengi, að þá skiptir miklu að hafa trúnað manna. Aftur hef ég heyrt, að Bandaríkin muni, ef þess er farið á leit af erlendum stjórnarvöldum, hlutast til um, að bankarnir gefi upp innistæður erlendra borgara. En þótt svo væri, er þetta ákaflega erfitt, því að bankarnir eru svo margir, og náttúrlega er leið til þess að búa þannig um hnútana, að með öllu sé ómögulegt að komast fyrir um þetta. Það er ekki ólíklegt, að einhver brögð séu að því, að menn eigi innistæður erlendis, en naumast er þar um stórar fjárhæðir að ræða. Það hefur verið þannig, síðan stríðið byrjaði, að allir vöruflutningar hafa verið „kontroleraðir“ af ríkisvaldinu, ekki aðeins hjá okkur, heldur einnig erlendis, svo að það er lítt hugsanlegt, að menn hafi dregið undan af útfluttum vörum. Það einasta, sem um er að ræða, er nokkur hluti af þeim umboðslaunum, sem kaupmenn hafa fengið greidd erlendis. Það sýnast vera þær einustu hugsanlegu erlendar innistæður, sem til séu í eigu hérlendra manna. Vitaskuld getur enginn sagt, hve mikil brögð eru að þessu, en hins vegar getur þetta ekki haft verulega fjárhagslega þýðingu.

Ég held svo, að það sé ekki fleira, sem ég hef um þetta mál að segja.