18.12.1946
Neðri deild: 40. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

119. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla útlendinga o. fl.

Frsm. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir á þskj. 229, er flutt hér af fjhn. og var henni sent af hæstv. fjmrh., og hafa nm. óbundnar hendur um það. En ég held, að n. öll sé sammála um að mæla með meginefni þessa máls. — Þetta frv. er flutt af nokkuð brýnni nauðsyn, sem fram hefur komið við breyttar aðstæður hér á landi varðandi möguleika til að innheimta skatta og útsvör af útlendingum, og er framhald af fyrri l. um sama efni frá því í haust, en þetta frv. er á ýmsan hátt ýtarlegra vegna þess, að fram hefur komið, að ákvæði þeirrar löggjafar, sem nú er í gildi um þetta efni, náðu ekki nógu langt, til þess að þau næðu tilgangi sínum.

Það er aðalatriði breyt. þessara á l. frá því í haust um sama efni, að stytt er það tímabil, sem dvalartími útlendinga þarf að ná hér á landi til þess að þeir verði skattskyldir, úr þremur mánuðum niður í einn mánuð, og styðst þetta við þá reynslu, að þess hefur orðið vart, að útlendingar dveldu hér upp undir þrjá mánuði og hyrfu síðan af landi burt, og slyppu þannig undan skattgreiðslu, en kæmu að vörmu spori og byrjuðu vinnu aftur.

Í öðru lagi er lagt hér til, að útlendingar verði hér skattskyldir, þó að þeir dvelji hér skemmri tíma en einn mánuð, ef þeir hafa haft í hreinar tekjur hér á landi 10 þús. kr. eða þar yfir. Hér er einkum stefnt að því, að skattskyldir verði hér menn, sem koma hingað sem listamenn, og aðrir slíkir, sem grípa hér upp allmiklar fjárhæðir á skömmum tíma.

Önnur ákvæði frv. miða að því, að þessi ákvæði frv. verði framkvæmanleg. Það er gert að skyldu þeim, sem greiða þessum mönnum kaup hér á landi, að halda eftir af kaupi þeirra skatti og útsvari af tekjum þeirra, sem er gert til þess, að þessir útlendingar komist ekki af landi brott þannig, að þeir komist undan skattinnheimtunni.

Þá er einnig að því vikið í frv., að innlendir menn kunni undir vissum kringumstæðum að sæta þeirri sömu meðferð um að verða að greiða skatta af tekjum sínum eins og ég hef greint, að í þessu frv. er ákveðið gagnvart útlendingum, ef vitað er, að þeir muni fara af landi burt, en hafa haft dvöl hér hluta af skattárinu. Og er þannig heimilt að ákveða þessum innlendu mönnum skattgreiðslu vegna hluta úr ári eftir sömu hlutfallsreglum og gilda um útlendinga eftir ákvæðum frv.

Annars er um álagningu skattsins farið, eins og þegar um innlenda menn er að ræða, eftir almennum l. um þessi atriði. En efni þessara l., ef frv. verður samþ., er til þess að gera innheimtu skattsins effektíva í framkvæmd.

Ég geri ráð fyrir, að frv. þetta fari aftur til fjhn. og sæti þar nánari athugun í samráði við hæstv. fjmrh. og aðra. sem málið hafa undirbúið. Það kann að koma til, að athuga þurfi sérstaklega einstakar gr. frv., og ég hef átt tal við skrifstofu fjmrn. um það atriði, að þegar um er að ræða ýmsa menn útlenda, sem skamman tíma dvelja hér og hafa hér atvinnu, þá leggst á tekjur þeirra meiri kostnaður en almennt gerist, og þá er eðlilegt, að þeir hafi vissan hluta af tekjum þessum skattfrjálsan. Það eru ýmsar reglur um þetta gildandi hjá nágrannaþjóðum okkar. Sumar þeirra taka nokkurn skatt af slíkum mönnum, en sumar engan.

Ég geri ráð fyrir, að fjhn. taki á milli umr. frv. þetta til athugunar, ef þess gerist sérstaklega þörf.