17.12.1946
Efri deild: 35. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

118. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur 1947

Flm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Með því að sýnt er, að fjárl. fyrir 1947 verða ekki afgr. fyrir áramót, þá er nauðsyn að veita heimild til þess í sérstökum l., að greiðslur fari fram úr ríkissjóði, og hefur hæstv. fjmrh. óskað eftir því, að fjvn. beitti sér fyrir því, að frv. um þetta efni yrði flutt. Hefur minni hl. n., sem á sæti hér í hv. d., orðið við tilmælum hæstv. ráðh. og flutt frv. á þskj. 226.

Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að upplýsa, að vegna þess að sú ríkisstj., sem nú situr að völdum, er aðeins til bráðabirgða, hefur ekki þótt rétt að afgreiða fjárlagafrv. til 2. umr., og það hefur aðallega tafið málið í n., sem að öðru leyti hefði reynt að koma málinu fram á réttum tíma.

Ég vil vænta þess, að þetta frv. verði samþ. Það er ætlazt til þess, þótt ekki sé það beint tekið fram í 1. gr., að undir „önnur gjöld“ falli einnig nauðsynleg útgjöld í sambandi við tryggingalöggjöfina, sem að vísu hafa ekki verið tekin upp nema að nokkru leyti á fjári. yfirstandandi árs, en eru tekin upp í 17. gr. fjárlagafrv. nú. Er ætlazt til þess, að ef þetta frv. verður samþ., þá feli það í sér það, að inna megi af hendi nauðsynlegar fjárgreiðslur vegna þeirra laga.

Tímatakmarkið hefur verið sett 1. marz, til þess að ugglaust væri, að ekki þurfi að endurnýja þessi l., vegna þess að telja má víst, að fjárl. verði afgr. innan þess tíma.

Ég tel ekki ástæðu til þess að senda þetta frv. til fjvn., til þess að málið tefjist ekki, því að nauðsynlegt er, að málið verði afgr., áður en jólafrí verður gefið.