20.11.1946
Efri deild: 16. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

56. mál, almannatryggingar

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Eins og stendur í hinni stuttu grg. fyrir þessu frv., þá er það borið fram eftir beiðni félmrn. Frv. felur ekki í sér neinar efnislegar breyt. á l. um almannatryggingar, sem samþ. voru á síðasta ári, heldur er það borið fram, eins og stendur í grg., í því skyni að gera framkvæmanleg ýmis atriði, sem l. gera ráð fyrir. Tryggingaráð hefur fjallað um þessi atriði, og n. beggja d. hefur verið tjáð af forstjóra tryggingastofnunarinnar og form. tryggingaráðs og skrifstofustjóranum í félmrn., sem voru á fundi með n., að það væri sameiginlegt álit tryggingaráðs, að nauðsynlegt væri, að ríkisstj. fengi slíka heimild, sem hér er gert ráð fyrir varðandi framkvæmd þeirra atriða, sem frv. fjallar um.

Fyrsta atriði frv. er. að iðgjöld samkv. tilvitnaðri gr. verði á árinu 1947 innheimt með vísitöluálagi, er miðist við 300 stig. Í l. er ákvæði þetta þannig, að iðgjöld skuli innheimt með meðalvísitölu næsta árs á undan þ. e. a. s. iðgjöldin 1947 ættu að miðast við meðalvísitöluna 1946. Nú er það ekki vitað til fulls enn þá, hver hún verður, en tryggingaráð telur sér nauðsynlegt vegna undirbúnings innheimtunnar og annars, sem þarf að ganga frá nú þegar í sambandi við það, að geta ákveðið, hvert þetta álag verði, og fer þess vegna fram á, að í þetta sinn verði stjórninni heimilað að ákveða, að þessi gjöld skuli innheimta með vísitölunni 300. Má búast við, að meðalvísitala þessa árs verði kannske ekki alveg nákvæmlega þetta, en það getur ekki skeikað verulega. Hún verður áreiðanlega milli 290 og 300, og tryggingaráð hefur talið ekki ósanngjarnt, að miðuð verði við þessa tölu iðgjöld einstaklinga samkv. 107. gr. og iðgjöld atvinnurekenda samkv. 112. gr. og framlög sveitarfélaga samkv. 114. gr.

Annað atriðið, sem frv. fjallar um, er það, að skírteinisgjald, þ. e. a. s. það gjald, sem hinir tryggðu eiga að greiða samkv. l. fyrir tryggingarskírteini sitt, skuli á árinu 1947 vera 30 kr., jafnt fyrir alla, karla og konur. Í l. er ákveðið um þetta þannig, að karlar, 21 árs og eldri, skuli greiða 40 kr. fyrir skírteini, en konur og karlar yngri en 21 árs skuli greiða 25 krónur. Nú hefur tryggingaráð og þeir menn, sem gert er ráð fyrir, að annist innheimtuna fyrir tryggingastofnunina, talið það miklu torveldara hvað snertir innheimtu, að hafa tvenns konar gjald fyrir skírteinin og hefur lagt á það áherzlu, að gjaldið verði aðeins eitt, og er því hér lagt til, að í staðinn fyrir 40 kr. og 25 kr. verði farið þarna bil beggja. Upphæðin fyrir skírteinin mundi verða nokkuð svipuð því, sem l. gera ráð fyrir. Sömuleiðis var ákveðið í 1., að í fyrsta sinn skyldi afhenda hinum tryggðu skírteini þessi 1946, þ. e. a. s. almennu ákvæðin eru, að það skuli afhenda þau í janúar, en sú undantekning var, að í fyrsta sinn skyldi afhenda þau í desember 1946. Nú skilst mér, að undirbúningurinn undir þetta sé svo seint á ferðinni, að tryggingastofnunin telji sig ekki viðbúna að afhenda skírteinin í desember og óskar því eftir undanþágu frá því, þannig að þau verði í fyrsta sinn afhent í janúar 1947, og verður þá um leið krafizt fyrsta iðgjalds til tryggingastofnunarinnar.

Þá er þriðja atriðið, að iðgjöld samkv. 112. og 113. gr., sem lögð eru á með tekju- og eignarskatti 1947, skuli eigi innheimt, ef hlutaðeigendur hafa hætt rekstri fyrir árslok 1946. Það hefur við athugun þótt sanngjarnt, ef einhver aðili, sem haft hefur atvinnurekstur undanfarið og þá greitt til slysatrygginganna iðgjald vegna þeirra, sem hann hefur haft í vinnu, og slíkt gjald mundi þess vegna lagt á, eins og gert er ráð fyrir, með skatti á tekjur þeirra 1946, hættir atvinnurekstri og hefur á þeim tíma, sem gjaldið er lagt á, enga tryggingarskylda menn á þennan hátt í vinnu, þá verði hann ekki krafinn um iðgjaldið, og er þess vegna farið fram á heimild til að fella niður innheimtu á því, þar sem svona stendur á.

