07.11.1946
Neðri deild: 13. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

55. mál, aðflutningsgjöld o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. það var af misskilningi sagt hjá hæstv. utanrrh., að þeim embættismönnum, sem hafa útbúið þetta frv., hafi þótt eðlilegast að hafa þetta svo, því að þeir segja hér í aths. við frv.: „Hefði ef til vill verið eðlilegast að breyta hverjum einstökum l., sem samningurinn snertir“ o.s.frv. En þeir töldu það bara „of umsvifamikið“, eins og stendur einnig í aths. við frv. Hér með er því að því stefnt að breyta öllum l., sem koma í bága við hagsmuni Bandaríkjanna við framkvæmd samningsins hér á landi. Ég hélt, að sá hluti ríkisstj., sem stóð að þessum samningi við Bandaríkin, ætlaði alls ekki að hafa þess háttar aðferðir í frammi, heldur vildi hann ganga svo vel sem hægt væri frá þessum málum að forminu til.

Ég veit ekki, hvernig hæstv. forsrh. hefur hugsað sér framkvæmd á þessum l.. á t.d. tollafgreiðslunni. Er það meiningin, ef þetta frv. öðlast lagagildi eins og það er, að þegar vörur koma til setuliðsins, sem er nú kallað starfslið í samningnum, á flugvellinum, þá skrifi tollyfirvöldin hér þær upp? Eða á að vera hægt að fara með slíkar vörur í gegn, án þess að þær séu skoðaðar? Ég get varla hugsað mér, að það síðar nefnda gæti verið meiningin. Og hvað er þá meiningin um allar vörur, sem eru adresseraðar til starfsfólksins ameríska á flugvellinum? Er þá meiningin, að þegar búin er tollskoðunin, þá eigi Íslendingar að hafa rétt til að ráða yfir þessu öllu saman, þannig að þeir geti neitað þeim vörum, sem þeim þykir ekki heyra undir þennan samning? Ég álit, að um þetta eigi íslenzkir embættismenn að hafa skýr lagafyrirmæli, svo að þeir geti verið öruggir um að standa ásinum rétti, þegar þeir eiga að gæta réttar landsins. Þess vegna álit ég, að hér eigi að koma sú breyt. á, að frv. til breyt. í þessum efnum verði á þá lund, sem þeir embættismenn, sem samið hafa þetta frv., hafa talið eðlilegasta, enda þótt sá háttur sé nokkru umsvifameiri. Ef svo væri breytt til, mundi sparast málarekstur og árekstrar við starfslið Bandaríkjanna. ef vel væri gengið frá þessu. Þess vegna væri rétt af hæstv. ríkisstj. að segja þeim, sem samið hafa þetta frv., að þeir skuli gera þetta á þann hátt. sem þeim að eigin dómi þykir eðlilegast, semja frv. um að breyta viðkomandi l., til þess að hæstv. Alþ. viti, hverju það á að að ganga.