29.11.1946
Efri deild: 23. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Gísli Jónsson:

Þar sem þetta frv. er komið frá n. og fer ekki til n., vildi ég beina fyrirspurn til hæstv. ráðh.

Samkv. 1. gr. skal viðskiptaráð skipað 5 mönnum og 5 til vara, eins og í lögunum stendur, og skal svo vera til 1. febr. Nú vil ég vita, hvort þetta er hugsað svo, að sömu menn sitji í ráðinu sem þar eru. Mér er kunnugt um það, að allfast hefur verið sótt á ríkisstj. frá útgerðarmönnum að fá mann í viðskiptaráð. Að ekki hefur verið fastar eftir þessu sótt, stafar af því, að þeim var ljóst, að l. féllu úr gildi 1. des. En þeir munu ekki sætta sig við, að l. séu framlengd til 1. febr., án þess að kröfum þeirra sé sinnt. Þetta er réttlætiskrafa. Því að útgerðin skapar 80% af útflutningsverðmætum þjóðarinnar.

Í 2. gr. eru ákvæði um, að ráðh. geti ákveðið um það, hvaða vörur og frá hvaða löndum skuli þurfa leyfi eftir tillögum frá Sambandi íslenzkra samvinnufélaga og Verzlunarráði Íslands. Við þetta mun ég bera fram brtt. um, að Landssambandi ísl. útvegsmanna verði bætt hér við, nema ráðh. lýsi yfir, að hann muni leita álits þeirra jafnframt, þegar um slíkt er að ræða.

Það er vitað mál, að sjávarafurðir má selja háu verði í ýmsum löndum gegn því, að vörur þaðan séu keyptar í staðinn, og getur þetta haft mjög mikið að segja. Þannig má t. d. selja þunnildi til Ítalíu fyrir um 1 millj. kr., ef vörur þaðan eru keyptar í staðinn, og þá vöru er hvergi hægt að selja annars staðar, og sjá allir, hvaða þýðingu þetta getur haft fyrir sjávarútveginn. Og þannig er með ýmsar vörur. Inn á þessa braut var farið fyrir stríð, t. d. með viðskipti við Þýzkaland. Það er því nauðsynlegt, að þeir menn, sem starfa að framleiðslu fisks, hafi hér ítök. Ég mun því bera fram brtt. við 1. gr. um skipun ráðsins, nema ráðh. lýsi því yfir, að tekið verði fullt tillit til óska útvegsmanna, og svo við 2. gr., svo sem ég gat um.

Ég vil benda á, hvort ekki sé rétt að sameina þau ráð. sem hafa með út- og innflutning að gera, og vil benda fjhn. á að afgreiða ekki þann lið, fyrr en séð verður, hvort ekki getur orðið úr þessari samræmingu. Þessar nefndir eru nú þrjár, viðskiptaráð, nýbyggingarráð og samninganefnd utanríkisviðskipta, og til þessara starfa rennur enn þó nokkuð þungt gjald frá útveginum, án þess að séð verði, að til þess liggi bein nauðsyn.

Ég vildi spyrja hæstv. fjmrh., hvort ekki sé hægt að leggja samninganefnd utanríkisviðskipta niður og hvernig fjárhag hennar sé nú háttað. Varðandi brtt. frá Nd. vil ég benda á, að ef þetta er samþ. óbreytt, er nauðsynlegt að bæta inn nýju ákvæði. Ákvæðunum um endurgreiðslu á leyfisgjöldum, sem eigi eru notuð, þarf að breyta. Það er ekkert réttlæti að taka gjald af leyfum, sem af ófyrirsjáanlegum ástæðum geta ekki komið að notum, svo að endurnýja þarf leyfið, og að viðskiptaráð hafi þá leyfi til að neita um endurnýjun, en halda gjaldinu. Ég tel ekki ástæðu til að taka gjald af leyfum jafnhliða því, sem þau eru veitt, og mun ég bera fram brtt. varðandi það ákvæði, nema hæstv. ráðh. gefi þær upplýsingar, sem ég get sætt mig við.

Ég er ekki á sama máli og hv. 1. þm. Eyf. og hæstv. fjmrh., að ekki sé rétt að tímabinda l. Hæstv. ráðh., sagði, að það væri til þess að minna menn á l. Ég vil benda á, að ef þau eru ótímabundin, geta þau staðið áfram í gildi, án þess að hægt sé að fá þeim breytt, því til þess þarf meiri hluta í Alþ. Ég vil minna á, að á síðasta fundi í þessari hv. d. var brtt., sem var bæði réttlát og sanngjörn, felld með jöfnum atkv. En séu l. tímabundin, er þessi hætta að sjálfsögðu minni.