Í fjórða lagi er farið fram á, að vangreiðslur sjúkrasamlagsiðgjalda á árinu 1947 skuli varða skerðingu eða missi réttinda til sjúkrahjálpar á árinu 1948 samkv. 132. gr. Nú eru í l. ákvæði um það, að vangreiðsla á gjöldum til sjúkrasamlags varði réttindamissi, þ. e. a. s. að þeir, sem ekki standa í skilum um greiðslur á sjúkrasamlagsiðgjöldum, hafi ekki fullan og óskertan rétt til sjúkrasamlags samkv. l. En nú er gert ráð fyrir, að sjúkrasamlögin starfi ekki lengur en næsta ár, þ. e. a. s. árið 1947, en 1948 komi til framkvæmda 3. kafli tryggingarl. um heilsugæzlu. Í l. eru engin ákvæði um, að vanskil við sjúkrasamlag næsta ár á undan varði réttindamissi gegn tryggingastofnuninni í heild. Tryggingaráði þykir þess vegna nauðsynlegt að setja inn þennan varnagla í sambandi við yfirfærslu á réttindum manna frá sjúkrasamlagi til tryggingastofnunarinnar í heild, þegar kaflinn um heilsugæzlu kemur til framkvæmda 1948. Þetta er engin efnisbreyt., heldur aðeins ákveðið, að það sama skuli gilda fyrir tryggingastofnunina í heild og nú gildir um sjúkrasamlögin út af fyrir sig.

Þá er loks fimmta atriðið, að lágmarksiðgjald sjúkrasamlaga, annarra en skólasamlaga, skuli á árinu 1947 vera 5 kr. á mánuði. Í bráðabirgðaákvæðum l. er mælt svo fyrir, að á árinu 1947, þ. e. a. s. meðan sjúkrasamlögin starfa áfram, skuli heimilt að lækka almenn tryggingargjöld til tryggingastofnunarinnar um 30%, og er það hugsað þannig, að þessi hluti gangi til starfsemi sjúkrasamlaganna á því ári, en þó megi ekki lækka um meira en sjúkrasamlagsiðgjaldið á viðkomandi stað. Þetta þýðir það, að þar sem iðgjöld sjúkrasamlaga eru lægri en þessi 30%, þá mundi ekki mega taka meira en sjúkrasamlagsiðgjaldinu næmi, en það þýddi það, að sá hluti, sem kæmi til tryggingastofnunarinnar, yrði mismunandi á ýmsum stöðum á landinu. Þetta mundi gera innheimtuna fyrirhafnarmeiri, og tryggingaráðið hefur þess vegna talið nauðsynlegt, að með þessu ákvæði væru því gefnir möguleikar til að hafa þennan frádrátt jafnan alls staðar á landinu, þ. e. a. s. að hægt verði að draga frá öllum iðgjöldunum þessi 30% á hverju verðlagssvæði fyrir sig. Á þennan hátt yrðu það aðeins tvenns konar upphæðir, sem dregnar yrðu frá heildariðgjöldunum. Það munu vera nokkur sjúkrasamlög á landinu, sennilega öll á 2. verðlagssvæði, sem hafa gjaldið innan við 5 krónur, en þó að gert sé að skyldu að hækka gjaldið á þessum stöðum, þá hefur það engin áhrif á útgjöld einstaklinga til tryggingarinnar, því að þar sem gjaldið hækkar úr 3 kr. upp í 5, þar mundu viðkomandi aðilar greiða 2 krónum minna í gjald til tryggingastofnunarinnar. Heildarútgjöldin verða því alveg óbreytt, en það hefur aðeins áhrif á skiptinguna milli sjúkrasamlagsins og tryggingastofnunarinnar. Þetta mundi verða til hagsbóta fyrir starfsemi viðkomandi sjúkrasamlags, af því að það fær vegna þessara ákvæða stærri hlut af iðgjaldinu til eigin starfsemi, en minna, sem fer til tryggingastofnunarinnar í heild, og mundi þannig eflast fjárhagsgeta viðkomandi sjúkrasamlags, en ekki breytast heildarútgjöld hinna tryggðu til tryggingastofnunarinnar í heild.

Ég held, að ekki sé nauðsynlegt að gera frekar grein fyrir ákvæðum frv. Þetta er aðeins um framkvæmd á fyrsta ári trygginganna, en hins vegar ekki nein efnisbreyt. á l. sjálfum, því að að liðnu þessu fyrsta ári falla öll þessi atriði undir almenn ákvæði tryggingal., eins og vera ber. Eins og ég gat um áðan, þá mættu þeir aðilar, sem eiga að sjá um framkvæmd 1., á fundi hjá heilbr.- og félmn. beggja d., og voru báðar n. sammála um að mæla með því, að frv. yrði samþ. Frv. hefur nú verið afgr. í Nd. án nokkurra breyt. og fór þar gegnum d., án þess að það fengi frekari athugun í n. en það hafði gert á þessum sameiginlega fundi, og til þess að verða við óskum forstjóra tryggingastofnunarinnar að hraða sem mest framgangi þessa máls, þá vil ég mælast til þess við hæstv. forseta og d., að frv. gangi áfram, án þess að því sé vísað til n. Ég held, að ég megi segja það fyrir hönd n. í heild, að hún telur sig ekki þurfa frekar að athuga það en hún hefur þegar gert, en hún óskar eftir, að málið fái sem fljótasta afgreiðslu.